Ráðherra skipar nefnd til að fara yfir lög og reglur um hælisleitendur

17. apr. 2009

Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra hefur skipað nefnd til þess að fara yfir lög og reglur um hælisleitendur í ljósi réttarframkvæmdar hér á landi, alþjóðlegra skuldbindinga og dóms Hæstaréttar frá 12. mars þar sem ákvörðun Útlendingastofnunar um að vísa hælisleitanda úr landi var hnekkt.

Atli Viðar Thorstensen verkefnastjóri í málefnum hælisleitenda og flóttamanna mun taka sæti í nefndinni fyrir hönd Rauða kross Íslands. Björg Thorarensen prófessor við Háskóla Íslands mun leiða nefndina en aðrir fulltrúar eru Trausti Fannar Valsson, lektor við Háskóla Íslands, Kristín Benediktsdóttir, lögfræðingur og stundakennari við Háskóla Íslands og Rósa Dögg Flosadóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

Nefndinni er ætlað að skila ráðherra tillögum sínum fyrir 15. júní næstkomandi.