Stofnanir Sameinuðu þjóðanna hvetja til ráðstafana til að draga úr dauðsföllum á höfum úti

6. júl. 2007

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og Alþjóða Siglingamálastofnunin (IMO) hafa snúið bökum saman til að stuðla að auknum aðgerðum til að koma í veg fyrir dauðsföll meðal flóttamanna sem fara á smábátum yfir Miðjarðarhaf, Aden flóa og önnur hættuleg hafssvæði.

„Það er mjög fjölbreyttur hópur sem ferðast á bátum með þessum hætti, flóttamenn og hælisleitendur á hrakningi undan ofsóknum eða átökum, en einnig fólk í leit að betri lífskjörum. Fólkið er oft á mjög lélegum bátum og í bráðri lífshættu. Ferðirnar eru oft skipulagðar af glæpahringjum sem enga virðingu bera fyrir mannslífum,“ segir Erika Feller, sem stýrir aðgerðum Flóttamannastofnunar til að vernda flóttamenn og hælisleitendur.

Yfirlýsing þessara tveggja stofnana kemur í kjölfar fundar sem haldinn var nýlega í Lundúnum um þróunina í ólöglegum fólksflutningum á sjó, þeirri lífshættu sem af þeim stafa og þeirri björgunarskyldu sem jafnframt hvílir á öðrum sjófarendum og yfirvöldum.

Feller nefndi sérstaklega hræðilegar raunir sómalskra flóttamanna sem komið höfðu til Yemen á flótta undan átökum í heimalandi sínu. Dæmi eru um skelfilegar barsmíðar og misþyrmingar á flóttafólki og stundum er því fleygt fyrir borð. Á þessu ári hafa fleiri en 5.600 manns komið að landi í Yemen með smábátum. Vitað er að á sama tíma hafa 200 manns misst lífið á leiðinni og enn fleiri er saknað.

Mikill fjöldi fólks kemur ólöglega á litlum bátum frá Afríku til Evrópu um sumartímann, ýmist yfir Miðjarðar- eða Atlantshaf. Oft lendir bátafólkið í sjávarháska og kalla þarf út björgunarsveitir til að hjálpa því. Tugir hafa látið lífið og margra er saknað

„Ekki er fátítt að fólk finnist á duflum úti á hafi þar sem það hefur verið skilið eftir og jafnframt er því miður algengt að fólkinu sé ekki hleypt í land eftir að því hefur verið bjargað,“ segir Feller.

Oft er erfitt fyrir skipstjóra að koma hælisleitendum og flóttamönnum frá borði eftir að til hafnar er komið sökum þess að það hefur engin lögleg skilríki eða landvistarleyfi.

Í lok júní fundust tuttugu og einn flóttamaður frá Afríku í flotkvíum íslensks togara sem var á siglingu á alþjóðlegu hafsvæði á Miðjarðarhafi. Ein kona var látin þegar að skipverjar á togaranum urðu fólksins varir. Utanríkisráðuneytið tilkynnti Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um málið og var í framhaldi siglt með fólkið til Möltu en þarlend stjórnvöld féllust á að fólkið fengi að fara þar í land af mannúðarástæðum.

Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna eru flestir flóttamenn sem lenda á Möltu, eftir að hafa ferðast yfir hafið, frá Sómalíu, Erítreu, Írak, Súdan og Kongó sem öll eru stríðshrjáð lönd. Flóttamönnum sem leggja sig í hættu með þessum hætti í von um að fá öruggt skjól í Evrópu hefur fjölgað nokkuð síðustu ár.

Flóttamannastofnun og Alþjóða Siglingamálastofnun ásamt öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna hyggjast vinna nánar saman að lausn þessa mannúðarvanda í náinni framtíð. IMO, Alþjóðasiglingamálastofnunin, er sú stofnun Sameinuðu þjóðanna sem er ábyrg fyrir öryggi sjófarenda og varnir gegn mengun á höfum úti. 

Rauði kross Íslands fer með umboð í málefnum flóttamanna hér á landi.