Herþotur yfir Bagdada. Flóttamanni fæddum 1990 var vísað úr landi í gær - því það má

Sigríður Víðis Jónsdóttir

16. okt. 2009

Daginn sem herþoturnar hófu að svífa yfir Bagdad vissi Layla Khalil Ibrahim að eitthvað mikið var í vændum. Hún var óttaslegin yfir því hvað tæki við í kjölfar innrásarinnar í Írak. Þrátt fyrir alla heimsins hræðslu gat hana þó ekki grunað hvaða raunasaga var um það bil að hefjast. Hvað þá að sorgarsögunni ætti eftir að skola á land á Íslandi. Greinin birtist á Smugan.is

Ekki það að íslensk yfirvöld hafi ekki síðar losað sig undan málinu. Í gærmorgun var yngsti sonur Laylu settur um borð í flugvél og sendur úr landi. Hann heitir Noordin Alazawi, er fæddur árið 1990, og hafði sótt um hæli á Íslandi.

Sex árum eftir styttan af Saddam Hussein var rifin niður og ringulreiðin hófst í Bagdad sat Layla ráðvillt í hvítmálaðri stofu í Sýrlandi og handfjatlaði ljósmynd af börnunum sínum. Það var þar sem ég hitti hana. Ég hafði heyrt af því að á meðal íraska flóttafólksins í Sýrlandi væri kona sem ætti strák sem sótt hefði um hæli á Íslandi og hafði því upp á henni meðan ég dvaldi í Damascus. Úr myndarömmum á veggnum í stofunni hjá Laylu brostu þau til mín, Noordin, bróðir hans sem stunginn var með hníf í Bagdad, fjölskyldufaðirinn sem öfgamenn skutu fyrir að túlka fyrir Bandaríkjaher – og dóttirin sem sá honum blæða út.

Layla reyndi að bera sig vel, bauð upp á te, beit á jaxlinn. Síðan byrjuðu tárin hægt og hljótt að renna.

„Hvernig endaði þetta allt svona? Hvað á ég að gera? Hvað verður um okkur?“

Íslendingurinn hummaði og hæjaði, hóf að muldra eitthvað um mannúð og réttlæti, en áttaði sig síðan á að hann hafði ekki græna glóru um hvað hann átti að segja við ráðvillt foreldri með sundraða fjölskyldu. Eitt barna Laylu var á flótta með henni í Sýrlandi. Annað heimilislaust í Grikklandi. Yngsti sonurinn og augasteinninn á Íslandi.

Layla sjálf sjúklingur eftir árás mannræningja í Bagdad. Bakveik. Búin á því. Brotin á sál eftir stríð sem hún bað ekki um.

„Maðurinn minn var drepinn. Við hin verðum drepin ef við förum aftur til Írak. Ég sjálf get tæpast verið áfram í Sýrlandi því spariféð fer að klárast og hér er enga vinnu að fá og ekki hægt að vera til frambúðar. Og það vilja okkur engin önnur lönd. Í alvörunni, HVAÐ Á ÉG AÐ GERA?“

Hún hélt krampakenndu taki í fjölskyldumyndina í rammanum. Hóf að tala út í eitt. „Ég er svo hrædd um hvað gerist... við Noordin heyrumst á hverjum degi og hann segir mér svo margt gott um Ísland... vonandi fær hann að vera þar... ég heyrði að það væri kominn nýr dómsmálaráðherra og kannski gerir hann eitthvað nýtt, eitthvað annað en sá sem var áður. Veistu, ég horfi svo oft á landakortið og virði Ísland fyrir mér... hann Noordin minn er meira að segja farinn að tala smá íslensku!“

Layla brosti, stolt af augasteininum sínum, en tók síðan um höfuðið á sér. „Ég bið ekki um annað en að það verði í lagi með börnin mín.“

Síðan kom sumar og svo kom haust og hálfu ári eftir að við kvöddumst í Sýrlandi náði lögreglan á Íslandi í son Laylu. Nokkrum klukkustundum síðar var búið að setja Noordin um borð í flugvél og senda í burtu. Hann hafði þá verið hér á landi í heilt ár.

Á tæknimáli hljómar gjörningurinn svo: Grikkland var inngangur Noordins inn á Schengen-svæðið. Aðildarlöndum Schengen er samkvæmt Dyflinnar-reglugerðinni heimilt að vísa hælisleitendum til þeirra ríkja sem þeir komu frá – í tilfelli Noordins til Grikklands. Það er þá í höndum grískra yfirvalda að taka beiðni hans um hæli til efnislegrar meðferðar, en ekki íslenskra stjórnvalda.

Á mannamáli hljómar þetta svo: Íslensk yfirvöld mega senda hælisleitendur eins og Noordin til baka – en það er ekkert í lögunum sem segir að þau verði að gera það. Þau mega taka mál efnislega fyrir hér á landi ef þau vilja. Yfirvöld hafa hins vegar verið óspör á að nýta sér möguleikann á brottvísun þegar þau geta. Gera það raunar nær undantekningarlaust.

Noordin og hinum sem einnig voru sendir úr landi í gær, er með öðrum orðum vísað burtu án þess að mál þeirra séu tekin formlega fyrir eða nokkur efnisleg afstaða tekin til þeirra – önnur en sú að þetta sé ekki okkar vandamál. Grísk yfirvöld verði að díla við þá.

Nú vill svo til að Grikkland er að drukkna í flóttafólki. Líkurnar á því að fá hæli þar í landi eru hverfandi. Einungis 0,05% hælisleitenda fá raunar hæli þar í fyrstu atrennu. Líkurnar á að detta í lukkupottinn eru með öðrum orðum einn á móti 2000

Vænlegt?

Hælisleitendur mega áfrýja úrskurðinum. Eftir dúk og disk, margra mánaða ferli, jafnvel margra ára – fá 90% hælisleitenda í Grikklandi nei við hælisbón sinni.

Þegar íslensk yfirvöld taka ákvörðun eins og þá í gær – að eftirláta grískum yfirvöldum að taka fyrir mál drengsins Noordin, í stað þess að gera það sjálf – eru þau varla að óska þess að hann endi aftur í Írak. Síður en svo.

Það er hins vegar freistandi að álykta sem svo að þau séu að stinga höfðinu í sandinn. Það liggur einfaldlega fyrir að yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem biður um hæli í Grikklandi verður ekki að ósk sinni.

Nú gæti einhver viljað fullyrða að þurfi Noordin raunverulega á vernd að halda – og stafi lífshætta af því að enda aftur í Írak – hljóti hann að verða einn af þessum sem fá hæli í Grikklandi. Það verði að treysta yfirvöldum þar í landi til að meta þessi mál. Það að senda hann þangað sé allt eftir bókinni, Dyflinnar-reglugerðinni blessaðri.

Staðreynd málsins er sú að í fyrra sóttu 20.000 manns um hæli í Grikklandi og á sama tíma voru þar 30.000 ókláraðar hælisbeiðnir. Starfsmaður sem tekur viðtal við 20-25 hælisleitendur á hverjum degi á augljóslega ekki hægt um vik að skera úr um hver er í hættu og hver ekki. Hvar lendir mál eins og mál Noordins í jafnyfirfullu kerfi?

Það liggur í hlutarins eðli að legu sinnar vegna er Grikkland mun líklegri fyrsti viðkomustaður inn á Schengen-svæðið heldur en eyríkið Ísland. Raunveruleikinn með umræddu kerfi hefur raunar orðið sá að nokkur ríki syðst í Evrópu sitja uppi með vandann.

Samt allt eftir bókinni. Þetta má.

Einhver gæti viljað benda á að önnur Evrópuríki nýti sér hiklaust möguleika Dyflinnar-reglugerðarinnar og sendi fólk til baka til Grikklands. En gerir það málið betra?

Það að margir geri eitthvað þarf ekki að þýða að það sé rétt. Það að fjármálaspekúlantar byrjuðu í hrönnum að byggja flókið kerfi afleiðuviðskipta og senda gróðann á undarlegar aflandseyjar, þýddi ekki að það væri sniðugt. Raunar sjá allir í dag að það var mesta vitleysa.


Rétt er að hafa í huga að hlutfall þeirra sem fær á endanum hæli eftir að mál þeirra hafa verið tekin formlega fyrir, er mishátt eftir því um hvaða lönd ræðir. Þannig gæti það raunverulega gerst að grísk yfirvöld meti Noordin ekki í hættu og sendi hann aftur til Íraks, á sama tíma og eitthvert annað land hefði talið að honum bæri að fá vernd. Kerfið er ekki óbrigðulla en svo.

Í ofanálag telja Rauði krossinn og aðrir að um 90% hælisleitenda í Grikklandi fái ekki gistipláss í miðstöðvum fyrir hælisleitendur þar í landi á meðan þeir bíða eftir úrskurðinum. Fái enga fjárhagsaðstoð frá grískum stjórnvöldum, ekki mat, ekki heilbrigðisaðstoð – ekkert af því sem þeir eiga að fá samkvæmt kerfinu blessaða.

Layla veit raunar allt um þetta. Síðastliðinn vetur horfði hún upp á Munaf son sinn – eldri bróður Noordins – þvælast á milli staða í Aþenu. Hann var búinn að sofa úti í marga daga þegar ég hitti hana í fyrsta sinn. Þeim bræðrum hafði á sínum tíma verið sagt að þeir gætu valið á milli þess að koma sér aftur til Íraks eða vera áfram í Grikklandi og reyna að fá þar hæli – en þeir skyldu þá vita að þar fengju þeir enga hjálp.

Nú þekki ég ekki mál þeirra tveggja sem sendir voru af landi í gær ásamt Noordin – einum frá Írak og öðrum frá Afganistan – en varðandi mál Noordins Alazawi stendur þetta eftir:

Unglingsstrákur horfir á fjölskyldu sína ofsótta í Írak eftir að landið varð að lögleysu. Var sjálfum rænt og handviss um að hann yrði tekinn af lífi. Hann slapp. Komst yfir til Sýrlands með móður sinni. Átti erfiða vist þar. Hefur frá því að hann var fimmtán ára þvælst frá Írak til Sýrlands til Tyrklands til Grikklands til Belgíu til Grikklands til Íslands – og er nú enn á ný kominn til Grikklands. Drengurinn þvælist stað úr stað, eftir innrás sem hann bað ekki um – og enginn vill taka ábyrgð á honum.

Hvað gerir maður þá í hans sporum fái maður nei í Grikklandi?

Sest að í Írak?

Nei, ekki ef maður býst við að vera aflífaður þar. Kannski verður í lagi að fara þangað eftir tíu ár, fimmtán, tuttugu – en ekki núna, ekki meðan þeir sem hótuðu líflátinu og drápu pabba manns eru þar allir enn.

Hvað gerir maður þá? Hrökklast aftur yfir til nágrannaríkisins Sýrlands?

Verst að þá er maður aftur kominn á byrjunarreit og í nákvæmlega sömu sporum og við fyrsta flóttann frá Írak.

Nema hvað að þá er maður í millitíðinni orðinn nítján en ekki fimmtán – og væntanlega löngu búinn að missa trúna á réttlæti í heiminum.