Utanríkisráðuneytið komi með beinum hætti að fjármögnun flóttamannaverkefna

mbl.is

15. feb. 2007

Utanríkisráðuneytið mun framvegis koma með beinum hætti að fjármögnun flóttamannaverkefna og utanríkis- og félagsmálaráðherrar munu framvegis leggja fram sameiginlega tillögu til ríkisstjórnar um móttöku flóttamanna, að höfðu samráði við flóttamannanefnd.

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra og Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra undirrituðu í dag yfirlýsingu um þetta, en henni er ætlað að renna styrkari stoðum undir reglulega móttöku flóttamana hér á landi og auka samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR.

Málefni innflytjenda og þar með talið flóttamanna eru á verksviði félagsmálaráðuneytisins en kostnaður við flóttamannaverkefni er á vettvangi OECD skilgreindur sem þróunaraðstoð. Í tilkynningu vegna þessa segir að Íslendingar hafi með reglubundnum hætti tekið á móti flóttamannahópum frá árinu 1996 og að 247 hafi komið til landsins. Þá segir að vinnubrögð íslenskra stjórnvalda við móttöku flóttamanna hafi vakið athygli á vettvangi UNHCR sem hafi óskað eftir því að sú aðferðafræði sem unnið hefur verið eftir hér á landi verði nýtt sem fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir.