• Heimsoknavinir_kaffibollar

Heimsóknavinir rjúfa einangrun og einsemd

23. sep. 2015

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23.09.2015
Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is

Meðal margra sjálfboðaliða Rauða krossins eru um 450 heimsóknavinir um allt land. Hlutverk þeirra er fyrst og fremst að rjúfa einsemd og einangrun fólks sem af einhverjum ástæðum hefur misst samband við aðra, eða á ekki heimangengt. Heimsóknavinir veita félagsskap og hlýja nærveru og gera lífið skemmtilegra.

Einmanaleiki er hryllilegasta fátækt sem til er, sagði Móðir Teresa, sem efalítið þekkti flestar birtingarmyndir fátæktar, efnislegar, félagslegar og andlegar, hjá skjólstæðingum sínum og samferðamönnum. Þrátt fyrir almenna velsæld og oft slétt og fellt yfirborð hafa annað slagið birst sorglegar fréttir um að hér á landi hafi fólk legið lengi heima hjá sér látið, af því að enginn hafði vitjað þess svo vikum eða mánuðum skipti. Slík tilvik eru að vísu afar fátíð, en þó eru mörg dæmi um að aðstæður verði til þess að fólk missir samband við aðra og einangrast.

Góðu fréttirnar eru þær að heimsóknavinir Rauða krossins eru ávallt boðnir og búnir að veita öllum þeim sem óska og á þurfa að halda félagsskap og hlýja nærveru. Þeirra hlutverk er að rjúfa einangrun fólks, stytta því stundirnar og gera líf þess skemmtilegra.

Þótt heimsóknavinaverkefni Rauða krossins hafi verið eitt stærsta og útbreiddasta verkefni félagsins í fimmtán ár, eða frá því það var sett á laggirnar í núverandi mynd, segir Guðný Björnsdóttir, sviðsstjóri deildaþjónustu, mikilvægt að vekja á því athygli. „Í kynningarviku Rauða krossins 27. september til 3. október verður sérstök áhersla lögð á að kynna verkefnið. Okkur sem að því stöndum er ljóst að þeir sem þurfa á þjónustunni að halda og aðstandendur þeirra vita margir hverjir ekki um tilvist heimsóknavina.“

Guðný segir víða mikla þörf fyrir heimsóknavini og því haldi Rauði krossinn reglulega námskeið fyrir sjálfboðaliða sem vilja vera með í verkefninu. Næsta námskeið sem deildirnar fjórar á höfuðborgarsvæðinu standa að í sameiningu verður 28. september.

„Heimsóknavinir eru á öllum aldri og af báðum kynjum, frá tvítugu og upp úr, en þó fleiri í eldri kantinum, oft fólk sem er hætt á vinnumarkaðnum. Þeir eiga það fyrst og fremst sameiginlegt að hafa áhuga á mannlegum samskiptum, vilja láta gott af sér leiða í samfélaginu og bera virðingu fyrir öðrum.“

Um 450 manns sinna starfanum um allt land og flestir árum saman. Eftir námskeiðið má búast við að fleiri bætist í hópinn. Guðný giskar á að gestgjafarnir séu að jafnaði um 900 ef ýmsir hópar eru taldir með, því auk þess að heimsækja fólk í heimahús fara vinirnir í heimsóknir á sjúkrahús, hjúkrunar- og dvalarheimili og fleiri stofnanir.

„Einsemdin er áberandi í okkar samfélagi. Frá árinu 1996 höfum við kannað reglulega hvar mest þrengir að. Einsemdin er alltaf rauði þráðurinn í okkar könnunum,“ segir Guðný.

Einangruð ungmenni
Einnig kom fram að einsemdin er að skjóta rótum hjá nýjum hópi. „Margt ungt fólk á lítil sem engin mannleg samskipti augliti til auglitis. Öll félagsleg samskipti þess eru á netinu og þótt það telji sig ekki einangrað blasir við að það fer mikils á mis. Til að mynda lærir það ekki að lesa í svipbrigði eða á milli línanna ef svo má segja.“
 
Þar sem ungmennin gera sér ekki grein fyrir einangruninni sem í þessu felst segir Guðný erfitt að ná til þeirra. Henni finnst þó ástæða til að Rauði krossinn og fleiri skoði niðurstöðurnar nánar með tilliti til þess að leita leiða til að koma til móts við þau á þeirra forsendum.
Rétt eins og er markmið heimsóknavina hvað gestgjafa þeirra áhrærir. Vinirnir eru sveigjanlegir og láta gestgjafana um að velja hvernig heimsóknatímanum er varið. Stundum vilja þeir bara vera heima og spjalla, hlusta með þeim á tónlist, spila og föndra. Eða fara á kaffihús, í göngu, bíó eða bíltúr ef þeir eiga heimangengt. „Við heimsækjum fólk til að gefa því gæðastund, en ekki til að stjórna lífi þess,“ segir Guðný.

Samskipti, virðing og mörk eru leiðarstefin á námskeiðum sem haldin eru fyrir heimsóknavini. Á námskeiðunum segir Guðný stundum svokallaðar klípusögur, sem fjalla um rétt viðbrögð í ýmsum kringumstæðum, t.d. ef gestgjafinn vill endilega gefa gjafir, sem heimsóknavinum er óheimilt að þiggja.

Guðný viðurkennir að stundum geti komið upp kátbroslegar aðstæður. Henni finnst falleg sagan af einum gestgjafanum, eldri konu, sem frábauð sér frekari heimsóknir. „Samt hafði farið mjög vel á með henni og heimsóknavininum. Skýring gömlu konunnar var sú að henni fannst undirbúningurinn of mikil fyrirhöfn fyrir sig. Í ljós kom að hún bauð alltaf upp á trakteringar, sem heimsóknavinurinn gat ómögulega afþakkað þótt honum væri þvert um geð að borða brauð og tertur í hverri heimsókn. Þetta var húsmóðir sem vildi taka vel á móti sínum gestum.“

Ökuvinir og félagsvinir
Hundavinir eru hluti af heimsóknavinaverkefninu. Hundurinn er í aðalhlutverki og fara eigendur þeirra með þá í heimsóknir á heimili sem og stofnanir fyrir langveik börn, aldraða og fatlaða. Af öðrum útfærslum verkefnisins nefnir Guðný ökuvini, sem byrjaði í Vestmannaeyjum og gengur út á að fara í bíltúr með eldra fólk. Einnig félagsvini, verkefni hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins, sem er stuðningur í níu mánuði við fólk af erlendum uppruna við að aðlagast samfélaginu.

Hressandi fyrir sálina
HeimsoknavinirMbl„Ég fæ gömlu karlana af því ég er svo gamall sjálfur,“ segir galvaskur Steingrímur Guðni Pétursson í gríni og alvöru. Hann er 72 ára, við hestaheilsu og hefur verið heimsóknavinur í hartnær sjö ár, eða frá því hann hætti sem símamaður hjá Símanum. „Ég kynntist manni sem hafði verið heimsóknavinur og hann benti á mig. Síðan fór ég á námskeið hjá Rauða krossinum, sem var mjög góður undirbúningur. Það gleður mig mikið að geta gefið af mér með þessum hætti auk þess sem ég fæ ábyggilega ekkert minna út úr þessum heimsóknum en þeir sem ég hef heimsótt um dagana,“ segir Steingrímur Guðni.

Hann er núna - og hefur verið í hátt á annað ár - heimsóknavinur Óskars Guðmundssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Iðnfræðsluráðs. Óskar, sem verður níræður í desember og dvelur á hjúkrunarheimilinu Skjóli, segir fara einstaklega vel á með þeim félögum. Honum finnst heimsóknavinaverkefni Rauða krossins til mikillar fyrirmyndar. „Heimsóknir Steingríms Guðna hressa upp á sálina,“ segir Óskar.

„Við tölum saman um alla heima og geima, til dæmis pólitík og landsmálin,“ upplýsir Steingrímur Guðni og Óskar tekur í sama streng. Þeir hittast oftast um þrjúleytið á þriðjudögum, fá sér kaffi og rabba saman um landsins gagn og nauðsynjar. Stundum kemur Steingrímur Guðni á jeppanum sínum og þeir fara í bíltúr. „Oftast vestur á Granda eða niður að höfn. Eins og flestum karlmönnum finnst okkur voða gaman að fylgjast með lífinu þar sem og mannlífinu yfirleitt,“ segir Steingrímur Guðni.

Táta gerir alla káta

HundavinurMblHeimsóknavinur með hund er eitt verkefni heimsóknavina, sem slegið hefur í gegn á undanförnum árum. Auk þess að sækja námskeið fyrir heimsóknavini þurfa eigendur hundanna að fara á námskeið sem sniðið er að hundaheimsóknum og fara með hundinn í skoðun til að meta hvort hann henti í verkefnið.

Linda Björk Eiríksdóttir, sjúkraliði og þroskaþjálfi, og tíkin hennar, hún Táta, stóðust prófin með glans. Táta er blanda af Golden Retriever og stórri púðlutegund, einstaklega skapgóð og þægileg að sögn eigandans. „Táta kom í fjölskylduna þegar við bjuggum á Bretlandi og fylgdi okkur þegar við fluttumst heim 2011,“ segir Linda Björk, sem var sjálfboðaliði í barnaskóla þar ytra. „Mig langaði að fara aftur í einhvers konar sjálfboðaliðastarf. Þegar Rauði krossinn auglýsti eftir heimsóknavini með hund fannst mér Táta alveg tilvalin í verkefnið. Við byrjuðum fyrir tveimur árum að heimsækja börn í Rjóðrinu, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og fötluð börn, þar sem ég starfa reyndar líka aðra hvora helgi. Nú stendur til að við förum í heimsóknir í Sunnuhlíð, dvalarheimili aldraðra.“ Linda Björk segir börnin taka Tátu fagnandi og henni finnist voða gaman að láta klappa sér. „Sjálfri er mér mikils virði þegar ég finn að einhver hefur gaman af að fá okkur í heimsókn.“

 
Gæðastundir með heimsóknavinum

  • Um 450 manns um allt land heimsækja um 900 einstaklinga á vegum Rauða krossins.
  • Heimsóknavinir heimsækja gestgjafa sína að jafnaði einu sinni í viku á heimili eða stofnanir. Meðal gestgjafanna eru eldra fólk, fatlaðir, geðfatlaðir, fangar og hælisleitendur.
  • Þeir sem vilja gerast heimsóknavinir geta sótt um á vefsíðu Rauða krossins eða snúið sér beint til deildar Rauða krossins á viðkomandi stað.
  • Allir heimsóknavinir þurfa að fara á sérstakt námskeið hjá Rauða krossinum.
  • Fyrirkomulag heimsóknanna er samkomulagsatriði, en ávallt á forsendum gestgjafanna.
  • Heimsóknavinir leitast við að rjúfa einsemd og einangrun fólks.