Skýrsla um meðferð hælisumsókna

29. júl. 2009

Dómsmálaráðuneytið birti þann 27. júlí skýrslu nefndar um meðferð hælisumsókna sem dómsmálaráðherra skipaði 21. apríl sl. Nefndinni var skv. erindisbréfi falið að fara yfir lög og reglur um meðferð hælisumsókna í ljósi réttarframkvæmdar hér á landi, dóms Hæstaréttar frá 12. mars sl. og alþjóðlegra skuldbindinga. Átti nefndin að taka til skoðunar lög og reglur sem gilda um málsmeðferð hælisumsókna og m.a. skoða hvort þær væru í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Jafnframt var nefndinni falið að skoða framkvæmd laga og reglna og hvort þörf sé á breytingum þar á í samræmi við dóma og alþjóðlegar skuldbindingar. Skyldi nefndin koma með tillögur um úrbætur teldi hún þess þörf.

Í nefndina voru skipuð Björg Thorarensen prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, sem jafnframt var formaður hennar, Atli Viðar Thorstensen, verkefnisstjóri hjá Rauða krossi Íslands, Kristín Benediktsdóttir, lögmaður og stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands, Rósa Dögg Flosadóttir lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, nú settur forstjóri Útlendingastofnunar og Trausti Fannar Valsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands. Starfsmaður nefndarinnar var Gunnar Narfi Gunnarsson, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

Nefndin lauk störfum þann 17. júlí og gerir í skýrslu sinni tillögur til úrbóta í 22-liðum. Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands segir vissulega jákvætt að nefnd skipuð af dómsmálaráðherra hafi nú fjallað ítarlega um meðferð hælisumsókna. Tillögur nefndarinnar séu mikilvægt skref í rétta átt til að bæta réttaröryggi einstaklinga sem óska eftir alþjóðlegri vernd á Íslandi og meðferð umsókna þeirra enda hafi hún tekið tillit til ýmissa ábendinga, tillagna og athugasemda m.a. frá Rauða krossinum og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þó hefði hann viljað sjá nefndina ganga lengra í tillögum sínum í ákveðnum atriðum. „Til að mynda hefur Rauði krossinn lagt áherslu á að allir hælisleitendur fái lögmannsaðstoð frá því að hælisumsókn er lögð fram og að kveðið verði á um hámarksafgreiðslutíma stjórnvalds,“ segir Kristján Sturluson .

Skýrsluna er hægt að nálgast hér