Hekla er heimilishundur með hlutverk

3. des. 2010

Fyrsti hundurinn til að sinna sjálfboðnu starfi fyrir Rauða krossinn í Mosfellsbæ heitir Hekla. Hún er vinaleg blendingstík og heimilishundur Völu Friðriksdóttur líffræðings. Hekla gegnir margföldu hlutverki sem heimsóknavinur Rauða krossins.

„Ég hafði fylgst með umfjöllun um heimsóknir sjálfboðaliða Rauða krossins með hund og fannst að það væri eitthvað fyrir mig, bæði vegna þess að mig langaði til þess að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi og vegna þess að mér fannst Hekla tilvalin í verkefnið. Í fyrrahaust skráði ég mig svo sem sjálfboðaliða en við Hekla byrjuðum þó ekki að fara í heimsóknir saman fyrr en nú í vor,” útskýrir Vala sem í millitíðinni sótti námskeið fyrir heimsóknavini og annað í sálrænum stuðningi auk þess að að pakka hjálpargögnum fyrir fórnarlömb jarðskálftans á Haítí í janúar.

Hekla hjartahlýja lætur sér ekki nægja að fara hálfsmánaðarlega í heimsókn með Völu heldur fer hún í hverri viku í heimsókn til annars gestgjafa Rauða krossins með tengdadóttur Völu, Elísabetu Heiðu Stefánsdóttur, nema í hjúkrunarfræðum. „Ég skráði mig sem heimsóknavin fyrir ári síðan og við Hekla fórum svo í okkar fyrstu heimsókn í janúar,“ segir Elísabet og útskýrir að ferlið frá skráningu til fyrstu heimsóknar sé nokkuð langt.

„Fyrst fer hundurinn í persónuleikamat og ef hann fær grænt ljós fer eigandinn á námskeið Rauða krossins um heimsóknarþjónustu. Í framhaldinu hefur starfsfólk Rauða krossins svo milligöngu um að heimsóknavinur heimsæki gestgjafa. Ef allt gengur vel í fyrstu heimsókn kemur fólk sér saman um hvenær og hversu oft heimsótt er,“ útskýrir Elísabet.

Vala og Elísabet segja Heklu hafa haft sérstaklega mikið vægi í fyrstu heimsóknunum til gestgjafa sinna. „Það var  svo auðvelt að fara í heimsókn með Heklu. Hún krafðist mikillar athygli og vildi fá sínar strokur hjá gestgjafanum þegar við komum og svo þurfti að gefa henni nammi og vatn,“ segir Vala  en bætir við að þegar kynni séu komin á sé hundurinn frekar skemmtileg viðbót. „Það er líka gaman fyrir hundinn að hafa hlutverk. Hekla veit alveg hvað er að gerast þegar lagt er af stað til gestgjafa og hún liggur í taumnum af spenningi,“ segir hún.

„Við gestgjafinn minn gerum ótal margt saman þegar ég heimsæki hann. Við förum saman í bíltúr og fáum okkur ís, spilum á spil eða horfum bara saman á sjónvarpið,“ segir Elísabet. Vala segir samveruna og spjallið einmitt það mikilvægasta en að hundurinn gefi líka tilefni til að fara út að ganga og fá holla hreyfingu. 

„ Að sinna þessari þjónustu er bæði þroskandi  og gefandi og það fylgir því góð tilfinning að gefa eitthvað aftur til samfélagsins,“ segir Vala. „Já, og  okkur finnst að fleiri hundaeigendur þyrftu að vita af þessu skemmtilega starfi,“ segir Elísabet  og vill endilega hvetja aðra hundaeigendur til að taka þátt í verkefninu, bara drífa sig af stað.

Heimsóknarvinir og heimsóknir með hund
Hlutverk heimsóknavina er að veita gestgjöfum sínum félagsskap, nærveru og hlýju. Árið 2009 heimsóttu 600 sjálfboðaliðar Rauða krossins og 50 hundar um 700 gestgjafa sem eru fólk á einkaheimilum, dvalarheimilum, hjúkrunarheimilum, sambýlum og sjúkrahúsum, hælisleitendur, fangar og fólk með geðraskanir.

Hefur þú áhuga á að gerast heimsóknarvinur? Áhugasamir eru eindregið hvattir til að hafa samband við Kjósarsýsludeild Rauða krossins í síma 564-6035 eða netfangi kjos@redcross.is. Ef þú hefur áhuga á sjálfboðnu starfi getur þú sent inn umsókn hér.