Námskeið um málsmeðferð hælisleitenda

11. jún. 2009

Fjölmennt var á námskeiði um málsmeðferð hælisleitenda sem Rauði kross Íslands stóð fyrir í gær í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Fulltrúar frá Flóttamannastofnun SÞ fóru yfir ýmis atriði sem skipta grundvallarmáli þegar ákvarðað er um stöðu einstaklings sem sækir um hæli.

„Meginviðfangsefnið var aðferðarfræði við ákvörðun á stöðu flóttamanns, t.d. hvernig eigi að meta trúverðugleika hælisumsækjanda, viðtalstækni, skilyrði flóttamannahugtaksins og fleira,” segir Atli Viðar Thorstensen, verkefnisstjóri hjá Rauða krossi Íslands.

„Rauði krossinn hér á landi vinnur að málefnum hælisleitenda í samstarfi við Flóttamannastofnun SÞ. Aðkoma Rauða krossins felst meðal annars í réttindagæslu fyrir hælisleitendur og málsvarastarfi en Rauði krossinn hefur komið að málefnum hælisleitenda frá ýmsum hætti frá árinu 1987. Námskeiðið í gær var liður í því að tryggja betur kunnáttu og þekkingu á málefnum þeirra sem koma að málum hælisleitenda hér á landi með einum eða öðrum hætti."

Um 40 manns sátu námskeiðið, þar á meðal fulltrúar frá stjórnvöldum og félagasamtökum, lögfræðingar, sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða krossins.