Breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt

22. maí 2007

Þann 16. mars 2007 samþykkti Alþingi breytingar á lögum um ríkisborgararétt frá 1952. Rauði kross Íslands fékk tækifæri til að gefa álit sitt á frumvarpi til laga og skilaði ítarlegri umsögn til allsherjarnefndar með athugasemdum sínum og ábendingum. Fengu fulltrúar félagsins einnig tækifæri til að koma fyrir allsherjarnefnd til að skýra mál sitt frekar.

Rauði kross Íslands hefur tekið að sér málsvarahlutverk og réttindagæslu flóttamanna og hælisleitenda á Íslandi samkvæmt samningum og samkomulagi við stjórnvöld en félagið er einnig fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) á Íslandi. Í umsögn sinni lagði félagið því ríka áherslu á að varpa ljósi á aðstæður ofangreindra hópa en jafnframt lagði félagið áherslu á að tillit yrði tekið til ríkisfanglausra einstaklinga og kom meðal annars einnig sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi þau ákvæði í frumvarpinu sem snéru að prófi í íslensku.

Í frumvarpinu sem varð að lögum þann 28. mars síðastliðinn var ljóst að tillit hafði verið tekið til hluta af þeim athugasemdum og ábendingum sem félagið og aðrir umsagnaraðilar höfðu komið á framfæri við allsherjarnefnd. Rauði krossinn hafði til að mynda lagt áherslu á að flóttamenn sem fengju dvalarleyfi af mannúðarástæðum ættu að eiga þess kost á að sækja um ríkisborgararétt eftir fimm ár líkt og þeir flóttamenn sem rúmast innan skilgreiningar flóttamannasamningsins frá 1951 á hugtakinu flóttamaður. Í frumvarpinu sem varð að lögum var tekið tillit til þessa og telur Rauði krossinn það til bóta.

Á meðal annarra helstu breytingar sem gerðar voru á lögum um íslenskan ríkisborgararétt er að nú verða umsækjendur að hafa staðist próf í íslensku samkvæmt kröfum sem dómsmálaráðherra setur í reglugerð. Það ákvæði tekur ekki gildi fyrr en 1. janúar 2009. Önnur lögmælt skilyrði fyrir veitingu ríkisborgaréttar er að finna í 8. gr. laga um ríkisborgararétt, s.s. að umsækjandi megi ekki hafa þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi síðastliðin þrjú ár. Séu lögmælt skilyrði ekki uppfyllt er „dómsmálaráðherra þó ávallt heimilt að vísa umsókn um ríkisborgararétt til ákvörðunar Alþingis sem eftir atvikum veitir umsækjanda ríkisborgararétt með lögum.“

Umsögn Rauða kross Íslands má finna hér.

Breytingar á lögum um ríkisborgararétt má sjá hér í heild sinni.