Fyrsti ferfætti heimsóknavinur Kjósarsýsludeildar

16. feb. 2010

Nú er Kjósarsýsludeild komin með sinn fyrsta heimsóknavin með hund og bjóðum við þær stöllur Heklu og eigenda hennar hjartanlega velkomnar til starfa! 

Hekla heimsækir reglulega ungan mann hér í Mosfellsbæ og er hverrar heimsóknar beðið með mikilli eftirvæntingu. Hekla skemmtir sér einnig hið besta í heimsóknunum og nýtur þess að vera miðpunktur athyglinnar. 

Þó nokkur undirbúningur liggur að baki hundaheimsókna. Eigendur hundanna byrja á því að láta skoða hundinn til að ganga úr skugga um að hann henti í verkefnið. Standist hundurinn matið þarf eigandinn að ljúka þriggja tíma námskeið fyrir almenna heimsóknavini og klukkutíma námskeiði sem er sér sniðið að hundaheimsóknum. Eftir það er fundinn gestgjafi sem vill fá heimsókn frá hundi og eiganda hans.

Heimsóknavinir eru sjálfboðaliðar sem heimsækja gestgjafa sína reglulega.  Markmið heimsóknanna að rjúfa félagslega einangrun og sýna vináttu, enda höfum við öll þörf fyrir félagsskap og nærveru. Hvað gert er fer allt eftir óskum gestgjafa.  Margir kjósa að lesa saman, hlusta á tónlist eða útvarp, spila, tefla, föndra eða tala saman.  Einnig fara margir í göngu- eða ökuferðir eða fara saman á kaffihús eða bíó. Sjálfboðaliðar sækja undirbúningsnámskeið hjá Rauða krossinum og eru bundnir trúnaði við þá sem þeir heimsækja.

Ef þú vilt fá heimsóknavin Rauða krossins til þín, eða gerast heimsóknarvinur getur þú haft samband við Kjósarsýsludeild í síma 898-6065 eða í netfangið kjos@redcross.is.