Erfiðara að fá hæli á Norðurlöndunum

Kristján Jónsson blaðamann á Morgunblaðinu

25. maí 2009

VIÐ getum ekki skipað ríkjum að taka við flóttamönnum eða hælisleitendum, aðeins hvatt þau til að grafa ekki undan þeirri stofnun sem hefur það hlutverk að reyna að halda utan um þessi mál á alþjóðavettvangi,“ segir Hanne Marie Mathisen. Hún er norsk og stýrir samskiptamálum hjá skrifstofu Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, fyrir Norðurlöndin og Eystrasaltslönd í Stokkhólmi.  Viðtal við Hanne birtist í Morgunblaðinu 21. maí 2009.

Mathisen er stödd hér á landi í boði Rauða krossins og Mannréttindaskrifstofu Íslands og hefur meðal annars heimsótt palestínskar konur á Akranesi.

„Ég var snortin af því að hitta palestínsku konurnar sem fengu hér hæli. Við lítum á stefnu Íslendinga í málum þeirra sem mikla fyrirmynd, hvernig þeim var fenginn samastaður og þeim útvegaðar stuðningsfjölskyldur til að aðstoða þær við að koma sér fyrir og aðlagast. Ég hitti eina sem sagðist finna fyrir svo miklu frelsi og létti. Hún sagði mér að kona í búð hefði faðmað sig þegar hún fékk að vita að hún væri ein af Palestínukonunum!“

Hún sagðist vona að framhald yrði á þessu verkefni enda þótt ákveðið hefði verið að taka ekki við fleiri Palestínukonum á þessu ári. Hún var spurð um hungurverkfall Alsírbúa sem beðið hefur um hæli hér og svarar að sér sýnist það taka óvenju langan tíma fyrir yfirvöld hér að fara yfir umsóknir.

„Umsækjanda sem er í óvissu og biðstöðu í heilt ár finnst að hann sé ekki velkominn. Fái hann hæli hefst aðlögun en hann er frá upphafi mjög ósáttur og tortrygginn. Það er hvorki gott fyrir hælisleitandann né Íslendinga. En komi í ljós að hann fullnægi ekki skilyrðunum er best að hann yfirgefi landið sem fyrst.“

Á síðustu árum hafa komið upp harðar deilur víða á Norðurlöndunum vegna aðstæðna flóttamanna og hælisleitenda.

„Við sjáum að Norðurlöndin eru að taka upp harðari stefnu,“ segir hún. „Segja má að þetta hafi byrjað í Danmörku, Svíar fylgdu í kjölfarið og þá Norðmenn og nú virðast Finnar líka vera að huga að svipuðum breytingum. Við höfum áhyggjur af þessari breyttu afstöðu vegna þess að við álítum að það sé skylda allra að fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum. Ekki sé nóg að fylgjast með því hvað grannþjóðirnar geri.

Norðurlöndin eru staðall
Ég segi oft: ef okkur mistekst hér á Norðurlöndum mun okkar mistakast alls staðar. Það er mikilvægt að sum ríki hafi mjög traust kerfi vegna hælisleitenda vegna þess að þá verða þau eins konar staðall fyrir önnur ríki. Ég er ekki að segja að allt sé til fyrirmyndar á Norðurlöndunum en við vinnum að því að festa í sessi góð vinnubrögð og lagfæra þau göt sem við sjáum.“

Hún segir aðspurð að ljóst sé að auk þess sem lög og reglur séu ólík milli landa skipti miklu hvernig þau eru túlkuð og hver framkvæmdin sé. Hún geti verið væg eða ströng.

„Þegar upp er staðið er það hvert ríki sem tekur ákvarðanir í málum hælisleitenda og flóttamanna,“ segir Hanne Marie Mathisen.