Fjölgun í hópi heimsóknavina Kópavogsdeildar

15. feb. 2006

Hluti af þátttakendum á námskeiði fyrir heimsóknavini.
Kópavogsdeild hélt í kvöld námskeið fyrir nýja sjálfboðaliða í heimsóknaþjónustu. Nýir heimsóknavinir munu því hefja störf á næstunni enda ekki vanþörf á þar sem deildin hefur fengið allmargar óskir um heimsóknir sjálfboðaliða að undanförnu. Meirihluti þeirra sem notfæra sér þjónustuna eru aldraðir en þó eru nokkrir yngri, allt niður í tvítugt.

Heimsóknavinir eru sjálfboðaliðar sem rjúfa einsemd og félagslega einangrun með heimsóknum á einkaheimili eða stofnanir. Heimsóknavinir veita félagsskap m.a. með því að spjalla, lesa fyrir viðkomandi og fara í gönguferðir. Heimsóknir eru að jafnaði einu sinni í viku í klukkustund. . 

Í kjölfar landskönnunar sem Rauði kross Íslands gerði árið 1999 á þörfum þeirra sem minnst mega sín fjárhagslega og félagslega gerði Kópavogsdeild sambærilega staðbundna könnun í Kópavogi árið 2003. Niðurstöður leiddu í ljós að mikil þörf er fyrir úrræði eins og heimsóknaþjónustu til þess að rjúfa einsemd fólks. Sú þörf hefur ekki minnkað.

Á næstu vikum og mánuðum býðst nýju sjálfboðaliðunum frekari fræðsla og þjálfun, svo sem námskeið í almennri skyndihjálp, sálrænum stuðningi og grunnnámskeið Rauða krossins.