Faðirinn myrtur, börn á flótta

Sigríði Víðis Jónsdóttur blaðamann á Morgunblaðinu

20. apr. 2009

Layla Khalil Ibrahim frá Írak mun aldrei gleyma deginum sem hún horfði á eftir þremur barna sinna leggja af stað í hættuför til Evrópu til að elta uppi elsta bróður þeirra. Hvað þá deginum þegar eiginmaðurinn var myrtur í Bagdad og dóttirin Neyra varð vitni að öllu saman. Í dag er fjölskyldan á flótta og yngsti sonurinn Noordin bíður á milli vonar og ótta á Íslandi eftir fréttum úr dómsmálaráðuneytinu. Móðir hans og systir eru í Damaskus í Sýrlandi. Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. apríl.

Veturinn í vetur hefur verið skrýtinn fyrir Laylu Khalil Ibrahim. Reyndar hafa seinustu ár verið stórfurðuleg. Layla er 54 ára gömul og lífið sem hún átti forðum er löngu horfið, myndir af voðaverkum greyptar í hugann – það er erfitt að má þær í burtu.

En það er ekki það versta. Óvissan er miklu verri. Það er erfitt að vita ekki hvað verður, hafa ekki hugmynd um hvað verður um börnin hennar. Spyrja sig hvernig það gat gerst að fjölskyldan sundraðist og endaði víðsvegar um heiminn – finnast hún sjálf vera hjálparlaus, fullkomlega vanmáttug. Bara ef hún gæti gert eitthvað til að börnin hefðu stað til að vera á, væru örugg, komin í höfn.

Í vetur virðist höfnin hins vegar einungis hafa færst fjær. Mæðgurnar bundu vonir við að fá að fara til Þýskalands sem flóttamenn. Síðar fengu þær synjun við umsókn sinni og nú er málið í óvissu. Þær lifa á meðan á sparifé sínu í Sýrlandi, líkt og þær hafa gert frá því að þær flúðu Írak fyrir þremur árum. Verst að sjóðurinn er ekki ótæmandi. Layla hefur ekki hugmynd um hvað hún gerir þegar hann er uppurinn.

Hugurinn á Íslandi

Á meðan er yngsti sonurinn og augasteinninn, Noordin, á Íslandi. Hann endaði þar á leiðinni til Kanada eftir langan flótta frá Írak. Layla getur einungis krossað fingur og vonað að íslensk stjórnvöld sendi hann ekki úr landi án þess að taka mál hans formlega fyrir. Það átti að vísa honum aftur til Grikklands, þaðan sem hann kom, og láta grískum yfirvöldum um að taka hælisbeiðnina fyrir. Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra frestaði brottvísuninni hins vegar á seinustu stundu vegna athugasemda um slæman aðbúnað hælisleitenda í Grikklandi.

Noordin hefur verið á Íslandi síðan í fyrrahaust og Layla heyrir í honum á hverjum degi. Hann er þrettán árum yngri en elstu synirnir – fæddur árið 1990 – og er og verður litla barnið hennar.

Í vetur hefur Noordin sagt mömmu sinni allt um Ísland, talað hlýlega um þetta land sem hún vissi í fyrstu lítið sem ekkert um – mæðginin eru afar náin og hugurinn er hálfan daginn í Reykjanesbæ þar sem Noordin heldur til. Daginn sem litla barnið hennar tilkynnti henni að því yrði vísað úr landi lagðist hún í rúmið.

Þetta hefur verið rússíbanareið og Layla hefur ekki hugmynd um hvenær henni muni ljúka. Kannski hún sé bara rétt að byrja? Lengi getur vont versnað – Layla veit orðið allt um það.

Kúlnahríð að launum

Það er erfitt að segja hvenær rússíbanareiðin hófst. Kannski þegar Layla horfði á eftir börnunum sínum þremur leggja af stað í leit að öryggi í Evrópu. Kannski þegar eiginmaður hennar fékk að gjalda fyrir vinnu sína sem túlkur fyrir Bandaríkjaher og var skotinn til bana fyrir framan heimili sitt. Kannski þegar ráðist var inn í Írak í mars 2003 og lífið varð að lögleysu.

Í dag er Layla þreytt, örþreytt, og getur ekkert gert nema haldið dauðahaldi í vonina. Vonandi verður í lagi með Noordin, vonandi fá hún og dóttirin að fara til Þýskalands, vonandi læknar tíminn sárin. Í Írak hefur hún ekkert að gera lengur. Landið þar sem hún bjó alla sína tíð og elskaði af öllu hjarta er ekki lengur griðastaður. Heimilið í Bagdad er ekki lengur hennar – hún hefur ekki hugmynd um hverjir búa þar núna, hverjir nýttu lögleysuna, fluttu inn og tóku líf hennar yfir.

Öryggi í Bagdad hefur aukist frá því að ástandið var óbærilegt árin 2005 til 2007 en þeir sem unnu fyrir hernámsliðið eru í hættu. Fjölskyldunni hefur ítrekað verið hótað lífláti fyrir föðurlandssvik. Layla óttast það sem gæti orðið að veruleika: Að verði Noordin vísað frá Íslandi til Grikklands muni hann enda aftur í Írak þar sem honum er ekki vært. Hvað gerir hann þá? Hann verður að koma sér í burtu – Layla vill ekki að augasteinninn fari sömu leið og faðir hans. Eða bróðursonur hennar sem var myrtur fyrir tveimur árum.

Eða sömu leið og hún sjálf sem átti að koma fyrir kattarnef dag nokkurn í Bagdad. Þá var hún enn útivinnandi, meðlimur í Iraqi Business Women Association. Síðan hætti hún að vinna. Það breyttist svo margt í stríðinu.

„Þarna er hún“
Þegar Layla lokaði dyrunum á heimili sínu, á leið til vinnu morgun einn, beið svartur BMW eftir henni. Allir í Bagdad vita hvað slík bílategund þýðir: Mannrán.

„Þarna er hún!“ heyrði Layla kallað. Hún horfði með skelfingu á bílinn, tók síðan til fótanna og hljóp eins og fætur toguðu – ætlaði ekki að skilja börnin eftir móðurlaus, það var nóg að hafa misst föðurinn. Nágrannar Laylu sáu hvað var að gerast og komu henni til varnar, glæpamennirnir hættu við og hurfu upp götuna í rykmekki.

En nágrannarnir gátu ekki bjargað hnénu og bakinu á Laylu. Hún féll svo illilega á hlaupunum að hún lá á sjúkrahúsi í marga mánuði og hefur verið sjúklingur síðan. Layla vill ekki að Noordin lendi í slíku. Ekki heldur að hann fái sömu meðferð og elsti bróðir hans Nowfal sem var stunginn með hníf í bakið. Hann vann sem lífvörður fyrir erlent fyrirtæki – dauðasynd í augum öfgamanna. Noordin sjálfum var rænt eftir að hafa unnið sem túlkur í bandaríska sendiráðinu. Honum var misþyrmt, hélt að hann yrði tekinn af lífi. Á endanum fóru glæpamennirnir fram á fúlgu fjár fyrir að sleppa honum úr haldi.

Nei, Layla vill ekki að Noordin endi aftur í Írak, hann yrði að koma sér þaðan aftur. Þá hæfist flótti númer tvö – verst að sá fyrri tók mörg ár. Frá því að Noordin var fimmtán ára hefur hann farið frá Írak til Sýrlands, til Tyrklands, til Grikklands, til Belgíu, aftur til Grikklands og þaðan til Íslands. Af hverju getur sonur hennar ekki fengið að búa einhvers staðar í friði og ró, fara aftur í skóla, ljúka námi? Hann var alltaf eldklár í skóla.

Þegar Layla hugsar svona þá fer hún að háskæla.

Yfirfullt Sýrland
Í íbúðinni hennar Laylu fylla fjölskyldumyndir alla veggi. Þetta er í nágrannaríki Íraks, Sýrlandi – í höfuðborginni Damaskus. Layla er flóttamaður í Sýrlandi en fær litla aðstoð. Hún borgar fyrir leiguna á íbúðinni með því sem hún tók með sér frá Írak.

Úr fallegum myndaramma brosir eiginmaðurinn Behjet, staddur í skemmtigarði ásamt barnabörnunum tveimur, seinasta myndin áður en hann var skotinn. Þarna eru systkinin og bestu vinirnir Noordin og Neyra skellihlæjandi í Bagdad. Þarna er afmælisterta með logandi ljósum og allir brosandi út að eyrum. Sumar myndirnar eru máðar, börnin á mismunandi aldri.

„Við höfum alltaf tekið mikið af fjölskyldumyndum,“ útskýrir Neyra, 22 ára, og dregur fram bunka af ljósmyndum. Einn þeirra gengur mamma hennar ævinlega með á sér.

„Og alltaf einu sinni á ári tökum við mynd þar sem fjölskyldan er öll saman. En núna erum við ekki saman... þannig að... þú veist, það er ekki hægt að taka mynd. Svo ég klippti bara saman myndir af okkur og setti saman í eina,“ segir Neyra og dregur fram ljósmynd með átta myndum í passamyndastærð. Sundruð fjölskylda. Sameinuð á pappír.

Laylu dreymir um að vera nálægt börnunum sínum en treystir sér ekki til að byggja framtíð með þeim í Sýrlandi. Fjölskyldan fær einungis leyfi til að vera í landinu í þrjá mánuði í senn. Landið er yfirfullt af írösku flóttafólki sem streymt hefur yfir landamærin – og sýrlenskum yfirvöldum þykir nóg komið. Þetta var ástæða þess að Layla vildi heldur sjá á eftir börnunum sínum til Belgíu en að hafa þau hjá sér í Sýrlandi. Hún óttaðist um þau. Íraska arabískan er ólík þeirri sýrlensku og framburðurinn kemur upp um þau. Auk þess er erfitt fyrir systkinin að fá vinnu í Sýrlandi með launum sem duga fyrir leigunni.

Neyra bendir á að eftir að fjölskyldan flúði frá Írak vann Noordin 14-15 stunda vinnudag í Sýrlandi og fékk sem svaraði 15.000 íslenskum krónum í mánaðarlaun.

Tónar frá Íslandi
Af Íslandi berast mæðgunum ekki einungis fréttir af brottvísun, frestun og bið. Þaðan berst einnig tónlist – frumsamin lög eftir Noordin.

„Ég trúði varla mínum eigin eyrum þegar ég fékk fyrsta lagið sent á netinu,“ segir Neyra. „Noordin hefur alltaf verið klár en ég vissi ekki að hann gæti samið lög og texta!“

Hún stekkur upp úr stólnum og fyrr en varir hljómar melódísk rapptónlist í stofunni. „Þetta er lag sem Noordin samdi til mín,“ útskýrir hún.

Rödd Noordins ómar um íbúðina. Talar til systur sinnar. Hún tárast. Bróðirinn segir systurinni að hann muni aldrei gleyma síðasta deginum sem þau voru saman. Hann muni aldrei gleyma henni, hún sé alltaf með honum. Og hún megi ekki gefast upp.

Layla tárast sömuleiðis. Stolt af drengnum sínum, hrærð yfir laginu sem hann samdi fyrir hana og sendi á mæðradaginn. Óttaslegin yfir því hvað verði um hann.

Eftir lagið þagna mæðgurnar og horfa út í loftið. Spila síðan annað lag. „Þetta lag samdi hann daginn sem honum var tilkynnt að hann yrði sendur til baka frá Íslandi. Áður en brottvísuninni var frestað.“

Næsta lag er um Írak. Söknuð eftir landi sem var. „Pabbi vildi reyna að byggja brú á milli Íraka og Bandaríkjamanna,“ segir Neyra annars hugar. „Þess vegna vildi hann vinna sem túlkur.“

Faðirinn var drepinn fyrir að reyna að byggja þessa brú. Líf fjölskyldunnar tók stakkaskiptum eftir innrásina en hún reyndi að hjálpa til við að byggja upp landið. Að launum fyrir aðstoðina hlaut hún skotárás og flótta sem ekki sér fyrir endann á.

S&S
Af hverju átti að senda yngsta son Laylu, Noordin, frá Íslandi til Grikklands?
Grikkland var inngangur Noordin inn á Schengen-svæðið. Aðildarlöndum Schengen er heimilt að vísa hælisleitendum til þeirra ríkja sem þeir komu frá – í tilfelli Noordin til Grikklands. Það er þá í höndum grískra yfirvalda að taka beiðni hans um hæli til efnislegrar meðferðar – en ekki yfirvalda á Íslandi. Íslensk yfirvöld hafa hingað til nær undantekningarlaust nýtt heimild sína til að senda hælisleitendur og umsókn þeirra til annars aðildarríkis Dyflinnar-reglugerðarinnar svokölluðu í stað þess að taka umsókn þeirra til meðferðar hér á landi.

Af hverju var brottvísuninni frestað?
Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra óskaði á dögunum eftir því að frestað yrði að senda Noordin til baka til Grikklands. Á vefsíðu dómsmálaráðuneytisins kemur fram að ástæðan sé sú að í ráðuneytinu sé þegar til meðferðar kæra vegna ákvörðunar um brottvísun til Grikklands. Ráðuneytið hafi því leitað eftir upplýsingum um aðstæður hælisleitenda þar í landi. Á meðan er málið í biðstöðu.

Af hverju hefur fólk áhyggjur af stöðu hælisleitenda í Grikklandi?
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og fleiri hafa ráðlagt Evrópusambandsríkjum að senda ekki hælisleitendur til Grikklands. Óttast er að vegna mikils fjölda flóttamanna sem þangað leitar sé ekki hægt að sjá fólki fyrir vandaðri málsmeðferð og lágmarksaðbúnaði. Það fái því ekki þá þjónustu sem því á að vera tryggð. Málsmeðferðin tekur afar langan tíma – allt upp í mörg ár.

Hversu margir fá hæli í Grikklandi?
Samkvæmt upplýsingum frá Flóttamannastofnun SÞ er niðurstaða umsókna á fyrsta stigi í Grikklandi nánast undantekningarlaust neikvæð. Af þeim umsóknum sem voru afgreiddar í Grikklandi í fyrra var 99,95% nýrra hælisleitenda neitað um hæli.

Flutt bundin um borð í flugvél
Hugmyndin um að Noordin verði sendur frá Íslandi til Grikklands fær hárin til að rísa hjá móður hans, Laylu. Fjölskyldan glímir þegar við óþægilegar minningar frá Grikklandi. Systirin Neyra á raunar erfitt með að tala um það sem gerðist, en þetta hófst allt saman þegar þau hún og bræður hennar Noordin og Munaf ákváðu að fara frá Sýrlandi yfir til Evrópu.

Þau ætluðu að fara á eftir elsta bróðurnum Nowfal. Hann þekkti til í Belgíu, í gegnum vini sína, og tókst að komast þangað ásamt fjölskyldu sinni. Þar fékk hann hæli.

Sigldu til Grikklands
Systkinin þrjú flugu yfir til Tyrklands þar sem þau greiddu háa fjárhæð fyrir að vera ferjuð yfir til Grikklands. Maðurinn sem þau borguðu stóð ekki við loforð sín – var eins og Neyra orðar það „ekki góður maður“. Hann tók af þeim vegabréfin og þegar báturinn kom til Grikklands beið lögreglan eftir þeim.

„Við vorum skilríkjalaus og vorum í níu daga látin gista í opnu, veggjalausu skýli, nálægt sjónum. Þarna var ískalt og ekki fræðilegur möguleiki að ná að sofna því það var svo kalt. Við fengum ekkert til að breiða yfir okkur og þarna voru engin rúm. Við lágum á skítugu teppi og ég sá á miðanum á því að það var framleitt árið 1959. Hversu margir hafa legið á þessu teppi í gegnum árin? Og salernisaðstaðan? Hræðileg,“ segir Neyra.

„Við létum vita að við værum svöng og þyrst en fengum engan mat. Sem betur fer áttum við smávegis af fé eftir þannig að við gátum keypt okkur að borða. Þarna með okkur var hins vegar fjölskylda með smábörn sem átti enga peninga fyrir mat. Við gáfum börnunum matinn, þannig að þetta var ekki neitt neitt sem við borðuðum þessa daga.“

Tvöfalt áfall
Lögreglan sleppti þeim að lokum og systkinin þvældust á milli áður en þau enduðu í Aþenu þaðan sem þau komust síðan til bróðurins í Belgíu og báðu um hæli. Þar urðu fagnaðarfundir. Næstu þrjá mánuði bjuggust systkinin við að fá að sameinast og byrjuðu að læra flæmsku. En þá kom reiðarslagið. Þeim var tilkynnt að þau yrðu send aftur til Grikklands.

„Það var áfall. En síðan kom annað áfall,“ segir Neyra. „Okkur var sagt að við yrðum send til Grikklands sitt í hvoru lagi en ekki saman. Fyrst sendu þau Munaf, nokkrum dögum seinna mig og loks Noordin. Ég hef ekki hugmynd um af hverju og mér fannst hræðileg tilhugsun að eiga að fara þessa leið ein. Hvernig gat ég verið viss um að stóri bróðir minn biði eftir mér á leiðarenda? Og hvað yrði um litla bróður?“

Sama hversu Neyra þrábað um að hún og Noordin, 17 ára, fengju að fara leiðina saman var því neitað.

Á flugvellinum í Belgíu var Neyra leidd inn um stóra málmhurð, inn í rökkvað herbergi og látin setjast á steingólf. Hún var grandskoðuð og látin afklæðast. Bón hennar um að dyrunum væri kyrfilega lokað áður var neitað. Seinna voru hendurnar á henni bundnar saman. Fæturnir sömuleiðis.

„Ég vissi ekki hvað var að gerast, ég bara grét og grét. Voru þetta mannréttindin sem mamma og pabbi höfðu talað svo mikið um? Þegar við systkinin vorum lítil töluðu þau alltaf svo fallega um Evrópu, sögðu að í Evrópu væri fólkið gott og að þar nyti fólk mannréttinda. Svo var komið fram við okkur eins og skepnur – við bundin niður eins og dýr.“

Niðurlæging
Þegar Neyra hélt að niðurlægingin gæti ekki orðið meiri birtust tveir menn sem tóku undir sitt hvorn handlegginn á henni, lyftu henni upp og báru hana út í vél.

„Þar sem ég var öll bundin gat ég ekki gengið sjálf. Mennirnir fóru með mig aftast, í gegnum alla vélina, fulla af fólki. Þar var ég sett í miðjusætið, á milli varðanna. Ég grét og grét og þá hvæsti annar þeirra að ef ég héldi ekki kjafti yrði hann að þagga niðri í mér. Ég hélt áfram að hágráta og þá tróð hann tusku upp í mig. Þannig að ég sat bara þarna með tuskuna uppi í mér, bundna aftur fyrir höfuðið, og heyrði raddir mömmu og pabba í höfðinu: Í Evrópu eru mannréttindi, þar er fólkið gott.

Hvað hafði ég gert, var ég glæpamaður? Ég var bara ung, skíthrædd stúlka sem þráði ekkert annað en að fá að lifa í friði og ró og hafði aldrei viljað neinum illt.“

Enga hjálp að fá
Þegar systkinin voru öll komin til Grikklands voru þau sett í gæsluvarðhald í tíu daga. „Við vorum í pínulitlum klefa með hópi fólks. Þarna var ekkert pláss, tveir og tveir saman í hverri koju og Munaf svaf á gólfinu. Að lokum vorum við spurð hvort við vildum koma okkur aftur til Írak eða vera áfram í Grikklandi – en án nokkurrar hjálpar. Ég vissi ekki hvernig við ættum að fara að því vegna þess að við vorum skilríkjalaus og allslaus. Við vorum öll miður okkar, algjörlega búin á því. Og hvernig áttum við að geta farið aftur til Írak? Við yrðum bara drepin þar. Þeir sem töluðu við okkur sögðu okkur að þetta væri ekki þeirra vandamál.

Á endanum ákváðum við að það væri of hættulegt fyrir mig að vera í Grikklandi með bræðrunum, þeir treystu sér ekki til að passa að ekkert kæmi fyrir mig. Munaf er þarna enn og hringdi í okkur í seinustu viku og var þá búinn að sofa úti í marga daga – hann er að bíða eftir að eitthvað gerist í sínu máli en það gengur ekki neitt. Ég gat ekki verið í þessum aðstæðum, þannig að ég endaði aftur í Írak,“ segir Neyra.

„Þegar Noordin var ekki búinn að borða í tvo sólarhringa og gista úti undir berum himni enn lengur – í sandinum við sjóinn – ákvað hann að hann gæti ekki meira af Grikklandi. Þá ákvað hann að reyna að fara til Kanada, komast út fyrir Schengen-svæðið til að losna við að vera sendur aftur til baka til Grikklands. Hann var hins vegar stoppaður á Íslandi og sótti í framhaldinu um hæli þar. Í dag þykir honum orðið mjög vænt um Ísland.

Þetta var afar skrýtið allt saman – skrýtið að vera komin í þessa stöðu. Við vorum ekki fátæk í Írak. Vorum ekki á hrakhólum þar.“

Aðskilnaður í Grikklandi
Það var tilfinningaþrungin stund í Aþenu þegar systkinin þrjú kvöddust og leiðir skildu. Neyra grét alla leiðina til Bagdad. Hvenær sæi hún bræður sína aftur?

Í Írak sótti hún um nýtt vegabréf og hélt sig inni við þangað til pappírarnir voru tilbúnir, annað var of hættulegt. Hún kom sér síðan aftur yfir til Sýrlands um leið og hún gat. Neyra hefur ekki séð bræður sína síðan þau kvöddust örlagadaginn í Grikklandi.