Rauði krossinn ítrekar enn tilmæli um að hælisleitendur verði ekki sendir til Grikklands

8. apr. 2009

Rauði kross Íslands ítrekaði enn afstöðu sína um að hælisleitendur verði ekki sendir til Grikklands á grundvelli Dublin reglugerðarinnar með bréfi til dómsmálaráðherra sem sent var í gær, 7. apríl.

Þann 26. ágúst 2008 sendi Rauði kross Íslands þáverandi dómsmálaráðherra bréf þessa efnis, ásamt skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna varðandi afstöðu stofnunarinnar til sendingar hælisleitenda til Grikklands á grundvelli Dublin reglugerðarinnar. Þar kemur fram að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lýsti áhyggjum sínum yfir því að meðhöndlun hælisumsókna í Grikklandi og meðferð og aðbúnaður hælisleitenda þar í landi stæðist ekki kröfur sem leiða af ákvæðum fjölþjóðlegra samninga sem eiga við á því sviði. Því hefði stofnunin beint þeim tilmælum til stjórnvalda í ríkjum sem samþykkt hafa Dublin reglugerðina að þau sendi hælisleitendur ekki til Grikklands á grundvelli hennar heldur nýti heimild sína samkvæmt 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar til að taka umsóknir þeirra um hæli til efnislegrar meðferðar. Rauði krossinn ítrekaði þessi eindregnu tilmæli sín, sem eru í samræmi við tilmæli Flóttamannastofnunar, í bréfi til dómsmálaráðherra dags. 6. október 2008. 

Rauði krossinn ítrekaði aftur fyrri tilmæli sín með bréfi til dómsmálaráðherra í gær, 7. apríl, á grundvelli óbreyttrar afstöðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Félagið vildi einnig koma að viðbótarsjónarmiðum og rökum sem er mikilvægt að ráðuneytinu séu kunn þegar það sker úr um hvort hælisleitendur skuli sendir til Grikklands á grundvelli Dublin reglugerðarinnar eða að mál þeirra verði tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi.

Í bréfi Rauða krossins segir að í ákvörðunum í málum fimm hælisleitanda sem Útlendingastofnun ákvað að senda til Grikklands og eru allar dags. 24. mars 2009 sé vísað til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi í máli Íranans K.R.S. gegn Bretlandi frá 2. desember 2008 staðfest að endursendingar frá Bretlandi til Grikklands á grundvelli Dublin reglugerðarinnar feli ekki í sér brot á ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu.

Það er rétt að Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að endursending hælisleitanda til Grikklands fæli ekki í sér keðjuverkandi brot á reglunni um bann við endursendingu flóttamanns til ríkis sem gæti farið í bága við 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Vegna tilvísunar til ofangreinds dóms vill Rauði kross Íslands vekja athygli á því að Mannréttindadómstóll Evrópu fjallaði ekki um hvort Grikkland gæti staðið við aðrar skuldbindingar sínar í samræmi við alþjóðalög um réttindi flóttamanna. Sérstaklega má nefna að Mannréttindadómstóllinn fjallaði ekki um aðbúnað hælisleitenda í Grikklandi og hvort hann væri í samræmi við ákvæði viðeigandi alþjóðasamninga á sviði mannréttinda. Dómstóllinn fjallaði heldur ekki um hvort hælisleitendur hefðu raunverulegan aðgang að sanngjarnri meðhöndlum hælisumsókna sinna eða hvort flóttamenn gætu notið réttinda sinna í samræmi við ákvæði flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1951. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna telur að svo sé ekki.

Frá því að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gaf út skýrslu sína 15. apríl 2008, þar sem tilmælum var beint til ríkja sem samþykkt hafa Dublin reglugerðina að endursenda ekki hælisleitendur til Grikklands á grundvelli hennar, hafa grísk stjórnvöld, m.a. í samvinnu við Flóttamannastofnun, unnið að ýmsum endurbótum á bæði málsmeðferð hælisumsókna og aðbúnaði hælisleitenda. Það er hins vegar mat Flóttamannastofnunar að þrátt fyrir ýmsar jákvæðar breytingar sem gerðar hafi verið sé þess enn að bíða að þær komist í framkvæmd og verði merkjanlegar og sjáanlegar. Flóttamannastofnun telur jafnframt of snemmt að segja til um hvort og hvernig breytingar sem gerðar hafi verið á lagaumhverfi verði innleiddar.