Fjöldi flóttamanna eykst í fyrsta skipti í fimm ár

20. jún. 2007

Fjöldi flóttamanna í heiminum hefur aukist í fyrsta skipti í fimm ár, aðallega vegna ástandsins í Írak að því er
Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) skýrði frá í gær. 

Í skýrslu UNHCR fyrir árið 2006 kemur fram að fjöldi flóttamanna sem stofnunin liðsinnir jókst um fjórtán prósent á síðasta ári eða í næstum því tíu milljónir og er þetta mesti fjöldi síðan 2002. Á sama tími jókst fjöldi fólks á meðal annarra skjólstæðinga UNHCR verulega en aðallega vegna bættrar skráningar og betri tölfræði. 

„Fjöldi fólks sem flosnar upp vegna ofsókna, skorts á umburðarlyndi og ofbeldis um heim allan fjölgar. Við verðum að glíma við nýjar áskoranir og kröfur í breyttum heimi án þess að gleyma skyldu okkar að verja réttindi flóttamanna og annarra skjólstæðinga okkar,” sagði Flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna António Guterres þegar hann fylgdi skýrslunni úr hlaði.

Samkvæmt skýrslu UNHCR á fjölgunin að miklu leyti rætur að rekja til ástandsins í Írak. Í árslok 2006 höfðu ein og hálf milljón Íraka leitað hælis í öðrum löndum, aðallega Sýrlandi og Jórdaníu. 

Stærsti hópurinn sem var undir verndarvæng UNHCR 2006 voru Afganir (2.1 milljón) síðan Írakar (1.5 milljón), Súdanir (686 þúsund), Sómalir (460 þúsund) og flóttamenn frá Kongó og Búrundí (um 400 þúsund frá hvoru landi).
Í tölum UNHCR er ekki gert ráð fyrir 4.3 milljónum Palestínumanna í Jórdaníu, Líbanon, Sýrlandi og herteknum svæðum Palestínumanna en þau falla undir sérstakt umboð annarar stofnunar, Palestínuflóttamannaaðstoðarinnar (UNRWA). Ef þeim tölum er bætt við er fjöldi flóttamanna undir verndarvæng beggja stofnana meir en 14 milljónir.  

Sjá nánar.

Og: 2006 Global Trends: Refugees, Asylum-seekers, Returnees, Internally Displaced and Stateless Persons

Ávarp framkvæmdastjóra Sameinuðu Þjóðanna Ban Ki-moon á Alþjóðlega flóttamannadeginum 20. júní 2007

Mannkynið er á meiri hreyfingu nú en nokkru sinni og fleira fólk en áður flytur sig á milli landa og jafnvel meginlanda en áður í leit að betri tækifærum. Við skulum hins vegar minnast þess að ekki allir flytja sig um set af eigin vilja.  

Flóttamenn yfirgefa ekki heimili sín og þorp af fúsum og frjálsum vilja. Þeir neyðast til að gera það vegna átaka eða ofsókna. Oft flýja þeir til að bjarga lífi sínu, til að reyna að öðlast öryggi og að sinna brýnustu þörfum sínum. Útlegð hefur haft í för með sér gríðarlegar þrautir fyrir tugi milljóna manna. Í stað þess að öðlast menntun eða fá atvinnu þurfa margir að þola óvissu, skort og umburðarleysi..

Samanborið við undanfarna áratugi er fjöldi flóttamanna í heiminum í lægri kantinum. En nýjustu tölur segja ekki alla söguna því þær ná ekki yfir alla hópa sem flosnað hafa upp vegna öryggisleysis eða pólitískra erja. Heilu samfélögin lenda á vergangi innan síns heimalands.