Opið hús í tilefni af alþjóðadegi flóttamanna 20. júní í StartArt á Laugaveginum

19. jún. 2009

Í tilefni af alþjóðadegi flóttamanna standa Rauði kross Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, í samstarfi við hælisleitendur og flóttafólk og Kaffitár, að opnu húsi, í listahúsinu StartArt, á Laugavegi 12b, frá klukkan 13:00-15:00. Málefni og menning flóttafólks verða kynnt en boðið verður upp á ýmsa skemmtun - tónlist, dans, dýrindis kaffi og léttar veitingar. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.
Á alþjóðadegi flóttamanna er vakin athygli á stöðu flóttafólks og allra þeirra sem neyðast til að leggja á flótta. Um 42 milljónir manna eru á vergangi vegna átaka, ofbeldis eða annarra orsaka. Af þeim eru tæplega 12 milljónir flóttamenn utan heimalands síns en um 26 milljónir eru á vergangi innan eigin landamæra. Mikill meirihluti þessa fólks leitar ásjár í nágrannaríkjum sem oftast nær eru mjög fátæk.
Íslensk stjórnvöld hafa boðið 512 flóttamönnum vernd hér á landi í samvinnu við Flóttamannastofnun, Rauða kross Íslands og sveitarfélög í landinu frá árinu 1956.. Fyrsti hópur flóttamanna kom frá Ungverjalandi en síðan hefur flóttafólk frá Júgóslavíu, Víetnam, Póllandi,Kosovó, Kólumbíu og Palestínu fengið skjól hér á landi.
Á tímabilinu 1990-2008 hafa um 680 leitað hælis á Íslandi eftir að hafa flúið heimalönd sín, þar af 76 á síðasta ári. Nú dvelja um 30 hælisleitendur á Íslandi og bíða þess að mál þeirra séu tekin til meðferðar.
Fólki hættir til að líta á flóttafólk aðeins sem fórnarlömb og það gleymist að flóttafólk tekur virkan þátt í byggja hér betra samfélag og hefur auðgað íslenska menningu og mannlíf. Með opnu húsi á morgun er ætlunin að vekja athygli á vanda flóttamanna en jafnframt halda mikilvægu framlagi þeirra til íslensks samfélags á lofti.
Nánari upplýsingar veita Sólveig Ólafsdóttir í síma 893 9912 og Guðrún Dögg Guðmundsdóttir í síma 895 0085.