Málefni flóttafólks vöktu mikla athygli á Laugaveginum

22. jún. 2009

Fjölmargir kynntu sér málefni og menningu flóttafólks og hælisleitenda á alþjóðadegi flóttamanna síðast liðinn laugardag. Rauði kross Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna stóðu að opnu húsi, í listahúsinu StartArt, á Laugavegi, í samstarfi við hælisleitendur og flóttafólk, þar sem athygli var vakin á stöðu flóttafólks og allra þeirra sem neyðast til að leggja á flótta. Jafnframt var bent á þátt flóttafólks við að byggja hér betra samfélag og auðga íslenska menningu og mannlíf. Boðið var upp á ýmsa skemmtun – tónlist, dans, dýrindis kaffi og léttar veitingar.

Um 42 milljónir manna eru á vergangi vegna átaka, ofbeldis eða annarra orsaka. Af þeim eru tæplega 12 milljónir flóttamenn utan heimalands síns en um 26 milljónir eru á vergangi innan eigin landamæra. Mikill meirihluti þessa fólks leitar ásjár í nágrannaríkjum sem oftast nær eru mjög fátæk.

Íslensk stjórnvöld hafa boðið 512 flóttamönnum vernd hér á landi í samvinnu við Flóttamannastofnun, Rauða kross Íslands og sveitarfélög í landinu frá árinu 1956.. Fyrsti hópur flóttamanna kom frá Ungverjalandi en síðan hefur flóttafólk frá Júgóslavíu, Víetnam, Póllandi, Kosovó, Kólumbíu og Palestínu fengið skjól hér á landi.

Á tímabilinu 1990-2008 hafa um 680 leitað hælis á Íslandi eftir að hafa flúið heimalönd sín, þar af 76 á síðasta ári. Nú dvelja um 30 hælisleitendur á Íslandi og bíða þess að mál þeirra séu tekin til meðferðar.