Úr vopnagný í kyrrðina

Ylfu Kristínu K. Árnadóttur blaðamann á Morgunblaðinu

2. jan. 2009

„Ég er 300% afslöppuð," segir Wafaa Nabeel Yosif Al Qina, beðin um að lýsa því hvernig er að dveljast á Íslandi. Viðtal við Wafaa þar sem hún lýsir aðlögun sinni sem flóttamaður á Íslandi birtist í Morgunblaðinu 31. desember 2008.

Wafaa segist finna fyrir ró sem kemur aðeins yfir fólk þegar allt er öruggt og hér sé ákveðin rútína komin í daglega lífið, nokkuð sem hún þekkti ekki áður. Wafaa fæddist í Írak og ólst þar upp. Þar gekk hún í skóla, kynntist eiginmanni sínum, giftist honum og eignaðist með honum börn. Eina vandamálið var að hún var af palestínskum ættum og fékk hún daglega að líða fyrir uppruna sinn.

Wafaa og fjölskylda hennar bjuggu í Bagdad en var ekki vært þar. Þeim barst fjöldi hótana, augliti til auglitis eða símleiðis, og fór svo að Wafaa hætti að vinna en hún hafði séð um bókhald fyrir nokkur fyrirtæki. Þau prófuðu að flytja milli hverfa en ekkert dugði. Sl. sumar lentu eiginmaður Wafaa og fjögurra ára sonur þeirra, Mohammed, í geysiöflugri sprengingu. Fyrir mikla mildi bjargaðist Mohammed en eiginmaður Wafaa lést ásamt 160 öðrum. Sex vikum síðar hafði Wafaa samband við Rauða krossinn og fékk að vita að sendinefnd frá Íslandi væri á leið til flóttamannabúðanna í Al Waleed, við landamæri Sýrlands og Íraks, og fengi takmarkaður fjöldi ekkna, fráskilinna kvenna og barna þeirra, hæli á Íslandi. Wafaa var ljóst að engin framtíð væri fyrir hana og börnin þrjú í Bagdad og með aðstoð flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna komust þau til Al Waleed. Aðeins örfáum dögum síðar breyttist líf þeirra svo um munaði. Þau voru komin til Akraness, fjarri öllu óöryggi, stríðsástandi og vopnagný.

Ólík samfélög
Að mati Wafaa felst stærsti munurinn á Írak og Íslandi í sögu landanna. Írak eigi sér mörg þúsund ára sögu ólíkt Íslandi. Þar sé hins vegar hver höndin upp á móti annarri en hér vinni allar hendur saman. Á fundi Rauða krossins, sem nýlega var haldinn fyrir flóttafólkið á Akranesi, var fólk beðið um að teikna muninn á samfélögunum tveimur í staðinn fyrir að segja frá honum. Wafaa teiknaði pálmatré með langar og miklar rætur sem breiddust út. Þrátt fyrir ósamstöðuna í Írak væri mikill máttur í fólkinu og héldu fjölskyldur sig vel saman þar sem stöðugt stríðsástandi ríkti; eitt stríð tæki við af öðru þar í landi. Ísland hefði hinsvegar litlar rætur.

Síðan Wafaa kom til landsins hefur hún stundað íslenskunám af miklu kappi. Hún segir námið ganga vel og sér finnist gaman en segir ljóst að tungumálið sé lykillinn að samfélaginu. Hún segir börnin feimin að tjá sig á íslensku séu þau beðin um það en hún hafi þó heyrt í þeim tala íslensku við vini sína og kennara. Spurð hvernig gangi að aðlagast kuldanum á Íslandi segir hún hann ekki jafnast á við kaldasta veðrið í Bagdad. Þar sé afar þurr kuldi sem smjúgi inn að beini en í Bagdad séu miklar öfgar í hitafari, annaðhvort sé mjög heitt eða mjög kalt. Þar sé hinsvegar ekki jafnt hvasst og á Íslandi.  „Ekki rok," segir Wafaa á íslensku og brosir.

Foreldrar og systkini Wafaa eru enn í Bagdad. Hún segir að m.v. við þær hremmingar sem hún hafi þurft að þola þar sé aðskilnaðurinn við fjölskylduna ekki eins erfiður og ætla mætti. Hún veit hins vegar ekki hvort hún snúi einhvern tímann aftur heim. „Ég hugsa ekki um það og vil ekki hugsa um það."

Rúm 50 ár síðan fyrstu flóttamennirnir komu
Í septemberbyrjun komu til landsins 29 palestínskir flóttamenn í boði íslenskra stjórnvalda. Um var að ræða átta einstæðar konur og 21 barn þeirra sem áttu það sameiginlegt að hafa hafst við í Al Waleed-flóttamannabúðunum við landamæri Íraks og Sýrlands.

Flóttafólkinu var úthlutað húsnæði á Akranesi og sér kaupstaðurinn, ásamt Akranesdeild Rauða krossins, um aðlögun þess. Fólkið fær félagslega ráðgjöf, samfélagsfræðslu og kennslu í íslensku. Börnin fá sérstakan stuðning í skólum og móðurmálskennslu.