Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna óttast um öryggi þúsunda flóttamanna í Kólumbíu

13. apr. 2007

Þúsundir hafa flúið heimili sín í Narino-héraði í Kólumbíu undan átökum stjórnarhers og herja uppreisnarmanna. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hefur kallað eftir að óbreyttum borgurum í landinu verði veitt vernd og skorar á þarlend stjórnvöld að veita þeim sem lenda á milli í þessum átökum aðstoð.

Á síðustu tveimur vikum hafa yfir sex þúsund manns flúið til bæjanna El Charco og La Tola sem eru í norðurhluta Narino, að sögn Ron Redmond talsmans Flóttamannastofnunar. Yfirvöld á staðnum hafa opnað skóla og aðrar opinberar byggingar til að skjóta skjólshúsi yfir flóttamennina, en þrátt fyrir viðleitni stjórnvalda, kirkjunnar og alþjóðlegra samtaka er enn skortur á vatni og áhöldum til að veita læknisaðstoð. Í El Charco hefur aðeins einn af hverjum þrjátíu sem þangað hafa komið dýnu til að sofa á.

Redmond segir að átökin í Narino hafi verið hörð í rúmt ár. Flóttamannahjálpin hafi miklar áhyggjur af því að fjöldi óbreyttra borgara haldi áfram að þjást vegna þeirra. „Við munum bráðlega gera út leiðangur til þeirra svæða sem verst hafa orðið úti. En viðvera starfsmanna mannúðarsamtaka tryggir ekki ein og sér öryggi þeirra þúsunda sem eru í hættu, né heldur leysir vanda þeirra.”

Um þrjú þúsund manns sem misst höfðu heimili sín voru í El Charco í byrjun vikunnar en þessar tölur eru fljótar að breytast. Þrátt fyrir að öryggi sé ekki tryggt hafa sjö hundruð fjölskyldur snúið heim aftur en þrjú hundruð til viðbótar komu til bæjarins eftir að hafa verið í víglínu átakanna í nokkra daga. Hundruð fjölskyldna til viðbótar eru innilokuð á átakasvæðunum og horfa nú fram á að matarbyrgðir eru að klárast.

Flóttamannastofnun SÞ hefur þungar áhyggjur af öryggi þeirra sem hafa snúið aftur heim, sem og þeirra sem reyna að flýja átökin. Öryggi borgaranna heldur áfram að versna annars staðar í Narino-héraðinu, þar sem nýir vopnaðir hópar hafa sprottið upp. Fjöldi lítilla þorpa er að tæmast í fjallahéruðunum í nágrenni við Policarpa-sýslu, og tvisvar hefur fjölmennur hópur fólks sem var hrakin burtu af heimilum sínum flúið yfir landamærin til Ekvador.

Um þrjár milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín í Kólumbíu vegna stöðugra stríðsátaka sem hafa geysað síðustu fjörutíu árin. Hvergi annars staðar hafa jafn margir orðið að flýja heimili sín eins og í Kólumbíu þar sem um átta prósent af fjörutíu milljónum íbúa hafa misst heimili sín.

Antonio Guterres yfirmaður Flóttamannahjálparinnar fór í heimsókn til Kólumbíu í síðasta mánuði og hitti þar Álvaro Uribe forseta landsins. Guterres stjórnaði einnig ráðstefnu í höfuðborginni Bogota til að vekja athygli á afleiðingum þess að þurfa að flýja heimili sitt. Hann hvatti einnig til þess að mannúðarlög öðluðust fullt gildi í landinu til að fólk án heimilis hefði jafnan aðgang að réttindum sínum.

Haustið 2005 buðu íslensk stjórnvöld flóttakonum og – börnum öruggt skjól á Íslandi í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Rauða kross Íslands og Reykjavíkurborg.