Ofboðslega gefandi fyrir alla

12. mar. 2012

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10.03.2012

„Ég er búin að eiga hunda síðan 1983 og þetta er held ég það allra skemmtilegasta sem ég hef kynnst í sambandi við hunda," segir Brynja Tomer, sem átti hugmyndina að því að hundar bættust í hóp heimsóknarvina Rauða krossins, sem heimsækja ýmsa samfélagshópa í hverri viku.

Brynja hafði verið á ráðstefnu í Svíþjóð árið 2005 þar sem umfjöllunarefnið var hvernig hundar gætu bætt lífsgæði manna. Hundarnir heimsækja nú einkaheimili, hjúkrunarheimili, spítala og sambýli meðal annars ásamt eigendum sínum. Hundarnir þurfa að standast próf hjá Brynju til að fá að heimsækja fólk.

„Þetta er ofboðslega gefandi, það sem er svo gaman við þetta er að allir njóta góðs af. Þeir sem fá hundana í heimsókn hafa yfirleitt gaman að því að umgangast dýr.“

Fríða Björnsdóttir á þrjá hunda og fékk nýlega leyfi fyrir þá alla. Hún hefur farið í nokkur skipti með hundinn Möndlu á Hrafnistu í Kópavogi og hefur haft gaman af því.