Samningur um móttöku flóttamanna 2007-2008

14. maí 2007

Í mars síðastliðnum ákvað ríkisstjórn Íslands að bjóða árlega hópi flóttamanna öruggt skjól á Íslandi í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossinn og sveitarfélög á Íslandi. Með ákvörðuninni er Ísland komið í hóp annarra Norðurlandaþjóða sem einnig bjóða flóttamönnum skjól með þessum hætti.

Rauði krossinn hefur, ásamt móttökusveitarfélagi, haft lykilhlutverki að gegna í móttöku flóttamanna og þann 10. maí síðastliðin var gerður samningur vegna flóttamannaverkefnisins milli félagsmálaráðuneytisins og Rauða kross Íslands.

Í samningnum sem Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra og Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands undirrituðu skuldbindur Rauði krossinn sig meðal annars til að veita félagsmálaráðuneytinu aðstoð og ráðgjöf vegna móttöku og aðlögunar flóttamanna sem ríkisstjórnin býður til landsins. Einnig gætir Rauði krossinn hagsmuna flóttamanna og veitir þeim almenna liðveislu sem er byggð á grundvallarmarkmiðum Alþjóðahreyfingar Rauða krossins um mannúð, hlutleysi, óhlutdrægni, sjálfstæði og sjálfboðna þjónustu.

Í ár var ákveðið að bjóða 25-30 kólumbískum konum og börnum griðastað á Íslandi í samráði við Flóttamannastofnun SÞ. Undirbúningsferlið er þegar hafið og er vonast til að flóttafólkið, sem kemur úr verkefni Flóttamannastofnunar sem kallast „konur í hættu“ eða „Women at Risk“ geti komið hingað til lands í sumar eða snemma í haust. 

Rauði krossinn og sveitarfélög sem veita flóttafólki móttöku hafa ávallt með sér ríkt samstarf um þjónustu og aðstoð við flóttafólk og njóta stuðnings stjórnvalda í þeim efnum. Af hálfu Rauða krossins gegna sjálfboðaliðar félagsins lykilhlutverki við móttöku í gegnum svokallað stuðningsaðilakerfi þar sem flóttafólkinu er veittur stuðningur með ýmsum hætti í eitt ár.

Hugsanlega verður flóttafólkinu boðið að setjast að í Reykjavík og verða það þá Reykjavíkurdeild Rauða krossins og Reykjavíkurborg sem annast móttöku og aðstoð við flóttafólkið.