Hyllti Kristján konung tíunda

Kristínu Heiðu Kristinsdóttur

22. feb. 2010

Miklar eru þær breytingar sem hafa átt sér stað í íslensku samfélagi frá því hún Sigurrós fæddist fyrir hundrað árum. En áhersla hennar á að vera almennilega til fara hefur ekkert breyst á heilli öld. Greinin birtist í Morgunblaðinu 20.02.2010.

Ég hef aldrei verið iðjulaus,“ segir Austfirðingurinn Ólöf Sigurrós Ólafsdóttir þegar hún er innt eftir því hvernig ævi hún hafi átt. Hún situr enn við og heklar þótt hún sé nánast orðin blind. Minnið bregst henni ekki þarfrek en í öðru, þrátt fyrir að hún fagni hundrað ára afmæli á morgun.  Í  tilefni dagsins verður hóf í salnum í Sóltúni þar sem Sigurrós býr á hjúkrunarheimili og þeir Helgi Seljan og Sigurður Jónsson ætla að koma og stjórna fjöldasöng. „Þetta verður mikil söngveisla. Sigurður spilar afskaplega vel,“ segir Sigurrós með áherslu en hún er mjög músíkölsk og hefur yndi af því að syngja. Hún fer annan hvern miðvikudag í hús eldri borgara í Stangarhyl til að syngja en þar stjórna þeir félagar hennar Helgi og Sigurður söng fyrir eldri borgara.

Dansað á palli í Atlavík
Sigurrós syngur sópran en hún lærði á sínum tíma söng hjá doktor Victor Urbancic. „Ég hef sungið í fjölmörgum króum um ævina og ég óst upp við mikinn söng á bernskuheimili mínu. Pabbi söng svo vel og hann spilaði á orgel sem við systkinin lærðum líka á. Krakkarnir komu af öðrum bæjum til að syngja með okkur. Það var afskaplega létt andrúmsloft á heimili mínu á uppvaxtarárunum.,“ segir Sigurrós sem fæddist og ólst upp á bænum Brimnesgerði í Fáskrúðsfirði árið 1910. Í byrjun tuttugustu aldarinnar var heldur betur annar bragur á öllu en nú er og Sigurrós man því tímana tvenna. Þá voru húslestrar viðhafði á heimilum sem og sálmasöngur. Og fólk lagði mikið á sig til að berja augum fyrirmenni. Þegar Sigurrós var sextán ára, árið 1926, vílaði hún ekki fyrir sér sólarhringsferðalag með vinkonu sinni til Seyðisfjarðar til að hylla konunginn Kristján tíunda, sem þá kom í heimsókn til Íslands ásamt konu sinni Alexandrínu drottningu. „Á sumrin ferðuðumst við unga fólkið langan veg með bát á kassabíl til að komast á dansleik í Atlavík. Þá var dansað þar á palli. Það var heldur betur skemmtilegt,“ segir Sigurrós og það glaðnar yfir henni þegar hún rifjar upp gamla sumarbjarta daga. Hún man líka vel eftir því að hafa saltað síld samfleytt í heilan sólarhring á Búðum með vinkonu sinni og svefnleysið varð til þess að þær hlógu einhver ósköp.

Vinnuharka í fiskvinnunni
En þótt oft hafi verið glatt á hjalla var ekki alltaf sólskin hjá fjölskyldu Sigurrósar. Barnaveiki og berklar hjuggu skörð í systkinahóp hennar og árið 1918 varð spænska veikin Lovísu systur hennar að bana, en hún hafði nýlokið orgelnámi í Reykjavík. Eftir þann harmleik fluttist fjölskyldan að Dvergasteini á Búðum þar sem flestir unnu við fiskvinnslu. „Þar fengum við krakkarnir að finna fyrir mikilli vinnuhörku,“ segir Sigurrós sem veiktist af berklum í framhaldi af því og var send suður til Reykjavíkur, sautján ára. „Berklarnir fóru illa með mig og ég sigraðist á þeim.“ Sigurrós varð aftur mjög veik þegar hún var ung kona, en þá lamaðist hún að hluta til og gat ekki notað hendurnar að neinu gagni mjög lengi og hefur aldrei náð sér fyllilega. „Þetta var óþekkt baktería og engin meðul voru til við henni, enda var þetta fyrir tíma fúkkalyfja. Þetta var hroðalega vont og enginn hélt að ég myndi lifa þetta af. Sjálfri datt mér aldrei neitt annað í hug en ég kæmist yfir þetta. En það var sárt að geta ekki spilað framar á píanóið.“

Starfaði sem sjálfboðaliði
Eftir að Sigurrós fluttist til Reykjavíkur starfaði hún í nokkur ár hjá Hreini/Síríus við að steypa kerti. Seinna lærði hún bókhald og vann hjá Vélasjóði til margra ára. Einnig kenndi hún bókfærslu um tíma á Hvanneyri. Hún hefur lagt mikið af mörkum í sjálfboðastarfi yfir ævina. „Ég lærði hjálp í viðlögum og ég fékk nælu og blána slopp og starfaði sem sjálfboðaliði á sjúkrahúsum. Ég vann líka lengi sem sjálfboðaliði hjá Systrafélaginu Alfa sem er á vegum aðventista, ég stýrði þar og stjórnaði. Við sendum meðal annars fatnað til Afríku til fátæka fólksins,“ segir Sigurrós sem gekk ung að árum til liðs við aðventista. „Ég trúi á Guð og reyni að halda hvíldardaginn heilagan.“

Talar nokkur tungumál
Í höfuðborginni kynntist hún eiginmanni sínum, Guðmundi I. Guðjónssyni, stofnanda og skólastjóra Kennaraskólans. Þau giftu sig um miðja tuttugustu öldina og bjuggu mestalla sína búskapartíð á Neshaganum í vesturbænum. Sigurrós ferðaðist heilmikið um heiminn með Guðmundi í tengslum við störf hans og hún var fljót að tileinka sér erlend tungumál. Guðmundur lést fyrir tæpum fjörutíu árum og Sigurrós varð því ekkja þegar hún var aðeins um sextugt. „Það var hræðilegt að missa hann. Okkur þótti svo vænt hvoru um annað. Guðmundur var yndislegur maður,“ segir Sigurbjörg og því til staðfestingar vitnar hún í eftirmæli sem skrifuð voru um eiginmanninn en  þar var sagt að Guðmundur og Páll postuli hefðu verið góðir sálufélagar.

Fer á kaffihús í hverri viku
Sigurrós segist kunna ágætlega við sig í Sóltúni en þangað flutti hún fyrir aðeins tveimur árum, þegar hún var 98 ára. „Sem betur fer bjó ég heima hjá mér fram að því. En ég er svo ánægð með að hún Bergdís kemur til mín í hverri viku,“ segir Sigurrós og á þar við Bergdísi Kristjánsdóttur hjá heimsóknarþjónustu Rauða krossins sem hefur heimsótt hana á hverjum miðvikudegi undanfarin fimm ár. „Bergdís mín er engum lík, ég hefði ekki getað verið heppnari. Hún er algjört yndi.“ Bergdís segir að þær tvær séu orðnar miklar vinkonur og kunni vel hvor á aðra. „Þetta eru góðar stundir og allir í minni fjölskyldu vita að ég geri ekkert fyrir þau á miðvikudögum,  því það er dagurinn okkar Sigurrósar. Við förum alltaf eitthvað út, skreppum til dæmis á kaffihús og fáum okkur eitthvað gott í gogginn. Annan hvern miðvikudag förum við svo og tökum þátt í söngstundinni í Stangarhylnum og Sigurrós kann alla textana.“

Alltaf verið mikil pjattrófa
Þegar blaðamann bar að garði voru þær vinkonurnar meðal annars að velta fyrir sér í hvaða kjól Sigurrós ætti að vara á stórafmælisdaginn. Bergdís segir hana vera rosalega pjattrófu og þá hlær Sigurrós hátt og gengst hiklaust við því. „Mér er alls ekki sama hvernig ég lít út. Ég fór aldrei út úr húsi hér áður nema á háum hælum og með hatt. Þegar ég vann um tíma á Hressingarskálanum var ég á örmjóum hælum og fékk sár á fæturna, en ég gafst ekki upp,“ segir hún og hlær að eigin þrjósku. „Og hvað gerir það til þótt ég sé pjattrófa? Hver verður að vera eins og hann er. Mér fannst aldrei neitt annað koma til greina en að vera almennilega til fara. Hattarnir voru alveg gasalega skemmtilegir. Ég átti líka flottan ref sem ég hafði um hálsinn en þegar lappirnar á honum voru orðnar ómögulegar þá klippti ég þær af og saumaði feldinn sem kraga á kápu.

Sigurrós er svo gæfusöm að hafa haldið andlegri heilsu þátt fyrir háan aldur og hún fylgist vel með, hlustar á fréttir og hefur skoðanir á hlutunum. Henni líst ekker á ástandið í þjóðfélaginu og óhófið sem varð okkur að falli. „Heiðarleikinn er dýrmætur,“ segir hún þegar hún er spurð um heilræði handa ungu kynslóðinni sem nú er að vaxa úr grasi.