Heimsóknavinur með hund

7. maí 2010

Heimsóknavinir Rauða krossins eru í öllum stærðum og gerðum. Jafnvel hundar hafa tekið að sér þetta mikilvæga verkefni, með hjálp eigenda sinna. Áður en sjálfboðaliðar sem eiga hunda taka að sér heimsóknir sækja þeir námskeið á vegum Rauða krossins. Nýverið var eitt slíkt námskeið haldið en fyrirlesari á námskeiðinu var Brynja Tomer. Fyrirlesturinn var fræðandi og skemmtilegur og áttu sér stað fjörugar umræður í lok námskeiðsins.

Árlega heimsækja sjálfboðaliðar Rauða krossins hundruð einstaklinga sem eru félagslega einangraðir. Árið 2006 hófst starfsemi hundavina og er verkefnið að erlendri fyrirmynd.

Hverja heimsækja hundavinir?  Hvenær og hversu oft?  Hvernig sækir fólk um að fá hundavin í heimsókn?
Heimsóknavinir með hunda eru tilbúnir að fara í heimsóknir á dvalar- og hjúkrunarheimili aldraðra, í athvarf fyrir geðfatlaða, á sambýli, í fangelsi og inná heimili. Tíðni heimsókna er mismunandi, í flestum tilvikum er miðað við eina klukkustund í senn, einu sinni í viku. Þeim sem hafa áhuga á að fá hundavin í heimsókn er bent á að snúa sér til viðkomandi deildar Rauða kross Íslands.

Hvaða áhrif hafa heimsóknir hundavina? Hvað fá þeir sem heimsóttir eru og þeir sem heimsækja út úr heimsókninni og samverunni? 
Þær íslensku rannsóknir sem gerðar hafa verið sýna fram á aukna vellíðan þeirra sem eiga samneyti við hundana og aukið frumkvæði, t.d. einhverfra og þunglyndra. Víða um heim eru hundaheimsóknir notaðir til þjálfunar og endurhæfingar sjúklinga. Einnig hafa erlendar rannsóknir sýnt fram á bætta líðan og aukin lífsgæði þeirra sem heimsóttir eru. Þeir sjálfboðaliðar sem eru í þessu verkefni verða varir við mikla ánægju og jákvæða umræðu í heimsóknum sínum. Einnig aukinn áhuga á útivist og hreyfingu þar sem gestgjafar vilja gjarnan viðra hundana í heimsóknum. 

Geta allir sem eiga hund tekið þátt í sjálfboðaliðastarfi hundavina?
Já, en ákveðnar reglur gilda um hundavini. Viðkomandi sjálfboðaliði þarf að sitja námskeið hjá Rauða krossi Íslands ásamt því að hundurinn þarf að undirgangast atferlismat hjá sérfræðingi. Hundarnir þurfa að vera orðnir fullþroska (tveggja ára) og í góðu andlegu jafnvægi. Æskilegt er að hundarnir hafi áhuga á samskiptum við ókunnuga og séu óhræddir við nýjar aðstæður.

Ef óskað er eftir heimsóknavini með hund til að fara inn á stofnun skal leitað eftir leyfum/undanþágu hjá viðkomandi heilbrigðisyfirvöldum áður en hundur fer í heimsókn á vegum Rauða kross Íslands.

Það að vera sjálfboðaliði með hund er gefandi verkefni og ánægjuleg upplifun bæði fyrir sjálfboðaliðann og hundinn.