Milljónir á flótta um allan heim

Kolbein Óttarsson Proppé blaðamann á Fréttablaðinu

19. jún. 2008

Fréttaskýring um flóttamenn á Íslandi eftir Kolbein Óttarsson Proppé blaðamann, fjórði hluti af fjórum. Birtist í Fréttablaðinu 9. júní 2008.

Flóttamönnum fjölgaði í fyrra, í fyrsta skipti í fimm ár. Íraksstríðið er talinn vera helsti orsakavaldurinn. Milljónir manns eru á vergangi víða um heim. Flóttamannastofnun er orðin ein af fastastofnunum Sameinuðu þjóðanna en átti bara að starfa í þrjú ár.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna var stofnað árið 1951. Stofnunin átti að taka á þeim flóttamannavanda sem síðari heimsstyrjöldin hafði getið af sér og einbeitti sér fyrst og fremst að Evrópu. Flóttamenn höfðu vissulega verið vandamál víða um heim áður, en vandinn í hjarta hinnar vestrænu Evrópu kallaði á stofnun ráðsins.

Upphaflega var litið svo á að um tímabundið verkefni væri að ræða við að koma um 1,2 milljónum flóttafólks til aðstoðar. Flóttamannastofnunin átti aðeins að starfa í þrjú ár. Eftir því sem árin liðu kom í ljós að þörfin var mun meiri um allan heim og umboð stofnunarinnar var því endurnýjað til fimm ára í senn. Það var ekki fyrr en árið 2003 að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað að afnema þessi tímamörk á umboði Flóttamannastofnunarinnar. Við það varð hún ein af fastastofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Flóttamannastofnun aðstoðar ekki einungis Flóttamenn heldur einnig hælisleitendur, Flóttamenn á heimleið til síns upprunalands, ríkisfangslaust fólk og hluta hinna 25 milljóna sem eru vegalausir í eigin heimalands (internally displaced persons, IDP). Heildarfjöldi þeirra sem flosnað hafa upp frá heimilum sínum víða um heim, einnig þeir sem umboð Flóttamannastofnunar nær ekki yfir, er áætlaður yfir 40 milljónir manns - eða um 0,6 prósent af íbúafjölda jarðar.

Verskvið breytist
Verksvið Flóttamannastofnunar SÞ hefur breyst síðustu árin. Nú sinnir hún í auknum mæli aðstoð við aðra en þá sem beinlínis heyra undir starfssvið flóttamannahjálparinnar. Það eru þá ekki eiginlegir Flóttamenn heldur aðrir sem lifa við svipaðar aðstæður. Hér er um að ræða fólk sem hefur öðlast rétt til verndunar vegna þess hóps sem það tilheyrir eða hefur af einskærum mannúðarástæðum þörf fyrir aðstoð án þess að vera formlega viðurkennt sem Flóttamenn.

Einnig getur verið um að ræða fólk sem hefur nauðugt þurft að yfirgefa heimili sitt, en býr annars staðar í sínu eigin landi. Þetta eru í auknum mæli þeir sem orðið hafa fórnarlömb borgarastyrjalda.

Flóttamönnum fjölgar
Frá upphafi hefur Flóttamannastofnun SÞ hjálpað rúmlega fimmtíu milljónum manna til að hefja nýtt líf og áunnið sér tvenn friðarverðlaun Nóbels á þeim tíma - árin 1954 og 1981.

Nokkuð hafði orðið ágengt í fækkun flóttamanna, en árið 2007 fjölgaði þeim í fyrsta skipti um nokkra hríð.

Samkvæmt skýrslu Flóttamannastofnunar SÞ á fjölgunin að miklu leyti rætur að rekja til ástandsins í Írak. Í árslok 2006 hafði ein og hálf milljón Íraka leitað hælis í öðrum löndum, aðallega Sýrlandi og Jórdaníu.

Flestir Flóttamenn dvelja í Pakistan, þar sem þeir eru yfir ein milljón. Tæp milljón er í Íran, um 800 þúsund í Bandaríkjunum, tæp 700 þúsund í Sýrlandi og um 600 þúsund í Þýskalandi.

Norðurlöndin
Ríkisstjórn Íslands samþykkti árið 2007 að taka við 25 til 30 flóttamönnum árlega. Þar er um að ræða svokallaða kvótaFlóttamenn sem ekki eru taldir eiga neinn annan möguleika en að fara til þriðja lands. Þeir geta hvorki verið kyrrir né snúið aftur til upprunalands.

Aðeins fimmtán til tuttugu lönd taka á móti flóttamönnum úr þessum hópi. Öll Norðurlöndin eru þar á meðal. Svíar taka á móti flestum flóttamönnum, eða 1.800 ár hvert, Finnar taka á móti 750 flóttamönnum og Danir fimm hundruð. Norðmenn hafa sveigjanlegan kvóta, um þrjú þúsund Flóttamenn á þremur árum.

Hælisleitendur
Þegar einstaklingur sækir um hæli utan eigin ríkis er hann fyrst skilgreindur sem hælisleitandi af stjórnvöldum í viðkomandi landi. Með umsókn um hæli er viðkomandi að óska eftir viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður. Ef fallist er á umsóknina fær viðkomandi viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og öðlast þau réttindi sem þar eru tilgreind.

Sé umsókninni hins vegar hafnað eru þrír kostir í stöðunni. Hægt er að veita dvalarleyfi af mannúðarástæðum, vísa viðkomandi úr landi og sé það ekki hægt er veitt bráðabirgðadvalarleyfi. Synjun um hæli þarf ekki að þýða að hælisleitandi sé ekki flóttamaður heldur aðeins að ekki hefur verið fallist á beiðni um viðurkenningu. Hælisleitandi getur því verið "óviðurkenndur" flóttamaður.