Amma á Akranesi, látið barnabarn í Írak

Sigríði Víðis Jónsdóttur blaðamann á Morgunblaðinu

24. júl. 2009

Ayda Abdullah Al Esa á heima á Akranesi en elsta dóttir hennar býr við illan kost í flóttamannabúðum í Írak. Dóttirin fær ekki að koma til Íslands en bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að taka við henni. Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Föstudagurinn langi mun seint líða Aydu Abdullah Al Esa á Akranesi úr minni. Það var þá sem hún frétti að barnabarn hennar hefði látist, einungis nokkrum klukkustundum eftir fæðingu þess í Írak. Þetta var fyrsta barnabarnið, Ayda var að verða amma.

Þetta var langur dagur fyrir Aydu, raunar eins og vikan öll hafði verið. Síðan á mánudeginum hafði hún fylgst af Akranesi með ungri dóttur sinni, Sömu Husam Ahmed Al Hasan, reyna árangurslaust að fæða frumburðinn í Írak. Ayda flutti á Akranes síðastliðið haust ásamt sjö öðrum fjölskyldum á flótta. Dóttirin Sama var hins vegar ekki í hópnum sem boðið var að koma og er enn í Írak.

Vikuna fyrir páska gekk Ayda um gólf á Íslandi og reyndi að bægja frá sér angistinni yfir að vera ekki við hlið dóttur sinnar á ögurstundu - reyndi að senda henni alla sína bestu strauma yfir hafið, út í eyðimörkina.

Bláleitur sonur

Það var á mánudegi sem Sama fékk hríðir í Al Waleed-flóttamannabúðunum í Írak, þangað sem mæðgurnar flúðu frá Bagdad. Þar dvelja palestínskir flóttamenn sem í dag eru á flótta frá Írak. Búðirnar eru langt frá næsta byggða bóli - næsta stóra sjúkrahús er raunar 400 kílómetra í burtu. Í flóttamannabúðunum er læknir og lítil heilsugæsla en ekki hægt að sinna nema einföldustu tilvikum. Ákveðið var að Sama færi alla 400 kílómetrana á sjúkrahús í Al Qaim.

Þar tók við endalaus bið. Klukkutímarnir liðu. Urðu á endanum að dögum. Fæðingin gekk illa og Sömu og eiginmanninum Ali leist ekki á blikuna. Hvernig sem Sama bað um eitthvað við verkjunum fékk hún ekki neitt. Læknirinn vildi ekki heldur skera hana. Jafnvel ekki þegar fimmti dagurinn á sjúkrahúsinu var runninn upp og barnið var enn ófætt. Þá var Sama öll orðin brennandi heit og frávita af sársauka. Hvað átti hún að gera, þetta mjakaðist ekkert, hvar var deyfingin, hvar var mamma, af hverju var reynt að láta barnið fæðast eðlilega þegar það vildi augljóslega ekki út, þetta var hvort eð er ekki eðlileg fæðing var það? Sama var orðin logandi hrædd.

Á föstudegi kom barnið í heiminn. Þetta var drengur, lítill, bláleitur drengur.

Ayda fékk skilaboð heim til sín á Skagann um að barnið væri fætt. Ömmunni á Akranesi létti stórum - þetta hafði verið skelfileg vika. Nokkrum klukkustundum síðar fékk hún símtal og þá kólnaði henni snögglega. Barnabarnið hafði látist.

Barnslaus í tjaldi
Seinna þennan langa föstudag þvældust Sama og Ali alla 400 kílómetrana til baka af sjúkrahúsinu og inn í tjaldið sitt í einskinsmannslandinu. Þar lögðust þau barnslaus og ringluð niður. Drengurinn hafði fæðst og dáið og þau voru komin aftur í flóttamannabúðirnar - allt sama dag.

Samkvæmt hefðum Íslam var barnið grafið sem fyrst eftir andlátið. Athöfnin fór fram í Al Qaim áður en Sama og Ali héldu til baka hina löngu leið í flóttamannabúðirnar. Hvar grefur maður líka barn sem fæddist ríkisfangslaust og á hvergi heima?

Drengurinn hefði reyndar átt að eiga heima í tjaldbúðunum. Í ljósbrúna tjaldinu hjá Sömu og Ali, þessu með hvíta fortjaldinu, nærri öðrum enda flóttamannabúðanna. Vonandi hefði hann hins vegar komist í burtu sem allra fyrst og sloppið við að alast upp við aðstæðurnar í búðunum. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, hefur ítrekað bent á að hrjóstruga eyðimörkin í Al Waleed er engan veginn fallin til búsetu. Af þeim milljónum Íraka sem flúðu heimili sín eftir innrásina 2003 álítur UNHCR Palestínumenn í Írak vera í hvað alvarlegastri stöðu. Þeir eru ekki einungis ofsóttur minnihlutahópur heldur búa þeir við skelfilegar aðstæður úti í eyðimörkinni.

Hópar í sérstakri hættu
Spurðu Aydu og Sömu hvað það var nákvæmlega sem fór úrskeiðis í Al Qaim og þær benda á að læknismeðhöndlunin hafi ekki verið rétt, engan veginn fullnægjandi. Af heilbrigðiskerfi í rúst sé líka ekki mikils að vænta.

Konur og börn eru almennt talin sérstakur áhættuhópur og hópurinn sem var valinn til Íslands síðastliðið sumar samanstóð af »konum í áhættu« (e. women at risk) og þeirra börnum. Þetta var með öðrum orðum sá hópur sem var í hvað bráðastri nauðsyn fyrir að komast í burtu frá Írak. Flokkunin »konur í áhættu« kemur frá UNHCR og viðurkennir í raun þá erfiðu stöðu sem konur á flótta standa gjarnan frammi fyrir. Hér er meðal annars um að ræða einstæðar mæður en einnig barnungar stúlkur í viðkvæmri stöðu, eldri konur sem ekki geta séð sér farboða, fórnarlömb kynferðisofbeldis tengdu stríðsátökum og svo framvegis. Konurnar átta sem enduðu á Akranesi misstu flestar eiginmenn sína eftir innrásina 2003.

Það passa hins vegar aldrei allir inn í strangar skilgreiningar á sérstökum áhættuhópum. Samkvæmt skilyrðum Íslands átti íslenski hópurinn eingöngu að samanstanda af einstæðum mæðrum og þeirra börnum. Sama fékk ekki boð um hæli þar sem hún hafði gifst Ali fyrr á árinu - og átti þar af leiðandi eiginmann. Hún var með öðrum orðum ekki einstæð móðir þegar hennar eigin móður bauðst að fara til Íslands. Samkvæmt skilgreiningu var hún hins vegar ennþá barn. Hún er fædd í október 1990.

Þegar Sama giftist fór hælisumsókn hennar sjálfkrafa í aðra möppu hjá Flóttamannastofnuninni, UNHCR, en umsókn móður hennar. Ayda og börnin Aseel og Ahmed voru saman á umsóknarblaði en samkvæmt reglum UNHCR voru Sama og Ali flokkuð saman. Það er UNHCR sem leggur fram tillögur um hverjir samræmist kröfum stjórnvalda sem taka hópa flóttafólks. Ung hjón - kona og eiginmaður - var ekki það sem Ísland var að leita eftir og þeirra aðalumsókn lenti því ekki á borði íslenskra stjórnvalda. Sama og Ali voru á hinn bóginn bæði skráð á umsóknarblaði Aydu undir liðnum »ættingjar aðalumsækjanda«. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var full vitund um tilvist þeirra af allra hálfu.

Það var sautján ára gömul Sama sem horfði á móður sína og yngri systkini aka í burtu úr Al Waleed í þykkum rykmekki.

Ahmed, Ayda og Aseel hafa lært mikla íslensku og var vel tekið á Akranesi.

Hvað er að frétta?
Konurnar sem enduðu á Skaga eiga flestar systkini og ættingja sem urðu eftir í Al Waleed-flóttamannabúðunum. Ayda er hins vegar sú eina sem á barn. Þegar hún heyrði í janúar af því að ég ætlaði að reyna að komast landleiðina frá Sýrlandi yfir til Írak og fara til Al Waleed til að kynna mér aðstæður palestínska flóttafólksins, spurði hún feimnislega hvort það væri einhver möguleiki á að ég tæki lítinn pakka með til barnsins, barnaföt frá ömmunni á Íslandi, hana langaði svo að senda því eitthvað smálegt. Hún viðurkenndi að sér fyndist undarlegt að vera ekki hjá Sömu sinni og geta ekki hjálpað henni fyrstu skrefin. Að hafa kvatt ófríska dóttur í eyðimörkinni og ekið í burtu.

Ayda kvartar reyndar hvorki né kveinar og er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið hæli á Íslandi - en stundum verður söknuðurinn eftir dótturinni óbærilegur eitt andartak, nokkur tár læðast niður vangann og móðirin skreppur saman í stóra sófanum sínum. Síðan reisir hún sig snöggt við og býður upp á meira kaffi.

Í dag skilur Ayda orðið mikla íslensku og talar heilmikið. Yngri börnin hennar, Aseel og Ahmed, eru smám saman að verða altalandi. Litla fjölskyldan býr í fallegri íbúð á Skaga með Akrafjallið beint út um stofugluggann. Það er alltaf gott að koma í heimsókn til Aydu, Aseel og Ahmeds, finna jákvæðnina og hlýjuna.

Þótt Ayda hafi orðið ekkja í Írak eftir veikindi eiginmanns síns, upplifað lamandi ótta yfir því að börnum hennar yrði rænt í Bagdad eftir innrásina og hírst í tjaldi í eyðimörk í heilt ár eftir að hafa flúið borgina - þá leiðir hún gestina hnarreist og brosandi til stofu, hellir upp á kaffi og spyr áhugasöm hvað sé að frétta, hvernig gangi.

Akranes og Írak
Daginn sem ég hitti Sömu í flóttamannabúðunum í Írak má hún vart mæla. Hún reynir að halda andlitinu, brosa og vera sterk en ég get horft á kökkinn í hálsinum á henni stækka. Þetta er í mars, sex mánuðum eftir að fjölskyldan fór. Sama er komin átta mánuði á leið. Spennan yfir barninu er mikil, áhyggjurnar yfir fæðingunni sömuleiðis. Það er erfitt að kyngja því að næsta sjúkrahús er í órafjarlægð og móðirin mörg þúsund kílómetra í burtu. Í tjaldbúðunum varð auk þess öflugur sandstormur þremur dögum áður og þunn tjöldin sveifluðust til og frá í vindhviðunum.

Sama sest hljóðlega niður í tjaldinu sínu og við horfumst í augu. Hún býður sæti á teppi á tjaldgólfinu, hverfur inn í herbergi sem hefur verið stúkað af innar í tjaldinu og kemur til baka með drykki á bakka. Enn er hálfgerður vetur í Al Waleed, heitt yfir daginn en hrollkalt á nóttunni.

Á Akranesi hefur Ayda sagt mér undan og ofan af dóttur sinni og það er skrýtið að hafa hana loks fyrir augunum. Andstæðurnar á milli stofunnar hennar Aydu og tjaldstofu Sömu gætu ekki verið meiri. Á köldum rigningardegi á Skaga nokkrum dögum áður lét Ayda mig fá veski með myndum, peningum og öðru til að taka með til hennar.

- Viltu kyssa hana frá mér? Faðma hana eins fast og þú getur.

Í eyðimörkinni geri ég eins og Ayda biður um og rétti Sömu veskið. Tárin byrja að leka en hún þurrkar þau eldsnöggt í burtu. Horfir síðan fast á veskið af Akranesi og veltir því á milli handanna. Nálægðin við þann sem kemur af Íslandi virðist allt í einu yfirþyrmandi.

- Hvernig hafa systkini mín það?

Óraunverulegur aðskilnaður

Það var á endanum Sama sem hvatti móður sína til að taka boðinu til Íslands og veita systkinum sínum örugga framtíð. Enda var boð um að flytjast úr skelfingunni í eyðimerkurbúðunum og fá hæli á Íslandi eins og að detta í lukkupottinn. Aðskilnaðurinn yrði vissulega óendanlega sár, hálfóraunverulegur. En Sama benti Aydu á að það væri margfalt skárra að yngri systkinin fengju framtíð á Íslandi en að þau héldu öll áfram að hírast í sandflæminu. Þau gætu líka heyrst stundum í síma. Þótt Al Waleed sé langt frá byggðum bólum er farsímasamband þar vegna landamærastöðvarinnar sem er rétt hjá. Ayda veit því allt um það að í fjóra daga nýverið var vatnslaust í Al Waleed og að dóttur hennar líður enn afar illa yfir því sem gerðist í vor.

Sama sagði mér nýlega í síma að í Al Waleed verður heitara með hverjum degi. Þar er 50 stiga hiti um hásumar. Eftir nokkrar vikur verða komin tvö ár síðan hún flúði frá Bagdad og flutti inn í tjald.

Ein á Íslandi, önnur í Bandaríkjunum
Eftir það sem gerðist í vor - og í ljósi sérstöðu máls Sömu og Ali - hafði Flóttamannastofnun SÞ samband við þau og spurði hvort þau myndu vilja fara til Íslands stæði það til boða. Þetta gerði stofnunin að beiðni frá Íslandi, þar sem svar frá þeim varð að liggja fyrir áður en aðilar innan íslenska stjórnkerfisins gátu ákveðið hvort þeim yrði mögulega boðið til landsins. Sama og Ali svöruðu játandi - Sama hefur enda saknað móður sinnar og systkina hvern einasta dag síðan þau óku í burtu.

Í seinustu viku var Aydu hins vegar tilkynnt að dóttur hennar og tengdasyni yrði ekki boðið til Íslands. Búið væri að komast að niðurstöðu um það.

„Ég fékk heimsókn og mér var sagt að ekki væru til peningar til þess að fá þau til landsins. Svo væru þau líka búin að fá hæli í Bandaríkjunum,” segir hún. Ekki það að Ayda ætlaðist til neins af Íslands hálfu en í marga mánuði var hún þó búin að krossa fingur og vona, vona það besta, verða þó ekki of vongóð því sá sem vonar setur sig í þá viðkvæmu stöðu að verða fyrir vonbrigðum. Að sögn Aydu stendur til að Sama og Ali fari til Bandaríkjanna sem flóttamenn ásamt flestum í Al Waleed. Þau vita hins vegar ekki hvar þau lenda, hvenær þau fá að fara eða hversu mikla hjálp þau fá við að takast á við aðstæður á nýja staðnum. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins frá Flóttamannastofnun SÞ er búist við því að brottför íbúanna í Al Waleed geti hafist á næstu mánuðum.

Frá því að ofsóknir hófust gegn Palestínumönnum í Írak hafa Bandaríkin einungis tekið örfáa Palestínumenn en nú hefur orðið algjör stefnubreyting. Brottför fólksins þangað þykir marka tímamót.

Skrýtnir dagar
Það var erfitt fyrir Aydu að fá fréttirnar af því að Sama og Ali fái ekki að koma til Íslands, hún er dauðfegin að þau losni úr prísundinni í flóttamannabúðunum en finnst skrýtið að horfa á eftir þeim til Bandaríkjanna og er miður sín yfir öllu saman.

Ayda er enn ekki viss um hvort tengdaforeldrar Sömu, foreldrar Ali, fái hæli í Bandaríkjunum þar sem þau hafa ekki verið látin vita af eða á. Að sögn Aydu gæti því orðið að Sama og Ali færu þangað ein ásamt bróður Ali. „Mér þykir ekki gott að vita mögulega af þeim einum þarna úti,” segir hún.

Sama var einungis 11 ára gömul þegar ráðist var inn í Írak vorið 2003. Þær mæðgur grunaði ekki þá hvað var í vændum - grunaði ekki að þær myndu verða fyrir ofsóknum í Írak og enda í tjaldi í eyðimörk, eða að önnur þeirra endaði á Íslandi en hin í Bandaríkjunum.

Foreldrar Ali eru óvissir hvað verður um þá. Bandaríkin hafa boðist til að taka flesta íbúa í Al Waleed en enn er óvíst hvenær fólkið fer.

 


Eftir Sigríði Víðis Jónsdóttursigridurv@mbl.is