Fjömennur kynningarfundur

27. maí 2008

Á þriðja hundrað íbúar á Akranesi mættu á kynningarfund um málefni flóttafólks í Tónbergi, sal Tónlistarskólans, í gær. Fundurinn var haldinn af Akraneskaupstað, Rauða krossi Íslands og félags- og tryggingamálaráðuneytinu.

Markmið fundarins var að veita íbúum á Akranesi upplýsingar um flóttamannaverkefni almennt og ástandið í Al – Waleed fóttamannabúðunum sérstaklega og fluttu Guðrún  Ögmundsdóttir, formaður flóttamannanefndar, og Atli Viðar Thorstensen, verkefnisstjóri hjá Rauða krossi Íslands erindi í því skini. Hallur Magnússon, fyrrverandi félagsmálastjóri á Höfn í Hornafiðri og Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri í Reykjanesbæ, fjölluðu um reynslu annarra sveitarfélaga af flóttamannaverkefnu, Jón Á. Kalmasson, heimspekingur, flutti stutta hugvekju um sammannlegar væntingar til lífsins óháð uppruna eða öðrum tilfallandi eiginleikum fólks og Dragana Zastavnikovic, sem kom sem flóttamaður til Ísafjarðar árið 1996, sagði frá reynslu sinni.

Að erindum loknum svöruðu frummælendur fyrirspurnum úr sal. Spurningar voru úr ýmsum áttum, sumir spurðu út í framkvæmd verkefnisins, aðrir vildu vita hvernig hægt væri að gerast stuðningsaðili og enn aðrir veltu fyrir sér hvernig sú menning sem flóttakonurnar koma úr samræmist hefðum og siðum á Íslandi. Amal Tamimi, sem var gestur í sal, á rætur sínar í Palestínu og varð fyrir svörum. Í fyrsta lagi benti hún á að Palestínumenn séu ýmist múslimar, kristnir eða gyðingar. Í öðru lagi sagði hún það alls ekki einhlítt að konur sem játa íslam gangi með blæju eða megi ekki vinna, og benti á sjáfa sig því til sönnunar. Jafnframt  varaði hún við því að staðalmyndir af múslimum og fólki í miðausturlöndum almennt villti okkur sýn.
Eftir fundinn var einhugur í fundargestum um að næsta skref væri að hefja undirbúning að móttöku flóttafólksins og róa að því öllum árum að gera það sem best. Rúmlega tuttugu manns hafa  þegar skráð sig til leiks sem sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum en enn er þörf á fleirum. Þeir sem hafa áhuga á því að taka þátt í verkefninu er bent á að skrá sig á [email protected]
 eða hringja í síma 431 2270.  

Að kynningarfundinum loknum hittist Rauða kross fólk sem hann sótti til þess a ræða næstu skref og miðla fróðleik, en auk starfs- og stjórnarfólks Akranesdeildarinnar og Atla Viðars verkefnisstjóra RKÍ voru viðstaddir Sigurður Ólafsson, fráfarandi formaður Akureyrardeildar sem hefur góða reynslu af móttöku flóttamanna, Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða krossins og Anna Stefánsdóttir formaður.