Gæðastundir í heimsóknaþjónustu

19. apr. 2011

Í hverri viku fer hópur heimsóknavina Rauða krossins í heimsóknir til gestgjafa sinna til að gefa af sér gæðastund. Í heimsóknaþjónustu er lagt upp með að maður er manns gaman og snýst hún því um samveru og það að njóta félagskapar hvors annars.

Í Hafnarfirði hafa heimsóknavinir verið að störfum frá árinu 2002 og nú eru 25 sjálfboðaliðar í heimsóknaþjónustu. Heimsótt er bæði inná einkaheimili og á stofnanir. Það sem er hvað skemmtilegast við heimsóknaþjónustuna er að verkefnið er bæði fjölbreytt og sveigjanlegt. Allir geta auðveldlega tekið þátt og fundið heimsókn við sitt hæfi. Hvað gert er í heimsóknum er samkomulag á milli heimsóknavinar og gestgjafa og getur það t.d. verið spjall, lestur dagblaða, skák eða gönguferðir svo eitthvað sé nefnt.

Heimsóknavinir Hafnarfjarðardeildar heimsækja gestgjafa sína einu sinni í viku og hittast svo á samveru einu sinni í mánuði þar sem ýmist fer fram spjall eða fræðsla af ýmsu tagi. Umsjón með verkefninu hefur hópstjórn sem Guðrún Emilsdóttir, María Björnsdóttir og Sigurborg Magnúsdóttir skipa. Allar nánari upplýsingar um heimsóknaþjónustu veitir Kolbrún Guðmundsdóttir í síma 565-1222 eða í tölvupóstfangi [email protected].

Heimsóknaþjónusta er starfrækt hjá flestum deildum Rauða krossins. Þeir sem áhuga hafa á að ganga til liðs við félagið geta sett inn umsókn á heimasíðunni.