Móttaka flóttamanna.

Kristján Sturluson framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands

25. maí 2008

Móttaka flóttamanna sem fyrirhuguð er í ár er verkefni sem hefur verið framkvæmt með núverandi hætti síðan 1996 þegar hópur flóttafólks kom til Ísafjarðar. Hóparnir sem síðan hafa komið hafa verið 25 til 30 manns hverju sinni (að frátöldu einu skipti þar sem tekið var á móti 75 manns) og hefur verið tekið á móti þeim í ýmsum sveitarfélögum. Hér er því ekki um nýtt verkefni að ræða heldur verkefni þar sem veruleg reynsla og þekking býr að baki. Íbúar sveitarfélaga af ýmsum stærðum hafa tekist á við sams konar verkefni. Hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur það vakið sérstaka athygli hversu vel hefur til tekist á Íslandi og hafa aðrar þjóðir horft til ýmissa atriða í móttökunni hér.

Það að taka á móti fólki í nýju landi er úrræði sem er gripið til þegar engin önnur leið er fær þ.e. fólk á hvorki kost á að hverfa aftur heim eða búa sér framtíð í því landi sem það flúði til. Þannig er því farið með það fólk sem Íslendingar hafa boðið að koma til Íslands nú.

Hlutverk Rauða krossins í móttöku flóttamanna er að taka þátt í vali þeirra eftir að ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um móttökuna. Rauði krossinn skipuleggur síðan ferð hópsins til landsins og undirbýr komu fólksins ásamt sveitarfélaginu m.a. með því að útbúa íbúðir þannig að þær séu tilbúnar til búsetu. Á vegum viðkomandi Rauða kross deildar starfa síðan stuðningsaðilar og fjölmargir sjálfboðaliðar styðja flóttamennina og aðstoða við að fóta sig í nýju umhverfi. Það má geta þess að þegar síðasti hópur flóttafólks kom til landsins komu að því verkefni um 100 sjálfboðaliðar Rauða krossins með einum eða öðrum hætti. Kostnaður vegna hluta Rauða krossins í móttöku flóttamanna var í síðasta verkefni í kringum sautján milljónir kr. (eitt stöðugildi, ferðakostnaður sendinefndar og flóttamannanna, húsbúnaður, sálfræðistuðningur o.fl.).

Hópurinn sem væntanlega kemur í haust hefur ekki verið valinn. Íslensk sendinefnd fer til að velja fólkið. Það hefur áhrif á valið hversu alvarleg staða viðkomandi er og hversu líklegt er að fjölskyldan geti spjarað sig í íslensku samfélagi. Við valið er haft ríkt samráð við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Tíminn frá því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að bjóða hópi flóttamanna hingað til lands og samið hefur verið við sveitarfélag og þar til hópurinn kemur hefur að jafnaði verið um þrír til fjórir mánuðir líkt og vænta má að raunin verði nú. Þar sem gert er ráð fyrir að börn á skólaaldri séu stór hluti hópsins er talið heppilegt að hópurinn komi við upphaf skólaárs eða ekki sé langt liðið á skólaárið.

Með móttöku flóttamanna leggjum við Íslendingar okkar lóð á vogaskálarnar til að bæta stöðu fólks þar sem önnur úrræði eru ekki möguleg. Í Al-Waleed búðunum sem eru á einskismannslandi í eyðimörkinni í Írak eru nú um 2000 manns og hingað munu koma allt að 30 manns í ár og e.t.v. svipaður hópur á næsta ári. Auðvitað væri óskandi að hægt væri að bjarga öllum en því miður höfum við ekki getu til þess. Það að Íslendingar geta einungis bjargað fáum má þó aldrei verða til þess að við veljum að bjarga engum.

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur óskað eftir því við Akraneskaupstað að tekið verði á móti næsta hópi flóttamanna þar. Eins og fram kom í upphafi hefur móttaka flóttamanna verið með sama hætti frá 1996. Alls staðar hefur hún gengið vel og er engin ástæða til að ætla annað en að sú verði einnig raunin nú.