Krafa um réttlátt hælisleitendakerfi í Evrópusambandinu

29. júl. 2009

Grein eftir Wolfgang Kopetzky stjórnarformann Evrópuskrifstofu Rauða krossins og Bengt Westerberg varaformann Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans og formanns sænska Rauða krossins. Greinin birtist í Svenska Dagbladet.

STOKKHÓLMSVERKEFNIÐ
Virðing fyrir mannréttindum er grundvöllur Evrópusambandsins. Af þeim sökum má ekki leyfa þjóðum að fylgja þessum réttindum eftir með jafnólíkum hætti og gert er í dag. Það á í þessu tilviki við um meðferð hælisleitenda. Ástandið eins og það er í dag er óásættanlegt frá mannúðarsjónarmiði.

Þann 17. júlí lauk óformlegum fundi ráðherra Evrópusambandsins í Stokkhólmi, þar sem rætt var um ýmsa þætti réttarfars og innanríkismála. Svíþjóð veitir nú Evrópusambandinu forsæti og um leið vinnur sænska ríkisstjórnin að framgangi samstarfsverkefni til fimm ára á sviði réttarfars og innanríkismála, hinu svo nefnda Stokkhólmsverkefni. Mikilvægasti þáttur verkefnisins felst í því að sett verði upp samevrópskt hælisleitendakerfi.

Landsfélög Rauða krossins í Evrópu hafa ítrekað látið í ljós áhyggjur sínar vegna þeirra þjáninga sem fylgja ólöglegum innflutningi á fólki. Þau hafa vakið athygli á þeirri ómannúðlegu meðferð sem hælisleitendur og fleiri þurfa að þola við ytri landamæri Evrópusambandsins og bent á að mikil hætta sé á því að hælisleitendur fái ekki réttláta meðferð umsókna sinna.

Frá mannúðarsjónarmiði er ekki hægt að sætta sig við ástandið eins og það er í dag. Sem fulltrúar landsfélaga Rauða krossins innan Evrópusambandsins hvetjum við Tobias Billström ráðherra innflytjendamála og aðra hlutaðeigandi ráðherra Evrópusambandsins til að leggja grunninn að sameiginlegu evrópsku hælisleitendakerfi. Þeir sem þurfa á vernd að halda eiga að hafa aðgang að sanngjörnu, samevrópsku hælisumsóknarkerfi sem tryggir mannúðleg skilyrði fyrir móttöku þeirra og rétt þeirra til að sækja um og fá hæli.

Virðing fyrir mannréttindum er grundvöllur Evrópusambandsins. Af þeim sökum má ekki leyfa þjóðum að fylja þessum réttindum eftir með jafnólíkum hætti og gert er í dag. Við teljum að aðgerðir Evrópuþingsins og Evrópuráðsins þurfi að tryggja:

• Aðgang að réttlátu og vel starfandi hælisleitendaferli sem geri hælisleitendum kleift að komast óhultir inn fyrir landamæri Evrópusambandsins.
• Mannúðleg skilyrði um viðtöku þar sem hælisleitendum er jafnframt sýnd virðing og tekið er tillit til þeirra sem eru í mestum nauðum staddir.
• Hæli innan Evrópusambandsins fyrir fólk sem þarf á hjálp að halda
• Réttláta skiptingu ábyrgðar milli aðildarríkja Evrópusambandsins.

Hælisleitendur þurfa að eiga möguleika á að leggja inn umsókn sína. Að öðrum kosti hefur sá réttur að sækja um hæli enga merkingu. Aukin landamæravarsla hefur á hinn bóginn dregið mjög úr möguleikum þessa fólks til að sækja um hæli. Þær aðferðir sem notaðar eru í dag til að komast inn á svæði Evrópusambandsins eru fyrst og fremst ólöglegar. Smyglarar sem sjá um að koma fólki á leiðarenda eru fyrir marga eini möguleikinn sem stendur til boða.

Þegar fólk loks kemst að ytri landamærum Evrópusambandsins þarf það að fá upplýsingar um réttindi sín og fá mannúðlega meðferð. Það þarf að fá aðgang að skilvirku og réttlátu hælisumsóknarferli þar sem allar umsóknir um hæli eru teknar fyrir á einstaklingsgrundvelli í samræmi við alþjóðalög. Allir hælisleitendur þurfa að eiga rétt á að vera áfram innan Evrópusambandsins meðan á öllu ferlinu stendur og hafa aðgang að lögfræðilegri ráðgjöf.

Til að engum sem þarf á hæli að halda sé hafnað, þarf reglur sem tryggja að þeir eigi rétt á vernd sem ekki teljast flóttamenn samkvæmt skilgreiningu flóttamannasamningsins. Þetta á sérstaklega við þegar um er að ræða fólk sem er á flótta undan vopnuðum átökum.

Sameiginlegar reglur um móttöku þurfa að tryggja mannúðlega meðferð og sæmileg lífsskilyrði. Leggja þarf sérstaka áherslu á heilbrigði þeirra. Margir hælisleitendur verða fyrir alvarlegu heilsutjóni fyrir og eftir flóttann. Það er ekki nóg að þeim bjóðist aðeins heilbrigðisþjónusta í neyðartilvikum. Þeir verða að fá alla þá heilbrigðisþjónustu sem þeir þarfnast.

Þegar tekið er á móti hælisleitendum skiptir miklu máli að tryggja að þeir geti staðið á eigin fótum. Til að geta verið sjálfstæðir þurfa hælisleitendur að eiga rétt á að sækja um vinnu og ráða sig til starfa. Varast ber í lengstu lög að loka þá inni. Hælisleitendur sem orðið hafa fyrir miklum áföllum, til dæmis þeir sem hafa sætt pyndingum, skal aldrei setja í fangelsi.

Dyflinarsamstarfið er það kerfi sem Evrópusambandið notar til að dreifa ábyrgð þjóða á meðferð hælisleitenda. Samkomulagið byggir á þeirri grundvallarreglu að hælisumsókn skuli jafnan tekin fyrir í því sem fyrst tekur við hælisleitanda. Í dag geta sum lönd hins vegar ekki tryggt réttláta meðferð hælisumsókna og því er þörf endurbóta á þessu kerfi. Við leggjum því til að gerð verði samþykkt sem tryggir að aðildarlönd þurfi ekki að senda hælisleitendur aftur til landa sem ekki geta tekið við þeim og veita þeim ekki fullnægjandi vernd.

Aðildarlöndin og stofnanir Evrópusambandsins þurfa einnig að leggja aukið fjármagn til hælisleitendamála og sjá til þess að þessi málaflokkur sé í höndum hæfra og velmenntaðra starfsmanna. Til að tryggja skilvirkt, samevrópskt hælisleitendakerfi er jafnframt nauðsynlegt að allur kostnaður sé á fjárlögum Evrópusambandsins.

Án efa er mikið starf enn óunnið, en við vonumst til að með stuðningi Rauða krossins og annarra alþjóðlegra stofnana geti Evrópusambandið og aðildarlönd þess byggt upp aðgengilegt og réttlátt evrópskt hælisleitendakerfi sem tryggir hælisleitendum og flóttamönnum í Evrópu betri framtíð.