Forseti Alþjóðaráðs Rauða krossins heimsækir Kólumbíu

28. ágú. 2007

Forseti Alþjóðaráðs Rauða krossins, Jakob Kellenberger, hóf í gær þriggja daga heimsókn til höfuðborgar Kólumbíu til að kynna sér aðstæður í landinu. Hann mun ræða við forseta landsins, Alvaro Uribe Vélez, utanríkisráðherra Kólumbíu, Fernando Araújo Perdomo, og varnarmálaráðherrann Juan Manual Santos Calderón.

Viðræðurnar munu að öllum líkindum snúast að mestu um starfsemi Alþjóðaráðs Rauða krossins í Kólumbíu og mannúðarmálefni, svo sem fjölda flóttamanna innan landamæra Kólumbíu og alþjóðleg mannúðarlög sem gilda í þeim innanlandsófriði sem hefur geysað í Kólumbíu í meira en fjóra áratugi.

Kellenberger mun hitta yfirmenn Rauða krossins í Kólumbíu og ræða verkefni og samvinnu sín á milli. Einnig mun hann heimsækja kólumbíska flóttamenn sem eru á vergangi innan Kólumbíu en hafa fengið aðstoð frá Rauða krossinum. Hann mun taka þátt í skipulögðum atburði sem er ætlað að draga athygli að vandamálum flóttafólks í Kólumbíu og starf Rauða krossins í þágu þess. Síðasta áratug hefur Alþjóðaráðið aðstoðað meira en milljón kólumbískra flóttamanna í Kólumbíu.

Alþjóðaráð Rauða krossins hóf starfsemi í Kólumbíu árið 1969 þegar samtökunum var heimilað að heimsækja fanga sem höfðu verið teknir höndum í tengslum við innanlandsátökin. Auk fangaheimsóknanna hefur Alþjóðaráðið barist fyrir því að alþjóðleg mannúðarlög séu virt í átökum og að þau verði hluti af kólumbískum landslögum og að stjórnarherinn og öryggissveitir fái fræðslu og þjálfun í mannúðarlögum. Þá hefur Alþjóðaráðið einnig greitt fyrir lausn gísla og öryggisfanga, rekið landbúnaðarverkefni, vatnsveituverkefni og unnið að hreinlætismálum fyrir íbúa ákveðinna svæða sem hafa lent í miðju átaka.

Talið er að meira en þrjár milljónir manna hafi neyðst til að yfirgefa heimili sín í Kólumbíu í tengslum við átökin sem þar geysa. Langflestir eru á flótta innan eigin landamæra en hundruð þúsunda hafa flúið til nágrannaríkjanna.

Íslensk stjórnvöld buðu árið 2005 kólumbískum flóttakonum og börnum þeirra griðarstað á Íslandi í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Rauða kross Íslands og Reykjavíkurborg. Í ár eru þrjátíu kólumbískar konur og börn væntanleg til landsins í boði íslenskra stjórnvalda í samvinnu við ofangreinda aðila. Flóttafólkið mun setjast að í Reykjavík.