Gagnlegar umræður um málefni hælisleitenda

8. apr. 2009

Hópur fólks sem staðið hefur fyrir mótmælum undanfarið til að vekja athygli á málefnum hælisleitenda á Íslandi átti fund með starfsmönnum Rauða krossins í dag. Þar áttu sér stað mjög opnar og gagnlegar umræður um hlutverk Rauða krossins meðan á málsmeðferð hælisleitenda stendur sem og málsvarahlutverk félagsins við stjórnvöld og stofnanir sem koma að málefnum flóttamanna og hælisleitenda.

Hópur hælisleitenda sem dveljast á gistiheimilinu Fit í Reykjanesbæ var meðal þeirra sem funduðu með Rauða krossinum í dag, og sögðu frá sinni reynslu í samskiptum við íslensk stjórnvöld og Rauða krossinn. Rauði krossinn mun taka mið af því sem þar kom fram við vinnu sína í þessum málaflokki.

Rauði krossinn mun halda áfram að ítreka við stjórnvöld nauðsyn þess að stytta þann tíma sem málsmeðferð hælisumsókna tekur en hann hefur verið of langur í alltof mörgum tilfellum á liðnum árum. Bið vikum og mánuðum saman eftir niðurstöðu ýtir undir þann stöðuga ótta og kvíða sem margir hælisleitendur stríða við.

Rauði krossinn kemur að málefnum hælisleitenda sem hlutlaus aðili og tekur jafnan ekki afstöðu til hvort krafa hælisleitenda um stöðu flóttamanns eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum sé réttmæt eða ekki. Rauði kross Íslands leggur áherslu á að umsókn hvers og eins hælisleitanda sé skoðuð sérstaklega og að hvert og eitt ríki sem aðild á að Dublin reglugerðinni er ekki skyldugt til að endursenda fólk þó að það sé heimilt.

Starf Rauða kross Íslands að málefnum hælisleitenda hófst árið 1987. Síðan þá hefur Rauði krossinn komið að málefnum hælisleitenda með ýmsum hætti og nú síðast með aukinni áherslu á málsvarahlutverk og réttindagæslu.

Þegar bera fór á fjölgun hælisleitenda hér á landi á árunum 1998 til 1999 var undirritaður samningur á milli Rauða kross Íslands og dómsmálaráðuneytisins sem kvað á um að Rauði krossinn tæki að sér ákveðið hlutverk við móttöku og umönnun þeirra sem sóttu um hæli á Íslandi sem pólitískir flóttamenn. Samningurinn fól í sér að Rauði krossinn útvegaði hælisleitendum meðal annars húsnæði, framfærslu og lágmarks læknisaðstoð. Í lok árs 2003 rann samningurinn út og umönnunarhlutverkið fluttist yfir til Reykjanesbæjar sem sér nú hælisleitendum fyrir húsnæði, fæði og öðrum nauðsynjum.