Öflugt starf heimsóknavina í Skagafirði

11. jan. 2007

Mánaðarlegur samverufundur heimsóknavina í Skagafjarðardeild Rauða krossins var haldinn í vikunni. Að þessu sinni mættu góðir gestir frá landsskrifstofunni, Linda Ósk verkefnisstjóri í heimsóknaþjónustu og Guðný svæðisfulltrúi. Auk þeirra mættu 14 konur.

Konurnar sem flestar hafa verið með frá því verkefnið fór af stað, sögðu frá starfi sínu, en nokkrar þeirra hafa heimsótt sama gestgjafann alla tíð. Sögðust þær blátt áfram vera orðnar háðar heimsóknunum, svo  gefandi væri þetta verkefni.

Heimsóknaþjónustan er samstarfsverkefni Skagafjarðardeildar, kirkjunnar og félagsþjónustunnar í Skagafirði. Verkefnið hefur verið starfrækt í mörg ár og er eitt fyrsta verkefnið af þessum toga sem fór af stað á landsbyggðinni. Það er engan bilbug að finna á sjálfboðaliðunum, starfað er af fullum krafti.

Linda og Guðný sögðu frá reynslu af heimsóknavinaverkefnum annarra deilda Rauða krossins og fjölbreytileika þeirra. Í lokin var hópnum skipt í tvennt og lagðar voru fyrir þá klípusögur sem leystar voru af stakri prýði.