Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna harmar dauða fjögurra flóttamanna sem vísað var frá Tyrklandi

29. apr. 2008

Fjórir flóttamenn drukknuðu á suðausturlandamærum Tyrklands og Íraks eftir að tyrkneska lögreglan neyddi þá til að synda yfir straumharða á. Alls voru 18 manns neyddir út í ána en 14 þeirra komust yfir hana heilir á húfi.

Atburðurinn átti sér stað miðvikudaginn 23. apríl á svæði þar sem landamæragæsla er takmörkuð, ekki langt frá Habur (Silogi) í Sirnak héraði í suðausturhluta Tyrklands. Samkvæmt vitnum höfðu tyrknesk yfirvöld áður reynt að vísa úr landi hópi 60 manna af ýmsu þjóðerni gegn vilja þeirra. Úr hópi þeirra leyfðu íraskir landamæraverðir 42 Írökum að koma yfir, en neituðu að taka við 13 Sýrlendingum og fimm Írönum.

Mennirnir höfðu allir verið handteknir af tyrknesku lögreglunni þegar þeir reyndu með ólöglegum hætti að komast yfir landamærin til Grikklands. Flóttamannastofnunin ítrekaði margsinnis við tyrknesk yfirvöld að Írak væri ekki öruggt skjól fyrir þessa flóttamenn, en þrátt fyrir það var þeim ekið 23 tíma leið að írösku landamærunum þriðjudaginn 22. apríl. Einn hinna látnu var frá Íran, en Flóttamannastofnunin hafði áður veitt Írönunum fimm stöðu flóttamanna og beðið tyrknesk yfirvöld að vísa þeim ekki úr landi.

Starfsmenn á skrifstofu Flóttamannastofnunarinnar í Erbil í norðurhluta Íraks höfðu samband við þá flóttamenn sem tókst að synda yfir fljótið og gátu staðfest að atburðurinn hefði verið mikið áfall fyrir þá.

Flóttamannastofnunin hefur beðið tyrknesk stjórnvöld að gera grein fyrir ástæðu þess að flóttamönnunum var vísað úr landi gegn vilja þeirra. Jafnframt hefur verið óskað eftir útskýringum á því hvað varð til þess að fjórir þeirra létu lífið. Lík mannanna hafa enn ekki fundist.