Skyndihjálparnámskeið fyrir hælisleitendur

31. ágú. 2007

Hælisleitendur sem bíða hér málsmeðferðar var boðið að taka skyndihjálparnámskeið í vikunni en skyndihjálparkennsla hefur verið eitt meginverkefni Rauða kross Íslands frá upphafi.

Alls tóku 13 hælisleitendur þátt í námskeiðinu og gerðu góðan róm að því. Komu þeir frá ýmsum löndum, s.s. Sýrlandi, Líberíu, Rússlandi, Íran, Alsír, Albaníu, Kenýa, Úsbekistan og Malasíu. Góður rómur var gerður að námskeiðinu.

Á námskeiðinu var farið í helstu grunnatriði skyndihjálpar til að geta hjálpað slösuðum eða sjúkum þar til aðstoð fagfólks berst. Þannig var til að mynda farið í atriði eins og aðgerðir á slysavettvangi, hvernig tryggja á öryggi, skoðun og mat á veikum og slösuðum, endurlífgun, losun aðskotahlutar úr öndunarvegi, hvernig meðhöndla má áverka eins og blæðingar, höfuðhögg, mænuskaða, brunasár, beinbrot og liðáverka og alvarleg veikindi eins og brjóstverk, bráðaofnæmi, flogaveiki, sykursýki, öndunar­erfiðleika og heilablóðfall. Námskeiðið var kennt á ensku og var Kristján Carlsson Granz leiðbeinandi á því. Honum til aðstoðar var Gunnhildur Sveinsdóttir.

Rauði krossinn mun leitast við að bjóða hælisleitendum upp á námskeið í skyndihjálp tvisvar á ári. Bæði er boðið upp á námskeið á ensku og rússnesku. Þá mun Rauði krossinn einnig bjóða hælisleitendum upp á námskeið um einkenni ofurálags sem getur verið algengur fylgifiskur þeirra sem hafa flúið heimaland sitt og búa við mikla óvissu um framtíð sína.

Alls sóttu 535 einstaklingar um hæli á Íslandi frá 1990 til ársloka 2006. Af þeim fékk einn hælisleitandi stöðu flóttamanns en mun fleiri hafa fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum.