Hverjir eiga að fá hæli?

ritstjóra Morgunblaðsins

16. apr. 2009

Hvernig á að taka á málum fólks, sem leitar hælis á Íslandi? Hvernig eiga Íslendingar að taka á móti þeim, sem eiga sér hvergi skjól og skolar á land á Íslandi? Hingað til hefur stefnan verið sú að beina ábyrgðinni annað. Greinin birtist sem ritstjórnargrein í Morgunblaðinu í dag.

Sú stefna hefur verið í samræmi við skuldbindingar, sem kveðið er á um í reglum um Schengen-svæðið þar sem segir að afgreiða eigi mál flóttamanna í landinu þar sem viðkomandi kom fyrst inn á svæðið. Reglulegar samgöngur til Íslands eru aðeins frá löndum innan Schengen ef frá eru talin Bandaríkin og þar komin forsenda til að vísa frá flestum, sem hér sækja um hæli.

Í Morgunblaðinu á laugardag birtist frásögn Sigríðar Víðis Jónsdóttur og Orra Páls Ormarssonar af Laylu Khalil Ibrahim og Noordin Alazawi, syni hennar. Noordin var stöðvaður hér á leið sinni til Kanada, sótti um hæli og hefur nú beðið í sjö mánuði í Reykjanesbæ eftir svari. Hann kom inn á Schengen-svæðið í gegnum Grikkland. Móðir hans bíður milli vonar og ótta frétta af syni sínum í Damaskus. Þar er hún flóttamaður og fær litla aðstoð.

Á laugardag birtist grein eftir Sigríði Víðis í öðru blaði, The New York Times, þar sem hún fjallar um Lubnu Falah, sem er að verða komin á steypirinn og býr við hrikalegar aðstæður í Al Waleed-flóttamannabúðunum í Írak, og Línu, systur hennar, sem býr á Akranesi. Í búðunum búa Palestínumenn, sem bjuggu í Írak í tíð Saddams Husseins, en hafa ekkert ríkisfang og eru því landlausir. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna á í vandræðum með að finna þeim skjól. 28 konur og börn komu úr þeim búðum til Íslands 15 mínútum fyrir bankahrunið, eins og hún orðar það: „Í dag er útlitið dapurlegt á Íslandi, en það er ekkert í samanburði við ástandið í Al Waleed. Ísland, sem aðeins telur 320 þúsund íbúa, er stolt af því að hafa boðið 29 flóttamönnum upp á möguleikann á hættulausri framtíð.“

Íslendingar mega vera stoltir af því að hafa tekið á móti flóttamönnunum úr Al Waleed-flóttamannabúðunum. En hversu stolt eigum við að vera yfir því hvernig tekið er á móti þeim, sem hér leita hælis? Vitaskuld á ekki að veita hæli sjálfkrafa, eina krafan er að í hverju máli verði sjónarmið mannúðar látin ráða för. Þau hljóta að geta staðið af sér kreppu og bankahrun.