Sjálfboðaliðar hressa upp á daginn

Sigrúnu Ásmundar

10. apr. 2007

Heimsóknarþjónusta kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands er þarft og nauðsynlegt verkefni. Sigrún Ásmundar spjallaði við Örn Ingimundarson og Brynhildi Stefánsdóttur, en þau eru sjálfboðaliðar í heimsóknarþjónustunni. Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 15. nóvember 2006.

Allt frá árinu 1975 hefur hópur á vegum sjúkravina kvennadeildar Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands haft veg og vanda af heimsóknarþjónustu, en henni sinna sjálfboðaliðar. Í aðalatriðum snýst heimsóknarþjónustan um að sinna einstaklingum í heimahúsum og á stofnunum. Farið er heim til fólks og ýmist dvalið þar eða farið út og veittur er stuðningur og tilbreytingu hleypt í líf fólksins. Þannig er rofin einangrun þess. Starfið er mjög persónulegt og má nefna heimsóknir að sjúkrabeði, gönguferðir, lestur og aðstoð við sjónskerta, fötluðum er ekið í hjólastól úti, farið á kaffihús, söfn eða bara spjallað heima yfir kaffibolla. Á sjúkrastofnunum er lesið fyrir vistfólk. Vikulega er farið á vissar deildir, lesið og svo spjallað í klukkutíma. Það er mál manna að þetta séu notalegar stundir og sambandið persónulegt.

Sjö hópar eru taldir standa verst í íslensku samfélagi: öryrkjar, einstæðar mæður, innflytjendur, aldraðir, einstæðir karlar, geðfatlaðir og börn sem búa við erfiðar aðstæður.

Alltaf er þörf fyrir fleiri sjálfboðaliða til að sinna óskum um vinaheimsóknir sem heimsóknarþjónustu Reykjavíkurdeildar Rauða krossins berst um fyrirgreiðslu og má þar kannski nefna sérstaklega að þörf er fyrir fleiri karlmenn og ungt fólk.

„Þær vantar alltaf karlmenn"
„Þetta byrjaði þannig að konan mín var þarna á Hjálparsímanum," segir Örn Ingimundarson, en hann er einn af sjálfboðaliðunum sem sinna heimsóknarþjónustunni hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins. „Ég fór út í þetta af því að hún hvatti mig til þess, þegar ég hætti að vinna, að finna mér eitthvert gefandi starf hjá Rauða krossinum. Síðan æxlaðist þetta bara svona og ég bauð fram krafta mína...og ég fæ svo mikið út úr þessu,” segir Örn með mikilli áherslu. „Ég vil hvetja alla til að fara út í þetta. Kannski sérstaklega karlmenn því þær vantar alltaf karlmenn.”

Örn fer á sjúkrastofnanir og les fyrir fólk. „Ég fæ svo miklar þakkir og það er eiginlega það sem gefur mér mest,” segir Örn og bætir við að hann velji sjálfur efnið sem hann les. „Ég fer með kannski 3-4 bækur með mér, sé svo samsetninguna á hópnum og þá leiðir hvað af öðru.”

Örn fer einu sinni í viku á tvo staði, Hrafnistu í Reykjavík og á Eir. „Svo hef ég leyst af við lestur niðri í Skógarbæ,” segir hann.

Í hópnum sem hlustar á upplestur Arnar eru 12-14 manns. „Við sitjum við eitt borð eða röðum stólum í hring. Ég vel kafla og það má ekki vera mikil upptalning, atburðarásin þarf að vera dálítið hröð og helst tímabilið frá svona '20-'40, af því að þetta er aldrað fólk og það tímabil höfðar til þess. Tímabilið sem það man,” segir Örn og bætir við að fólkið njóti þess þá að rifja upp minningarnar. Eftir upplesturinn er spjallað saman um stund, oft um efnið, og Örn segir að honum finnist allt þetta fólk vera vinir sínir. „Ég kynntist t.d. konu um daginn sem var búsett í New York í 62 ár og það var ekki hægt að heyra á mæli hennar að hún hefði ekki komið til Íslands í rúm 40 ár. Sú kona er hingað komin til að eyða ævikvöldinu og það var svo gaman að spjalla við hana, hún var svo jákvæð.”

Örn segir þörfina fyrir þetta starf vera geysilega og það sé þess vegna mjög þarft. „Og, eins og ég sagði áðan, okkur vantar karlmenn,” ítrekar hann. „Það er málið. Menn sem eru hættir að vinna og vantar jafnvel eitthvað að gera.”

Örn er 68 ára gamall, var á sínum yngri árum skipstjóri hjá Hafskipi og síðar hjá skipadeild Sambandsins.

Langar að rifja upp minningar með fólki
„Ég var í námi í Kennaraháskólanum, á tómstunda- og félagsmálabraut,” segir Brynhildur Stefánsdóttir, sem er einn af sjálfboðaliðunum í heimsóknarþjónustu Reykjavíkurdeildar Rauða krossins, um tilurð þess að hún ákvað að taka þátt í starfinu. „Í náminu er komið víða við, það er tekið á málefnum barna og unglinga og aldraðra. Við kynntum okkur m.a. starfsemina í kringum eldri borgara og mér fannst þetta mjög áhugavert. Þá fór ég að hugsa um þetta, vissi af heimsóknarþjónustunni og þegar ég sá auglýsingu í blaði um daginn þá hugsaði ég með mér: ef ég hef ekki tíma í þetta þá hefur það enginn,” útskýrir Brynhildur. Hún er einhleyp en heldur heimili með bróður sínum og stundar fulla vinnu. „Ég hef ekki ömmu og afa hérna í borginni og ég sakna þess að hitta fólk sem er mér eldra og vitrara.” Brynhildur er fædd og uppalin á Sauðárkróki og á afa þar.

„Já, mig langar að kynnast gömlu fólki. Mig langar satt að segja bara að heimsækja einhvern, eins og ég væri að heimsækja ömmu og afa,” segir Brynhildur og hlær við. Hún er rétt að byrja sem sjálfboðaliði, hefur þó farið í félagsmiðstöðina á Vesturgötu á eigin vegum og fengið sér kaffibolla með fólkinu þar.

Það er mjög lítið um að svo ungt fólk sem Brynhildur, en hún er 27 ára gömul, bjóði sig fram í heimsóknarþjónustuna og aðspurð segir hún, jú, að konurnar hjá Rauða krossinum hafi verið ánægðar með að fá hana í hópinn. „Mér finnst einhvern veginn allir svo uppteknir í dag og ég hugsaði sem svo: klukkutími á viku, hver hefur ekki klukkutíma á viku? Systir mín á t.d. heima uppi á Akranesi og ég er dugleg að heimsækja hana og ef maður vill hefur maður meiri tíma en maður heldur,” segir Brynhildur og bætir svo við hugsi: „Ég held þetta snúist svolítið um það.”

Brynhildur segir að það sem hún vonist til að ná fram fyrir sjálfa sig sé fyrst og fremst samvera með fólki. „Svo eru margar sögur sem ég held að ungt fólk í dag sé ekkert að spá í og séu þess vegna að týnast. Mig langar að heyra sögurnar um hvernig lífið var hjá þessu fólki, það hefur auðvitað orðið svo ótrúleg breyting að það er kannski erfitt að gera sér grein fyrir því. Mig langar einmitt að heyra þessar sögur í von um að þær kveiki minningar hjá fólki sem hefur jafnvel engan til að rifja þær upp með.”

Brynhildur segir að lokum að hún vilji hvetja fólk á sínum aldri til að taka þátt í þessu starfi. „Það hafa allir gott af þessu,” segir hún, „þetta gerir alla að betri manneskjum. Og að sjálfsögðu hvet ég gamla fólkið til að nýta sér þjónustuna, það hressir upp á daginn.”