Hjartahreinir í heimsókn

Kristel á Morgunblaðinu

17. júl. 2010

Rauði krossinn heldur úti verkefninu Hundavinir. Í því felst að hundar heimsækja einstaklinga, stofnanir eða sambýli og gleðja fólk í kringum sig. Verkefnið er á fjórða starfsári og hefur hlotið frábærar viðtökur. Greinin birtist í Morgunblaðinu 17.07.2010.

Verkefnið Heimsóknavinir hefur verið til í nokkurn tíma hjá Rauða krossinum en þá heimsækja sjálfboðaliðar fólk til að spjalla eða lesa og fleira. „Árið 2006 var ég nýkomin heim af skemmtilegri hundaráðstefnu í Svíþjóð og var uppfull af hugmyndum eins og svo oft eftir fundi eða námskeið. Þá datt mér í hug að inn í þessar heimsóknir Rauða krossins gætu komið hundar," segir Brynja Tomer um upphaf verkefnisins sem hún er einn helsti hvatamaður að. „Ég hafði ekki verið heimsóknavinur hjá Rauða krossinum en hins vegar hafa hundar verið hluti af lífi mínu mjög lengi. Ég er sannfærð um jákvæð áhrif hunda á líf mannfólksins og til eru margar rannsóknir, bæði erlendar og íslenskar, sem sýna slíkar niðurstöður,“ segir Brynja og talar um að hundar séu lífverur sem geti nýst okkur á fjölbreyttan hátt, meðal annars í verkefni sem þessi.

Einn möguleiki af mörgum
Upphaflega sá Brynja fyrir sér að hundar gætu glatt fólk með því að koma í heimsókn. Hún fékk jákvæð viðbrögð við hugmyndinni hjá Rauða krossinum, tók saman upplýsingar um svipuð verkefni annars staðar í heiminum og setti fram eigin útfærslu sem farið hefur verið eftir síðan. „Hundar eru meðal annars notaðir í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, björgunar- og leitarstörf og sem þerapía inni í fangelsum. Heimsóknirnar eru aðeins einn möguleikinn,“ segir Brynja en lögð var áhersla á að fara rólega af stað með verkefnið enda voru ákveðnar hindranir sem þurfti að takast á við. „Í fyrsta lagi er bannað að koma með hunda inn í opinberar stofnanir, þar með taldar sjúkrastofnanir. Fyrir alla heimsóknahunda Rauða krossins þarf því að sækja um sérstakt leyfi fyrir þá. Það hefur verið auðsótt en þetta er ákveðið ferli sem getur tekið tíma, segir Brynja en auk þess þarf að vanda valið á hundunum sjálfum því ekki henta allir hundar til verkefnisins.

Sendiherrar allra hunda
Hægt er að sækja um þátttöku í verkefninu fyrir alla hunda en sú krafa er gerð að þeir séu orðnir tveggja ára. Brynja metur hundana meðal annars með því að sjá hvernig þeir bregðast við í ókunnum aðstæðum en hún er prófstjóri í skapgerðarmati og kann sitthvað um atferli hunda. „Ekki fara allir hundar í gegnum athugun athugasemdalaust en sumir hundar henta ekki. Það þarf að velja hunda af mikilli kostgæfni en ég lít á hundana í verkefninu sem sendiherra allra hunda, hundaeigenda og Rauða krossins. Þetta verða að vera eigendur með mikla ábyrgðartilfinningu og hundar sem eru félagslyndir og taugasterkir. Gestgjafar þurfa að fá hund sem hefur gaman af heimsókninni,“ segir Brynja en allir heimsóknavinir fara á námskeið hjá Rauða krossinum og hundaeigendur sækja aukalega námskeið til Brynju. Hver sem er getur óskað heimsókna, einstaklingar, sambýli eða stofnanir en flestir hundanna fara til eldri borgara. Ýmist er hægt að leika við hundana, umgangast eða fara út að ganga með þá, allt eftir þörfum gestgjafa.

Fara ekki í manngreinarálit
Brynja leggur áherslu á að allir njóta góðs af verkefninu - hundarnir og gestgjafar hafa gaman af heimsóknunum og eigendum hundanna finnst skemmtilegt að láta gott af sér leiða og sjá hundinn sinn gleðja aðra. Allir þátttakendur vinna sjálfboðavinnu og fleiri bætast í hópinn þótt vöxturinn sé hægur.
„Hundar eru hjartahreinir og þykir vænt um fólk skilyrðislaust. Þeir fara ekki í manngreinarálit og eru góðir félagar. Nærvera þeirra eykur andlega og líkamlega vellíðan og þeir henta betur en mannfólk til að rjúfa félagslega einangrun ákveðinna einstaklinga. Þeir hafa ekki fordómana eða forsendurnar sem við gefum okkur í samskiptum og það skiptir þá ekki máli hvort þú ert blindur eða hefur brotið eitthvað af þér,“ segir Brynja en verkefnið hefur hlotið góðar viðtökur hjá öllum sem kynnast því.

„Tvisvar sinnum á þremur árum hafa hundar úr verkefninu verið heiðraðir sem afrekshundar árisns hjá Hundaræktarfélagi Íslands fyrir sín störf. Við erum að rifna úr stolti yfir þeim,“ segir Brynja.

Draumaverkefni í smíðum
Brynja tekur fram að líkt og verkefnið hentar ekki öllum hundum hentar það heldur ekki öllu fólki. Ef einhverjum líkar ekki við hunda er þeim aldrei þröngvað upp á neinn heldur eru gerðar viðeigandi ráðstafanir ef einhverjir kæra sig ekki um heimsókn. Í dag eru um 50 hundar sem fara í heimsóknir á landinu öllu en þetta er fjórða starfsár verkefnisins. Brynja á sér fleiri draumaverkefni með hundum sem bíða framkvæmdar.

„Þetta verkefni er bara fyrsta skrefið og ekkert nema himinninn hindrar okkur. Til eru verkefni með hundum sem tengjast menntakerfinu en þá eru hundar notaðir til að hjálpa börnum sem eiga við tal- og lestrarerfiðleika að stríða. Það er viðurkennt að hafa gefið góða raun en krakkar ná betri tökum á lestri, auka lestrarhraða og verða skýrmæltari. Ímyndaðu þér krakka sem stama, eru látnir lesa upphátt í bekknum og allir hlæja? Hundurinn gerir það ekki,“ segir Brynja og talar um að verkefni sem þetta sé tækifæri sem auðveldlega sé hægt að nýta á Íslandi.
kristel@mbl.is