Reiðhjólahjálmar að gjöf á Akranesi

29. okt. 2008

Reiðhjólaverslunin Hvellur í Kópavogi brást snarlega við og færði börnunum úr palestínsku flóttafjölskyldunum reiðhjólahjálma að gjöf þegar Rauði krossinn leitaði til þeirra á dögunum. Rauði krossinn hefur skipt við verslunina í fjöldamörg ár vegna hjálmagjafa deilda Rauða krossins víða um land. 

Það var mikið fjör í Brekkubæjarskóla þegar fulltrúar Rauða krossins ásamt Guðmundi Tómassyni frá reiðhjólaversluninni Hvelli komu í heimsókn og færðu krökkunum hjálmana að gjöf.

„Við höfum útvegað Rauða krossinum hjálma um árabil og brugðumst að sjálfsögðu vel við þeirri beiðni að gefa þessum hópi barna hjálma,” sagði Guðmundur.

Krökkunum var kennt að stilla hjálmana.

Palestínsku börnin höfðu eignast hjól sem þau gátu ekki notað vegna þess að þau áttu enga hjálma og voru ekki með umferðareglurnar alveg á hreinu. Jónas Ottósson lögreglumaður á Akranesi var því fenginn með í för og fræddi hann þau um umferðarreglurnar og mikilvægi þess að fara að öllu með gát á ferð þeirra um götur bæjarins, ekki síst núna þegar farið er að hausta og allra veðra er von.

Jónas og Guðmundur kenndu krökkunum líka að stilla hjálmana svo nú ættu þeim að vera allir vegir færir í umferðinni á Akranesi.