Heimsóknir með hund

Auðunn S. Auðunsson

18. okt. 2010

Ég gerðist heimsóknarvinur með hund snemma þessa árs. Mitt verkefni er að fara með hund og heimsækja og gleðja aldraða og alzeimer sjúklinga á Droplaugarstöðum. Ég fer með tíkina mína hana Skottu (6ára) sem er æðisleg í þetta verkefni. Hún heillar alla uppúr skónum og margir bíða spenntir eftir komu okkar en við heimsækjum aðra hverja viku, klukkutíma í senn. Við löbbum um allar deildir og heimsækjum eins marga og við getum.

Það sem ég gerði mér ekki grein fyrir þegar byrjaði hve margir fá sjaldan eða aldrei heimsóknir. Að sjá bros myndast í andlitum gestgjafanna bara við að sjá hund. Gleðin verður ennþá meiri þegar gestgjafarnir fá að gefa henni hundanammi, klappa og strjúka.

Skotta æsist öll upp þegar Rauða kross klúturinn er settur upp, þá veit hún hvað er um að vera. Það er svo gaman að sjá hvað hún hefur gaman að því að fara á Droplaugarstaði með mér.

Ég er alltaf í sæluvímu eftir heimsóknirnar, þetta eru forréttindi og hvet ég hér með alla sem eiga hunda að kynna sér málið og skella sér svo í heimsókn, þetta er svo gefandi.