Maður er manns gaman!

30. mar. 2011

Heimsóknavinir er eitt eftirsóttasta sjálfboðaliðaverkefni Rauða krossins og flestar deildir félagsins eru með það á verkefnaskránni.

Þórunn Sigurðardóttir gerðist heimsóknavinur fyrir stuttu. Gestgjafi hennar er öldruð kona sem hefur áhuga á að fara í göngutúr þrátt fyrir að hún þarf að styðjast við göngugrind. Markmiðið er að hitta hana einu sinni í viku.

Í annarri heimsókn Þórunnar kom upp þetta sígilda, hvað við Íslendingar erum fámenn þjóð. „Það kom í ljós að hún hjúkraði ömmu minni heitinni og alnöfnu á Hrafnistu í Hafnarfirði í mörg ár og var í miklu uppáhaldi hjá ömmu, sem móðir mín staðfesti,“ segir Þórunn. „Á svipuðum tíma og ég var að velja mér heimsóknarvin dreymdi mömmu ömmu Þórunni skælbrosandi. Skemmtileg tilviljun?“

Þórunn nýtur þess að vera heimsóknavinur og segist örugglega ekki fá minna út úr heimsóknunum en gestgjafinn.

Öll höfum við þörf fyrir félagsskap, nærveru og hlýju. Heimsóknavinur Rauða krossins er sjálfboðaliði sem heimsækir gestgjafa sinn að öllu jöfnu einu sinni í viku. Farið er á heimili eða stofnanir. Og sumir fara með hunda sem sérstaklega eru þjálfaðir til heimsókna.

Sjálfboðaliðar sem heimsækja fara á sérstakt námskeið hjá Rauða krossi Íslands. Þeir sem áhuga hafa geta skráð sig á heimasíðunni hér.