Hundavinir kynntir hjá Krossgötum

30. jan. 2015

Ferfættir heimsóknavinir Rauða krossins vöktu mikla lukku á kynningu hjá Krossgötum, félagi hjúkrunarfræðinema, í Eirbergi sl. föstudag. Sjálfboðaliðar mættu með hundana sína en þeir starfa í verkefni Rauða krossins  Hundaheimsóknavinir. Verkefnið er hluti af áhersluverkefni Rauða krossins í Kópavogi, heimsóknavinum, þar sem markmiðið er að rjúfa einangrun, veita félagskap og nærveru. Fjölmargir nýta sér þessa þjónustu. Hundavinir eru starfræktir um allt land og fara þeir í heimsóknir bæði á einkaheimili sem og dvalarheimili, sambýli og einnig á hvíldarheimili langveikra barna.

Hjúkrunarfræðinemar hafa verið að kynna sér hvernig hundar geta nýst sem hjúkrunarmeðferð hjá fjölmörgum. Erlendis hafa slíkar meðferðir skilað mjög góðum árangri þar sem hundar taka virkan þátt í þjálfun og endurhæfingu. Hundar ná að tengjast fólki á annan hátt og gefa mikið af sér. Það hefur verið mikil ánægja með hundavinina og er það upplifun sjálfboðaliða að þetta veiti gestgjöfum mikla gleði og ánægju. Þar af leiðandi teljum við að verkefnið sé að skila árangri og virkileg þörf sé á að halda slíku verkefni áfram.

Rauði krossinn í Kópavogi er ánægður með að fá tækifæri til að kynna verkefnið hjá flottum hjúkrunarfræðinemum sem eru tilbúnir að kynna sér óhefðbundnar leiðir til að bæta líðan og framfarir sjúklinga sinna.

Við þökkum þeim kærlega fyrir styrk að upphæð 11.000 krónur, sem veittur var til hundavina Rauða krossins og mun styrkurinn koma að góðum notum í verkefninu.

Hjúkrunarfræðinemarnir ásamt heimsóknahundavinum Rauða krossins
Hjúkrunarfræðinemarnir í félaginu Krossgötur
Mjög áhugaverð kynning