Tækifæri til að ná langt í lífinu

Þórunni Elísabet Bogadóttur blaðamann á Fréttablaðinu

2. ágú. 2007

Viðtöl við Jeimmy Andrea Gutiérrez, Björgu Sigríði Hermannsdóttur, Atla Viðar Thorstensen og Karen H. Theodórsdóttur vegna komu flóttafólks frá Kólumbíu í september. Greinin, eftir Þórunni Elísabet Bogadóttur birtist í Fréttablaðinu 29. júlí.

Árið 2005 kom hingað til lands þrjátíu manna hópur flóttafólks frá Kólumbíu. Í september er von á öðrum sams konar hópi til landsins, en í báðum hópum eru eingöngu konur og börn. Jeimmy Andrea Gutiérrez var í hópi þeirra kvenna sem komu fyrir tveimur árum. Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddi við Jeimmy og Björgu Sigríði Hermannsdóttur stuðningsaðila hennar.


 
Hjálpin sem ég hef fengið er mjög sérstök. Þetta er tækifæri sem fáir í minni stöðu fá, tækifæri til að fara í skóla og mennta mig. Líf Íslendinga er svo allt öðruvísi en lífið sem ég þekkti.. Mynd: Fréttablaðið.

Í þrjátíu manna hópi flóttafjölskylda frá Kólumbíu sker Jeimmy Andrea Gutiérrez sig úr. Hún á ekki börn eða fjölskyldu hér heldur kom hún ein hingað til lands fyrir tveimur árum. Þá var hún aðeins 21 árs gömul. Ekki ber mikið á fréttum frá heimalandi hennar hérlendis og því vita ekki allir hvernig ástand ríkir þar. Í Kólumbíu hafa verið vopnuð átök í rúmlega fjörutíu ár. Talið er að vegna átakanna séu á bilinu tvær til þrjár milljónir manna á flótta innan Kólumbíu auk tugþúsunda sem búa í nærliggjandi löndum.

Vissi ekkert um Ísland

"Hér eru flestir hlutir öðruvísi. Maturinn, fólkið og veðrið," segir Jeimmy aðspurð um landið. Það voru blendnar tilfinningar sem fylgdu því að koma til Íslands. "Ég var stressuð og kvíðin en hafði samt miklar væntingar og var forvitin. Þetta er svo langt í burtu og ég vissi ekkert um Ísland." Jeimmy segir að hún hafi fengið upplýsingar um landið áður en hún kom en samt hafi margt komið henni á óvart. Hún nefnir sérstaklega hversu breytilegt veðrið var allan ársins hring.

Það er langt ferli að koma sér fyrir og aðlagast í nýju landi og Jeimmy segir því ferli alls ekki lokið. "Fyrsta árið var mjög erfitt, en maður kynnist svo miklu og svo mörgum. Ég fékk ótrúlega mikinn stuðning og allir reyndu að hjálpa og veita mér upplýsingar."

Jeimmy segist ekki hafa fundið fyrir fordómum í sinn garð. "Sumir eru feimnir. Flestir eru allt annað en fordómafullir. Eru forvitnir og vilja fá að vita meira um mig." Þó að hún hafi ekki orðið fyrir fordómum sjálf hefur hún þó heyrt út undan sér um fólk sem ekki vilji fleiri útlendinga til Íslands. Hún telur það að sumu leyti skiljanlegt vegna þess að landið sé svo lítið.

Urðu strax vinkonur

Rauði krossinn útvegar þrjár til fjórar stuðningsfjölskyldur fyrir hverja flóttamannafjölskyldu sem kemur hingað til lands. Stuðningsaðilarnir aðstoða flóttafólk við að fóta sig í íslensku samfélagi og veita félagslegan stuðning. Jeimmy segir stuðningsfjölskyldurnar veita mikla hjálp, hún hafi þar eignast bæði fjölskyldu og vini.

Björg Sigríður Hermannsdóttir var ein þeirra sem ákváðu að gerast stuðningsaðilar þegar von var á hópnum til landsins. Björg og Jeimmy urðu strax góðar vinkonur. "Mér þótti verkefnið strax spennandi. Ég hafði smá tíma aflögu í hverri viku svo ég taldi mig geta komið þessu að. Svo tala ég líka spænsku og vissi að það myndi nýtast vel," segir Björg. Hún segir verkefnið hafa gengið ótrúlega vel og öll fjölskyldan hennar hafi tekið þátt í því með henni. "Það er mjög mikilvægt fyrir fólkið að læra á umhverfið strax. Stuðningsfjölskyldurnar hjálpa til við að komast inn í samfélagið í byrjun. Svo fer þetta að snúast meira um félagsskap og einfaldlega að vera til staðar ef eitthvað bjátar á," segir Björg og bætir því við að í mörgum tilvikum þróist samskiptin út í mikla vináttu. "Við kynntumst til dæmis hinum konunum í gegnum Jeimmy og hún kynntist öðrum Íslendingum í gegnum okkur. Þetta eru vinir manns fyrir lífstíð."

Héldu afmælisveislu

Þegar ár er liðið frá komu flóttafólksins lýkur stuðningsverkefninu formlega. Allar stuðningsfjölskyldur Jeimmyar halda þó enn sambandi við hana. "Fjölskyldurnar mínar halda sambandi við mig og líka hver við aðra. Verkefnið kláraðist í september á síðasta ári og þá átti ég líka afmæli. Þau héldu öll óvænta afmælisveislu fyrir mig heima hjá einni fjölskyldunni. Stuðningurinn og vináttan heldur áfram þótt verkefnið sé búið."

Íslenskan erfið

Björg og Jeimmy eru sammála um að samvera með stuðningsfjölskyldunum flýtir fyrir og hjálpar fólkinu að læra íslensku. "Ég fer í stór matarboð og um jólin fór ég í fjölskylduboð. Ég er bara hluti af því. Það er frábært að fara í svona boð og kynnast fleira fólki. Það hefur líka verið mjög gott því það hjálpar að hlusta á íslenskuna," segir Jeimmy. Björg bætir því við að konurnar og börnin hafi verið fljót að læra íslensku.

Jeimmy segir íslenskuna þó vera erfiða. Allar konurnar fóru strax í íslenskukennslu hjá Mími þar sem þær voru í níu mánuði. Að því loknu fór Jeimmy í Fjölbrautaskólann í Ármúla þar sem hún var ánægð. "Næsta haust er ég að hugsa um að fara í íslensku fyrir erlenda stúdenta í háskólanum," segir hún. "Mig langar að læra félagsráðgjöf en þarf fyrst að læra íslenskuna."

Allir læra á verkefninu

"Í okkar löndum er bara töluð spænska. Það er því erfitt að vera að læra bæði íslensku og ensku, eins og ég gerði í FÁ. Maður verður samt eiginlega að kunna bæði tungumálin til að vera á Íslandi," segir Jeimmy. Hún segist þó vera betri í íslensku en ensku. Björg hefur líka lært mikið því hún hefur getað æft spænskuna sína í samræðum við Jeimmy og hinar konurnar. Hún segist hiklaust mæla með þátttöku í verkefnum sem þessum. "Það geta allir tekið þátt, sama hvort þeir tala spænsku eða íslensku og sama á hvaða aldri þeir eru. Hver og einn gerir bara það sem hentar honum. Þess vegna er svo gott að hafa nokkrar stuðningsfjölskyldur og sem fjölbreyttastan hóp. Það getur enginn einn séð um allt, þess vegna er mikilvægt að fá fólk á öllum aldri sem hefur áhuga á mismunandi hlutum.

Ég lærði ekki síður af þessu. Það er gott fyrir mann að tala við fólk sem hefur svona ólíkan bakgrunn. Maður fær kannski pínulitla innsýn inn í það hvernig það er að þurfa að flýja land og setjast að á nýjum stað," segir Björg.

Þakklát fyrir fágætt tækifæri

"Hjálpin sem ég hef fengið er mjög sérstök. Þetta er tækifæri sem fáir í minni stöðu fá, tækifæri til að fara í skóla og mennta mig. Líf Íslendinga er svo allt öðruvísi en lífið sem ég þekkti. Hér eru mikil tækifæri til að ná langt í lífinu. Ég er svo þakklát fyrir alla hjálpina sem ég hef fengið og allt sem hefur verið gert fyrir okkur," segir Jeimmy. "Besta leiðin til að sýna þakklæti okkar er að læra íslenskuna, fara í nám og sýna okkar bestu hliðar."

---------------------------------------------------------------------------------------------------

Vopnuð átök í tugi ára

Atli Viðar Thorstensen er verkefnastjóri hjá Rauða krossinum og hefur umsjón með verkefnum tengdum hælisleitendum og flóttamönnum.

"Í Kólumbíu hafa verið vopnuð átök í meira en 40 ár sem eru mjög flókin. Þar berjast vopnaðar fylkingar skæruliða sín á milli og við stjórnarherinn. Óbreyttir borgarar lenda þá oft inni í miðjum átökum. Hóparnir geta verið tengdir eiturlyfjaviðskiptum og smygli," segir Atli. Átökin eru fjármögnuð að hluta með eiturlyfjaviðskiptum og hóparnir geta haft hagsmuni af því að átökin haldi áfram. "Þarna eru allir að berjast á móti öllum. Hóparnir innheimta stríðsskatt af fólki og ef það borgar ekki getur það verið ofsótt. Stundum telja hópar einhverja hjálpa andstæðingunum og getur einnig lent í ofsóknum þess vegna. Svo koma hóparnir á bæi fólks og heimta mat, drykk og gistingu. Ef ekki er orðið við því er hætta á ofsóknum."

Í dag er talið að um tvær til þrjár milljónir manna hafi flúið heimili sín og séu flóttamenn innan eigin lands. "Svo eru tugþúsundir sem hafa farið til nærliggjandi landa. Þar er fólk þó ekki óhult vegna nálægðar við skæruliðana og vegna fordóma sem það verður fyrir. Það eru sérstaklega einstæðar mæður sem verða fyrir þessum fordómum." Á þetta bætist að mikil fátækt er í sumum nágrannaríkjunum.

"Við höfum oft einhverja ákveðna ímynd af flóttafólki en það er oftast venjulegt fólk sem hefur lent í óvenjulegum aðstæðum."

----------------------------------------------------------------------------------------------------------
Bjóða í mat og aðstoða börnin við heimanám

Karen H. Theodórsdóttir er verkefnastjóri hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins og hefur umsjón með stuðningsaðilakerfinu. Von er á nýjum hópi kólumbískra flóttamanna um miðjan september.

"Við reynum að finna þrjár til fjórar fjölskyldur í kringum hverja flóttamannafjölskyldu. Við höfum reynt að fá fólk á öllum aldri, bæði fjölskyldur og einstaklinga. Svo eru sumir sem tala spænsku og aðrir ekki. Það er allur gangur á þessu, allir hafa eitthvað að gefa," segir Karen. Fyrsta verk sjálfboðaliða felst í undirbúningi. "Allir sjálfboðaliðar fara á undirbúningsnámskeið og þeir fá líka námskeið í sálrænni skyndihjálp áður en þeir hefja störf." En undirbúningurinn felst í fleira. Þegar íbúðir flóttafólksins eru tilbúnar eru það sjálfboðaliðar sem mæta á staðinn og koma þeim í stand. "Húsgögnum er komið fyrir í íbúðunum svo fólk sé ekki að byrja alveg frá byrjun."

Stuðningsverkefnið stendur opinberlega yfir í ár frá komu. Fyrstu vikurnar snýst stuðningurinn aðallega um hagnýt atriði sem allir þurfa að vita þegar þeir koma í nýtt land. Hvar sé ódýrast að versla, hvar megi finna þjónustu og skóla og hvernig strætisvagnakerfið virkar, svo dæmi séu nefnd.

"Svo þegar frá líður er þetta meira félagslegur og sálrænn stuðningur. Þetta gefur flóttafólkinu tækifæri á að mynda félagsleg tengsl og kynnast fleiri Íslendingum í gegnum stuðningsfjölskyldurnar. Þetta kemur í veg fyrir félagslega einangrun. Það er hugmyndafræðin á bak við þetta." Karen segir mjög misjafnt hvað fólk geri og í hverju hjálpin er fólgin. "Fólk heldur matarboð og fer á kaffihús. Svo aðstoða sumir við heimanám barnanna og íslenskukennsluna sem allar konurnar fá." Börnin sem eru á grunnskólaaldri fara öll í sína hverfisskóla. "Þau fara í skóla um leið og þau koma. Þeim er svolítið hent út í djúpu laugina en oftast eru þetta svo duglegir krakkar. Þau eru fljót að ná að fóta sig.

Stuðningsaðilakerfi eins og hér er starfrækt hefur ekki verið notað annars staðar í heiminum, í það minnsta enn sem komið er. "Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur þó verið að líta til þessa verkefnis og hversu vel þetta hefur gengið. Þar er íhugað að prófa þetta annars staðar. Það hefur sýnt sig að verkefnið hefur áhrif."

Karen segir verkefnið mæta mikilli velvild og fjöldi fyrirtækja veiti mikla aðstoð. "Mér finnst rosalega gaman að fylgjast með þessari samvinnu á milli svona margra aðila. Fyrirtækin og sjálfboðaliðar hjálpa og svo er þetta samstarfsverkefni ríkisins, sveitarfélagsins og Rauða krossins."

"Svo má ekki gleyma því að verkefnið gagnast ekki bara flóttafólkinu. Stuðningsaðilarnir fá mikið á móti; kynnast nýju fólki og nýjum menningarheimi."