Nýir söngvinir bætast í hópinn hjá Kópavogsdeild

9. feb. 2012

Tveir nýir söngvinir hafa bæst í hóp heimsóknavina Kópavogsdeildar sem taka þátt í söngstundum á dvalarheimilum fyrir aldraða. Einnig hefur nýr sjálfboðaliði sem spilar á gítar hafið störf í sambýlinu fyrir aldraða í Roðasölum. Þar spilar hann undir og syngur með vistmönnum og fleiri sjálfboðaliðum. Hann leysir einnig af í hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð á meðan leitað er að öðrum gítarspilara til þess að sjá um söngstundina þar á fimmtudögum.

Tveir hópar af sjálfboðaliðum sjá um söngstundir í hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð og einn í Roðasölum. Nokkrir af sjálfboðaliðunum í Sunnuhlíð hafa sinnt starfinu á mánudögum og fimmtudögum í yfir 20 ár. Þeir hafa varla misst úr dag og alltaf verið tilbúnir að aðstoða í viðburðum á heimilinu eins og í kirkjuferð á kirkjudegi aldraðra, haustferðum og á aðventugleði í desember. Söngvinirnir í Sunnuhlíð hlutu viðurkenningu fyrir sitt starf í þágu deildarinnar á síðasta ári.

Kópavogsdeild fagnar þessum áhuga nýrra sjálfboðaliða og hvetur fólk til að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is ef það hefur áhuga á að taka þátt í verkefninu. Deildin hvetur sérstaklega fólk sem spilar á hljóðfæri að hafa samband.

Á mynd: Svavar Knútur, nýr sjálfboðaliði Kópavogsdeildar að störfum í Roðasölum