Knúið á lokaðar dyr?

Guðrúnu Dögg Guðmundsdóttur, Jóhönnu Eyjólfsdóttur og Kristján Sturluson

25. sep. 2007

Yfirvöld á Norðurlöndum senda árlega hundruð hælisleitenda til baka til stríðshrjáðra svæða þar sem þeir eiga mannréttindabrot og ofbeldi á hættu. Þetta er gert í trássi við viðmiðunarreglur og tilmæli Sameinuðu þjóðanna.
 
Í dag eru um það bil fjörtíu milljónir manna á vergangi víðsvegar um heiminn. Þetta er fleira fólk en býr á öllum Norðurlöndum til samans og fimmtán milljónum betur. Af öllum þessum milljónum manna leita aðeins um þrjátíu þúsund árlega hælis á Norðurlöndunum. Oft þarf fólk að bíða árum saman eftir ákvörðun stjórnvalda. Slík bið er mörkuð ótta og óvissu um framtíðina. Alltof oft er fólk síðan sent nauðugt aftur til landa þaðan sem það flúði stríðsátök og ofbeldi.
 
Endursendingar af þessu tagi eru ómannúðlegar og vanvirðandi og geta brotið í bága við alþjóðalög. Af þeim sökum hafa frjáls félagasamtök í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð tekið höndum saman um norrænt átak þar sem skorað er á norræn stjórnvöld að tryggja fólki sem flýr vopnuð átök þá vernd sem því ber.
 
Það eru ótal ástæður fyrir því hvers vegna fólk leitar hælis á Norðurlöndum; lífi blaðamanns sem skrifaði um spillta stjórnmálamenn er ógnað, kynhneigð annars stofnar honum í hættu og heil fjölskylda er á flótta eftir að hafa þurft að flýja árás skæruliða í heimalandinu. Hvort þetta fólk finnur öryggi í öðru landi er komið undir ríkinu sem það flýr til. Þetta getur oltið á pólítísku andrúmslofti á hverjum tíma en fyrst og fremst á því af hvaða orsökum það flýr. Það er staðreynd að sumar ástæður eru taldar gildari en aðrar. Raunin er sú að fólk sem flýr vopnuð átök á á brattann að sækja á Norðurlöndum; fólk sem flýr bara vopnuð átök fær sjaldnast vernd og hæli í okkar heimshluta.
 
Í flóttamannasamningnum segir að flóttamaður teljist sá sem flýr af „ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum eða stjórnmálaskoðana“. Á síðustu árum hafa stjórnvöld á Norðurlöndum tekið upp sífellt þrengri túlkun og talið einungis þá flóttamenn sem hafa þurft að þola persónulegar, einstaklingsbundnar ofsóknir. Samkvæmt þessu fær fólk ekki hæli á Norðurlöndum takist því ekki að sanna að ofbeldi sé beint að þeim sérstaklega, sem einstaklingum.
 
Vopnuð átök eiga oft rætur að rekja til ágreiningsmála vegna kynþáttar, trúmála, þjóðernis og stöðu ólíkra félagslegra hópa eða stjórnmálaafla. Túlkun á flóttamannasamningnum í samræmi við þetta myndi leiða til þess að fólk á flótta nyti ríkari verndar. Þó ríki Afríku og rómönsku-Ameríku hafi tekið upp rýmri skilgreiningu, þar sem allir þeir sem flýja innanríkisátök eru skilgreindir sem flóttamenn, á þetta ekki við á Norðurlöndum. Þrátt fyrir tilmæli Flóttamannastofnunnar Sameinuðu þjóðanna hafa Norðurlönd ekki staðið undir skyldu sinni gagnvart fólki sem flýr vopnuð átök og tryggja því nauðsynlega vernd. Norðurlönd hafa á undanförnum árum sent hælisleitendur til baka til Íraks, Srí Lanka og Afganistans í trássi við tilmæli Flóttamannstofnunar Sameinuðu þjóðanna.  

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna var stofnuð að frumkvæði allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna fyrir meira en fimmtíu árum til að aðstoða flóttafólk. En hvað hefur orðið um rétt fólks til að sækja um hæli?

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna kveður á um rétt manna til að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum. Þessi réttur felur í sér að bannað er að senda fólk til baka þangað sem það á ofsóknir á hættu eða lífi þess og frelsi er ógnað. Þessi grundvallarregla er ófrávíkjanleg og mega ríki aldrei brjóta gegn henni.

Það er ómannúðlegt að senda fólk til ríkja eða svæða þar sem lífi þess er ógnað vegna vopnaðra átaka eða annars ofbeldis. Norðurlöndin styðja Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna með fjárveitingum en það dugar skammt ef verndarskyldur gagnvart flóttamönnum eru ekki uppfylltar. Velferðarsamfélög Norðurlanda ættu að vera öðrum ríkjum fyrirmynd og vinna saman að því að efla réttindi flóttafólks.

Átján samtök á Norðurlöndum skora á ríkisstjórnir landanna að axla ábyrgð og sýna í verki samstöðu með fólki sem hefur neyðst til að flýja heimkynni sín undan ofbeldi og ofsóknum. Stjórnvöld eru hvött til samvinnu bæði á norrænum og alþjóðlegum vettvangi með það að  markmiði að efla alþjóðlega vernd flóttafólks til að tryggja að rétturinn til hælis sé í reynd virtur. Skorað er á ríkisstjórnir allra Norðurlanda að fara ætíð að tilmælum og viðmiðunarreglum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þegar ákvarðanir eru teknar sem lúta að málefnum fólks á flótta. 

Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði kross Íslands og Íslandsdeild Amnesty International hvetja almenning til að taka þátt í áskoruninni.