„Mér líður vel hérna“ - Eitt ár síðan nýr kafli hófst í lífi Manal Aleedi

Ingibjörgu B. Sveinsdóttur blaðamann Morgunblaðsins

10. sep. 2009

ÞESSA dagana situr Manal Aleedi mest heima við í blokkinni sem hún býr í á Akranesi og æfir sig í að skrifa íslensku. Þar sem það er ramadan, þ.e. föstumánuður, hefur hún ekki jafnmikið fyrir stafni utan heimilisins og venjulega. Greinin birtist í Morgunblaðinu 09.09.2009.

„Þegar ramadan lýkur ætla ég á kaffihús með íslenskum vinkonum mínum og ég ætla þá líka að fara í leikfimi,“ segir Manal og hlakkar greinilega mikið til.

Nýr kafli í lífinu
Fyrir nákvæmlega einu ári hófst nýr kafli í lífi Manal. Hún kom þá til Akraness ásamt sjö öðrum palestínskum konum og 21 barni frá Al Waleed-flóttamannabúðunum í Írak.
Eiginmaður Manal var tekinn af lífi árið 2006. Hún var þá 27 ára og móðir þriggja ungra barna.

Nú ganga börnin, Sara, sem er 9 ára, Maryam, sem verður 8 ára í næstu viku, og Mohammed, sem er 6 ára, í skóla og leikskóla á Akranesi.

„Stelpurnar eru í fimleikum og strákurinn er í fótbolta. Ég fer og horfi á þau,“ segir Manal stolt.

Ísland er svo fallegt land
Sjálfri þykir henni gaman að hjóla um bæinn og fara niður á Langasand. Hún hefur líka skoðað sig um fyrir utan bæinn ásamt íslenskum vinum sínum.

„Í sumar fór ég með vinum mínum í útilegu og ég er búin að sjá Gullfoss og Geysi. Þetta var mjög skemmtilegt. Ísland er svo fallegt land,“ segir Manal.

Hún kveðst alls staðar mæta afar góðu viðmóti þar sem hún kemur. „Það eru allir Íslendingar svo góðir við mig. Mér líður vel hérna. Ég er miklu rólegri en ég var.“

Sjálf bauð hún vinahópi sínum í veglega matarveislu þegar hún varð þrítug í sumar. „Svo bauð ég upp á tertu sem ég fékk að gjöf,“ segir Manal á ótrúlega góðri íslensku.

Hún keppist við að læra enn meira í málinu og gluggar í námsbækur barnanna.
„Ég les en skil ekki allt. Krakkarnir mínir eru að kenna mér en ég þarf að læra miklu meira. Mig langar til þess að fá vinnu hérna. Það er ekki gott að sitja heima og gera ekki neitt.“


Spurt og svarað:
Hvar eru Al Waleed-flóttamannabúðirnar?
Þær eru á landamærum Íraks og Sýrlands.

Hver er uppruni Palestínumanna í Al Waleed-flóttamannabúðunum?
Þeir eru afkomendur Palestínumanna sem flúðu til Íraks þegar Ísraelsríki var stofnað. Palestínumenn nutu verndar í stjórnartíð Saddams Husseins, fyrrverandi Íraksforseta, en þeir voru ríkisfangslausir.
Hvers vegna eru þeir í