Lífshættulegar aðstæður palestínskra flóttamanna í Írak

22. maí 2008

Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna hefur lýst áhyggjum yfir aðstæðum hjá hundruðum Palestínumanna sem hafast við í Al Waleed flóttamannabúðunum nálægt landamærum Íraks og Sýrlands.

„Við erum sérstaklega áhyggjufull varðandi skort á heilsugæslu – margir af þeim 942 flóttamönnum sem búa í flóttamannabúðunum þurfa nauðsynlega á læknishjálp að halda, þar á meðal sjö barna móðir sem þjáist af hvítblæði og unglingspiltur með sykursýki,”  sagði Jennifer Pagonis, talsmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu Þjóðanna, blaðamönnum í Genf á þriðjudag.

Teymi frá Flóttamannastofnun heimsótti Al Waleed fyrir viku til að meta aðstæður og þarfir palestínska fólksins í búðunum, sem eru um þrjá kílómetra frá landamærum Íraks og Sýrlands. Þessi hópur staðfesti að palestínsku flóttamennirnir, sem eru fórnarlömb ofsókna í Baghdad, búi við vafasamar aðstæður.

Flóttamannabúðirnar eru ofsetnar og margt fólk þjáist af öndunar- og öðrum kvillum og þarfnast almennilegrar læknishjálpar. Næsta heilsugæslustöð í Írak er í fjögurra klukkutíma fjarlægð, og vegurinn liggur um hættulegar slóðir. Að minnsta kosti þrír, þar á meðal ungabarn hafa látist af völdum sjúkdóma sem auðvelt hefði verið að lækna á þeim tveimur árum sem búðirnar hafa verið opnar.
 
„Það er engin afsökun fyrir þjáningum Palestínumanna sem hafast við í búðunum í Al Waleed. Þeir flúðu vegna morða á ættingjum og morðhótana og horfast nú í augu við dauðann í Al Waleed,” sagði Michelle Alfaro starfsmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu Þjóðanna í Damaskus sem heimsótti búðirnar á sunnudag. Hún varaði við því að fleira fólk myndi deyja ef það fengi ekki læknisaðstoð.

Teymið frá Flóttamannastofnun gat einungis veitt nokkrum barnshafandi konum fyrstu hjálp og veitt öðrum sálrænan stuðning.

Aðstæður í Al Waleed versna mjög mikið nú á sumarmánuðum. Hitinn í þessum mánuði hefur nú þegar mælst yfir 50 gráður á selsíus og hætta er á sandbyljum.

Alþjóðleg hjálparsamtök, þar á meðal Flóttamannastofnun, mega ekki vera lengi í búðunum af öryggisástæðum. Teymið frá Flóttamannastofnun sem heimsótti Al Waleed í síðustu viku komst að búðunum í gegnum Sýrland.

Vatn er flutt í búðirnar daglega, en það er takmarkað við minna en einn lítra á mann (samkvæmt alþjóðlegum stöðlum þarf hver maður 20 lítra á dag) vegna þess hve palestínskum flóttamönnnum sem koma til Al Waleed fjölgar. Búast má við að fleiri bætist í hópinn. Alþjóða Rauði krossinn flytur reglulega vatn til Al Waleed, auk þess að útvega tjöld, sjá um sorphirðu og dreifa hreinlætisvörum.
 
Talið er að 1.400 Palestínumenn búi við vonlausar aðstæður í flóttamannabúðum meðfram landamærum Íraks og Sýrlands. Þeir komast hvergi þar sem hundruð þúsunda írakskra og palestínskra flóttamanna eru fyrir.

Palestínumenn sem flýja árásir í Írak geta nú hvergi farið nema til Al Waleed þar sem  engin aðstaða er til að taka við fleira fólki. Flóttamannasstofnun hefur hvað eftir annað beðið um alþjóðlegan stuðning til handa flóttamannanna en með takmörkuðum árangri.