Núna er Ísland landið mitt

Kolbein Óttarsson Proppé blaðamann á Fréttablaðinu

15. sep. 2008

Lena Mazat kom til Akraness eftir tveggja ára dvöl í flóttamannabúðum sem hún segir versta stað á jörðu. Hún sagði Kolbeini Óttarssyni Proppé frá fyrstu dögunum hér. Hún ætlar sér að verða Skagamaður og strákarnir hennar eru komnir í boltann.

Það var rosalega erfitt að eiga heima þarna. Hver dagur var öðrum líkur, maður reyndi að finna sér eitthvað að gera til að láta daginn líða. Krakkarnir fóru í skóla en það var ekki mikið annað við að vera. Þegar okkur bauðst að koma hingað slógum við því til. Ástandið þar var svo slæmt að það ýtti okkur út í þetta langa ferðalag til lands sem við þekktum ekkert til, þetta er versti staður á jörðu," segir Lena.

Hún er í hópi átta fjölskyldna sem komu til Akraness um miðja nótt, aðfaranótt þriðjudagsins. Að baki var langt og strangt ferðalag, sem hófst þremur dögum fyrr. Þá yfirgaf fólkið flóttamannabúðirnar Al Waleed á landamærum Sýrlands og Íraks sem verið hafði heimkynni þeirra.

Í Al Waleed hafðist við fjöldi palestínskra flóttamanna. Elsta kynslóðin þar man eftir heimalandi sínu, Palestínu, en þaðan var hún hrakin á brott við stofnun Ísraelsríkið 1948. Síðan hefur fólkið verið landflótta. Um 4,3 milljónir palestínskra flóttamanna hafast við utan heimalandsins, í Sýrlandi, allmargir í Jórdaníu, og í Írak.

Tvöfaldir flóttamenn
Þar nutu Palestínumenn ákveðinna forréttinda. Þeir fengu leiguhúsnæði á góðum kjörum og einræðisherrann í Írak, Saddam Hussein, var þeim velviljaður. Sá böggull fylgdi þó skammrifi að Palestínumenn máttu ekki eiga eigið húsnæði. Bandaríkjamenn, Bretar og bandamenn þeirra réðust inn í Írak og steyptu einræðisherranum af stóli. Við tók tímabil átaka og upplausnar, sem stendur enn.

Í einu vetfangi breyttist staða Palestínumannanna í Írak. Þar sem þeir höfðu verið í náðinni hjá Saddam, ef svo má segja, voru þeir nú litnir hornauga. Og þar sem þeim hafði ekki verið treyst fyrir eigin húsnæði reyndist létt verk að hrekja þá á braut úr leiguhúsnæði sínu. Palestínumennirnir voru því orðnir tvöfaldir flóttamenn: upprunalega frá Palestínu og nú frá hælislandinu sínu Írak. Þeir söfnuðust saman í flóttamannabúðum, eins og Al Waleed, en sumir komust til Sýrlands.

Versti staður á jörðu
Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst því yfir að flóttamannabúðirnar verði að tæma og fólkinu þar verði að koma fyrir annars staðar. Það er svokallað Resettlement-flóttafólk, fólk sem getur hvorki farið til upprunalands síns né verið í hælislandinu og þarf að leita til þriðja landsins. Ástandið í búðunum er ekki upp á marga fiska. Þetta eru í raun tjaldbúðir í miðri eyðimörkinni; sjóðheitar á daginn, þegar eyðimerkursólin skín hvað heitast, og ískaldar á nóttunni.

Lena og maður hennar, voru ung hjón í Palestínu, áttu þrjú börn, þau Abdhulla, Mohammaed og Nadiu, í átökunum og ófriðnum sem blossuðu upp eftir innrásina í Írak féll maður Lenu og hún var því orðin ekkja með þrjú ung börn, stödd í flóttamannabúðum í miðri eyðimörk og hafði ekki hugmynd um hvað framtíðin bar í skauti sér.

„Þetta var skelfilega erfitt og þarna eru verstu mögulegu aðstæður að lifa við. Okkur létti því mjög að komast hingað," segir Lena.

Mikill stuðningur
Það getur ekki verið auðvelt að flytja yfir hálfan hnöttinn og setjast að í landi sem maður veit ekkert um. "Auðvitað er þetta rosalega erfitt. Hér er allt öðruvísi en ég er vön og þessar litlu hugmyndir sem ég þó hafði um landið reyndust fjarri raunveruleikanum. Hér er allt öðruvísi en ég gerði mér í hugarlund og miklu betra."

Hverri palestínskri fjölskyldu til stuðnings eru þrjár stuðningsfjölskyldur á Akranesi. Lena segir að sá stuðningur hafi verið ómetanlegur. „Það hafa allir verið rosalega góðir við okkur og viljað allt fyrir okkur gera. Stuðningsfjölskyldurnar eru frábærar og hafa aðstoðað okkur í hvívetna. Þær hafa gert okkur komuna hingað mun auðveldari."

Aðspurð hvort ekki sé erfitt að hleypa ókunnugu fólki inn á heimili sitt segir hún að auðvitað geti það verið það. „Það er hins vegar bara eitthvað sem við verðum að gera til að læra á lífið hér. Það hefur gengið ljómandi vel og allir verið okkur góðir."

Fjölskyldurnar átta sem komu á Skagann njóta líka stuðnings hver af annarri.

Ólíkt umhverfi
Sjávarplássið Akranes býður upp á ólíkt umhverfi en byggðir, að ekki sé talað um flóttamannabúðir, í Írak. Allt er nýtt fyrir fjölskyldunni; náttúran, húsakosturinn, fólkið, málið, umferðin og búðirnar og það sem í þeim er. Og auðvitað veðrið.

„Við erum sí og æ spurð út í veðrið hérna, Íslendingar virðast tala mikið um það. Veðrið sem er núna er bara svipað því vetrarveðri sem við þekkjum.

En það er margt nýtt hér og fjöldi hluta sem við verðum að læra upp á nýtt. Hér er allt annað vöruúrval en ég á að venjast í búðunum. Ég fæ kannski um helming af þeim vörum sem ég er vön, en á móti kemur að ég fæ fullt af vörum sem ég þekkti ekkert til. Þetta lærist eins og annað. Við erum til dæmis búin að fá fisk hérna og hann var alveg rosalega góður."

Komnir í boltann
Þeir Abdullah og Mohammad eru spenntir yfir öllum þeim nýju hlutum sem fyrir augun ber. Þegar blaðamann bar að garði voru þeir á leið á fyrstu fótboltaæfinguna, ásamt þeim Ala´a og Mustafa, sem einnig komu sem flóttamenn á Skagann. Allir spiluðu þeir fótbolta í Írak og hver veit nema þarna séu framtíðarstjörnur ÍA í boltanum á ferð.

Þá voru krakkarnir búnir að fara niður að sjó og leika sér í fjörunni og fannst mikið til koma. Síðan var meiningin að fara út að hjóla með einni stuðningsfjölskyldunni.

Erfitt á kvöldin
Foreldrar Lenu og fjöldi ættingja urðu eftir í flóttamannabúðunum. Hún segist hafa haft færi á að heyra í þeim og þau hafi verið himinlifandi yfir að allt hefði gengið vel og þau væru komin á áfangastað.

En þó að margt sé spennandi að sjá á nýjum stað þá hafa breytingarnar verið erfiðar. „Það er vissulega meira en að segja það fyrir börnin að skipta svona um umhverfi. Þetta er allt í lagi á daginn, þá leika þau sér úti og eru spennt yfir öllum nýjungunum.

Við erum hins vegar vön því að stórfjölskyldan hittist á kvöldin og eigi sameiginlega stund og borði saman. Þegar kvöldar hér á Akranesi finna þau betur hve þau eru ein hér og að þau eiga ættingja óralangt í burtu sem þau sakna. Það getur oft verið þeim ansi erfitt."

Verðum Akurnesingar
Krakkarnir hefja nám í skólanum eftir rúma viku og Lena sjálf í næsta mánuði. Hún segist ákveðin í að læra tungumálið, þó það sé erfitt, og er meira að segja búin að læra eitt orð. „Já, ég kann að segja „bless", það er eina orðið," segir hún og hlær.

„Okkur aröbum reynist oft erfitt að læra nýtt tungumál og íslenskan er ekki auðveld. Ég er samt staðráðin í að læra tungumálið.Mig dreymir um að verða hluti af samfélaginu sem hér er, búa mér heimili og verða Akurnesingur. Ég hef búið í Írak allt mitt líf og þar af síðustu tvö árin við skelfilegar aðstæður í flóttamannabúðum. Núna er Ísland mitt land."