Hvernig ber að skilgreina hugtakið „vopnuð átök” skv. alþjóðlegum mannúðarlögum og tilkall til verndar gegn handahófskenndu ofbeldi (e. indiscriminate violence)

8. apr. 2009

Alþjóðaráð Rauða krossins (e. International Committee of the Red Cross, ICRC) hefur gefið út skjal þar sem varpað er ljósi á ríkjandi lagalegan skilning á hugtakinu „vopnuð átök sem eru alþjóðlegs eðlis" (e. international armed conflict) og á hugtakinu „vopnuð átök sem ekki eru alþjóðlegs eðlis" (e. non-international armed conflict) skv. alþjóðlegum mannúðarlögum.

Rauði kross Íslands hefur sent íslenskum stjórnvöldum skjalið sem er gagnlegt þegar lagt er mat á hvort vopnuð átök í skilningi alþjóðlegra mannúðarlaga eigi sér stað í tilteknu ríki eða ekki, hvort heldur um er að ræða vopnuð átök milli ríkja eða vopnuð átök innan ríkis. Það skal áréttað að alþjóðleg mannúðarlög gera nokkurn greinarmun á vopnuðum átökum milli ríkja annars vegar og vopnuðum átökum innan ríkis hins vegar en ekki getur verið um annars konar vopnuð átök að ræða í skilningi alþjóðlegra mannúðarlaga.

Þegar einstaka ríki sem bundin eru af svonefndu Qualification Directive  hafa leitast við að skilgreina hugtakið „innanríkisátök" (e. internal armed conflict) hefur borið við að vísað hafi verið til gildissviðs viðbótabókunar II frá 1977 við Genfarsamningana frá 1949 um vernd fórnarlamba vopnaðra innanríkisátaka. Sú skilgreining sem þar er að finna nær þó aðeins yfir hluta þeirra innanríkisátaka sem alþjóðleg mannúðarlög ná til vegna þess að gildissvið 3. gr. Genfarsamninganna fjögurra 1949, en sú grein er samhljóða í þeim öllum, hefur víðara gildissvið en viðbótarbókun II og á hún m.a. við  innanríkisátök af tilteknum toga sem gildissvið viðbótarbókunarinnar nær ekki til.

Alþjóðaráð Rauða krossins bendir á að þótt hugmyndir og hugtök alþjóðlegra mannúðarlaga séu ekki endilega nauðsynleg þegar kemur að túlkun og beitingu flóttamannalaga verði hugtök alþjóðlegra mannúðarlaga þegar á reynir að skiljast í samræmi við viðurkennda túlkun þeirra sem sett er fram af Alþjóðaráði Rauða krossins.

Rauði krossinn vekur einnig athygli á yfirlýsingu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá janúar 2008 varðandi c-lið 15. gr. Qualification Directive og dómi Dómstóls Evrópubandalaganna  (e. The Court of Justice of the European Communities) frá 17. febrúar 2009 þar sem dómstóllinn fjallaði m.a. um tilkall einstaklinga til alþjóðlegrar verndar ef þeir eiga á hættu að verða fyrir handahófskenndu ofbeldi (e. indiscriminate violence) sé þeim snúið til baka til upprunalands þar sem vopnuð átök geysa.

Í umræddum dómi segir orðrétt:

„Article 15(c) of Council Directive 2004/83/EC of 29 April 2004 on minimum standards for the qualification and status of third country nationals or stateless persons as refugees or as persons who otherwise need international protection and the content of the protection granted, in conjunction with Article 2(e) thereof, must be interpreted as meaning that:
–    the existence of a serious and individual threat to the life or person of an applicant for subsidiary protection is not subject to the condition that that applicant adduce evidence that he is specifically targeted by reason of factors particular to his personal circumstances;
–    the existence of such a threat can exceptionally be considered to be established where the degree of indiscriminate violence characterising the armed conflict taking place – assessed by the competent national authorities before which an application for subsidiary protection is made, or by the courts of a Member State to which a decision refusing such an application is referred – reaches such a high level that substantial grounds are shown for believing that a civilian, returned to the relevant country or, as the case may be, to the relevant region, would, solely on account of his presence on the territory of that country or region, face a real risk of being subject to that threat.

Þessi túlkun Dómstóls Evrópubandalaganna á c-lið 15. gr. Qualification Directive er í fullu samræmi við 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur verið lögfestur hérlendis, sbr. lög nr. 62 frá 19. maí 1994, og dómafordæma Mannréttindadómstóls Evrópu. Rétt er að taka fram að Ísland er ekki lagalega bundið af Qualification Directive.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur fagnað túlkun Dómstóls Evrópubandalaganna sem mun vera leiðbeinandi fyrir ríki þegar teknar eru ákvarðanir varðandi hælisumsóknir einstaklinga sem eru að flýja handahófskennt ofbeldi.

Þau skjöl sem vitnað er til hér að ofan má nálgast hér að neðan:

International Committee of the Red Cross (ICRC), How is the Term “Armed Conflict” Defined in International Law? (mars 2008).

Council Directive 2004/83/EC of 29 April 2004 on minimum stands for the qualification and status of third country nationals or stateless persons as refugees or as persons who otherwise need international protection and the content of the protection granted.

UNHCR, UNHCR Statement on Subsidiary Protection Under the EC Qualification Directive for People Threatened by Indiscriminate Violence (janúar 2008).

Dómur Dómstóls Evrópubandalaganna frá 17. febrúar 2009. Elgafaji v. Staatssecretaris van Justitie. C-465/07.