Rauði krossinn andvígur því að senda hælisleitendur til Grikklands

11. jún. 2009

Rauði kross Íslands harmar þá niðurstöðu sem fram kemur í skýrslu dómsmálaráðuneytisins að hælisleitendur verði aftur sendir til Grikklands á grundvelli Dyflinnar reglugerðarinnar. Rauði krossinn hefur ítrekað beint þeim tilmælum til dómsmálaráðherra að hælisleitendur verði ekki sendir til Grikklands að svo stöddu og byggt þau á skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá apríl 2008.

Dómsmálaráðuneytið hefur nú til meðferðar mál sex einstaklinga sem sótt hafa um hæli á Íslandi eftir að hafa dvalist fyrst í Grikklandi. Lengst hafa þeir dvalist á Íslandi í rúmt ár en skemmst í rúma sjö mánuði. Á þeim tíma hafa þeir myndað góð og sterk tengsl við landið og við aðra borgara hér. Allir hafa þeir sótt eftir vernd hérlendis þar sem þeir telja sér ekki óhætt verði þeir sendir aftur til Grikklands á grundvelli Dyflinnar reglugerðarinnar.

Rauði krossinn hefur, ásamt Flóttamannastofnun Sameiðu þjóðanna, haft áhyggjur af ójafnri dreifingu hælisbeiðna innan Dyflinnar samstarfsins þar sem unnt er að endursenda hælisumsækjanda til þess ríkis sem hann kom fyrst til innan Evrópu.  Landsfélög Rauða krossins í Evrópu hafa í sameiningu bent á að núverandi beiting reglugerðarinnar hefur haft þau áhrif að evrópska hæliskerfið sé í raun einskonar happdrætti sem hefur því miður í för með sér að margir berskjaldaðir hælisleitendur fái ekki þá vernd og aðstoð sem þeir þurfa. Í áliti sem Rauði krossinn sendi frá sér 12. nóvember á síðasta ári segir að endurskoðun á grundvallargildum Dyflinnarreglugerðarinnar sé nauðsynleg.

Í skýrslu Flóttamannastofnunar frá 15. apríl 2008 er lýst áhyggjum af stöðu hælismála í Grikklandi og þeim aðstæðum sem hælisleitendur þar í landi búa við.  Flóttamannastofnun hefur hvatt aðildarríki til að endursenda hælisleitendur ekki til Grikklands. Fulltrúar stofnunarinnar segja þetta álit óbreytt. Rauði kross Íslands er sama sinnis og hefur ítrekað þá afstöðu við íslensk stjórnvöld.

Rauði krossinn vill að umsókn hvers og eins hælisleitenda sé skoðuð sérstaklega og leggur áherslu á að hvert og eitt ríki sem samþykkt hefur Dyflinnar reglugerðina sé ekki skyldugt til að endursenda fólk á þeim forsendum þó það sé heimilt. Í samræmi við það telur Rauði krossinn nauðsynlegt að dómsmálaráðuneytið skoði persónulegar aðstæður hælisleitendanna sem þegar dvelja hér á landi og þau tengsl sem þeir hafa myndað hérlendis.

Því eru það eindregin tilmæli Rauða kross Íslands til íslenskra stjórnvalda að senda ekki hælisleitendur til Grikklands að svo stöddu.