21. okt. 2011 : Viðtal við Lovísu Guðmundsdóttur, heimsóknavin

Lovísa Guðmundsdóttir er búin að vera heimsóknavinur hjá Kópavogsdeild í hátt í tvö ár. Hún ákvað að gerast heimsóknavinur eftir að hún hætti að vinna eins og hún segir sjálf frá: „Ég ætlaði að vinna þangað til ég yrði 67 ára en því miður varð ég að hætta vegna heilsubrests. Það er ekki auðvelt að þurfa að hætta vinnu fyrir aldur og mig langaði að gera eitthvað gagnlegt. Ég vissi að Rauði krossinn væri með alls konar sjálfboðaliðastörf ég fór í Rauðakrosshúsið í Kópavogi og sé ekki eftir því.“

18. okt. 2011 : Viðtal við Sigrúnu Guðmundsdóttur, gestgjafa í heimsóknaþjónustu

Sigrún Guðmundsdóttir, sem er nýorðin 84 ára, hefur fengið til sín heimsóknavin frá Kópavogsdeild um nokkurra mánaða skeið. Dóttir Sigrúnar hafði samband við deildina fyrir hönd móður sinnar og óskaði eftir heimsóknavin fyrir hana. Sigrún og heimsóknavinurinn hittast einu sinni í viku og finnst henni það ágæt tilbreyting. Þau fara út að ganga saman og henni finnst gott að hafa stuðninginn í göngutúrunum. „Það er gott að fá félagsskapinn“, segir hún einnig og mælir með heimsóknaþjónustunni.

19. apr. 2011 : Gæðastundir í heimsóknaþjónustu

Í hverri viku fer hópur heimsóknavina Rauða krossins í heimsóknir til gestgjafa sinna til að gefa af sér gæðastund. Í heimsóknaþjónustu er lagt upp með að maður er manns gaman og snýst hún því um samveru og það að njóta félagskapar hvors annars.

Í Hafnarfirði hafa heimsóknavinir verið að störfum frá árinu 2002 og nú eru 25 sjálfboðaliðar í heimsóknaþjónustu. Heimsótt er bæði inná einkaheimili og á stofnanir. Það sem er hvað skemmtilegast við heimsóknaþjónustuna er að verkefnið er bæði fjölbreytt og sveigjanlegt. Allir geta auðveldlega tekið þátt og fundið heimsókn við sitt hæfi. Hvað gert er í heimsóknum er samkomulag á milli heimsóknavinar og gestgjafa og getur það t.d. verið spjall, lestur dagblaða, skák eða gönguferðir svo eitthvað sé nefnt.

30. mar. 2011 : Maður er manns gaman!

Heimsóknavinir er eitt eftirsóttasta sjálfboðaliðaverkefni Rauða krossins og flestar deildir félagsins eru með það á verkefnaskránni.

Þórunn Sigurðardóttir gerðist heimsóknavinur fyrir stuttu. Gestgjafi hennar er öldruð kona sem hefur áhuga á að fara í göngutúr þrátt fyrir að hún þarf að styðjast við göngugrind. Markmiðið er að hitta hana einu sinni í viku.

27. jan. 2011 : Bætist í hóp hundaheimsóknavina á Norðurlandi

Haldið var námskeið í húsnæði  Akureyrardeildar fyrir þá heimsóknavini sem vilja heimsækja með hunda. Þetta var annað námskeið þessa eðlis sem haldið hefur verið á Norðurlandi.

Þátttakendur komu frá þremur deildum á svæðinu þ.e. Akureyrar-, Skagafjarðar- og Húsavíkurdeild og voru fulltrúar frá síðastnefndu deildinni að sækja svona námskeið í fyrsta sinni.

Gunnhildur Jakobsdóttir og Brynja Tomer fluttu erindi um hjálparhunda fyrir hundaeigendurna en  að því búnu flutti námskeiðsfólk sig yfir í dvalarheimilið Hlíð þar sem fram fór úttekt á hundunum.